Sérfræðingur óskast

Jafnréttisstofa auglýsir laust til umsóknar starf sérfræðings. Starfshlutfall er 100%. Í boði er krefjandi starf í frjóu umhverfi sérfræðinga á sviði jafnréttis- og mannréttindamála þar sem reynir á öguð vinnubrögð, ábyrgð og sjálfstæði.

Jafnréttisstofa annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018. Jafnréttisstofa er staðsett á Akureyri.

Helstu verkefni sérfræðings eru:

Yfirferð og greining gagna vegna jafnlaunastaðfestingar með áherslu á starfaflokkanir og launagreiningar.

Þátttaka í teymi sérfræðinga á sviði jafnlaunastaðfestingar og jafnréttis á vinnumarkaði.

Þátttaka í öðrum verkefnum sem falla undir starfsemi stofnunarinnar.

 

Hæfniskröfur:

Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Æskilegt er að námið veiti sterkan grunn í úrvinnslu og greiningu gagna.

Þekking og reynsla af kjaramálum, jafnlaunamálum og jafnlaunavottun.

Þekking á sviði kynja- og jafnréttismála sbr. gildissvið ofangreindra laga er æskileg.

Reynsla af verkefnastjórnun.

Mjög góð skipulagsfærni.

Mjög góð færni í íslensku í ræðu sem riti.

Góð kunnátta í ensku.

Metnaður og vilji til að ná árangri.

Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.

 

Umsókn skal fylgja yfirlit náms- og starfsferils ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir hvernig viðkomandi uppfyllir hæfniskröfur fyrir starfið.

Starfið er laust strax.

Um launakjör fer samkvæmt kjarasamningum ríkisins við BHM.

Umsóknafrestur er til 25. janúar og skulu umsóknir berast Jafnréttisstofu, Borgum v. Norðurslóð, 600 Akureyri eða í tölvupósti í póstfangið jafnretti@jafnretti.is.

Nánari upplýsingar veitir Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri í síma 4606200, katrin@jafnretti.is

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Umsókn getur gilt í sex mánuði eftir að umsóknarfresti lýkur.