Orðabók

Orðabók Jafnréttisstofu inniheldur algeng hugtök í kynja- og jafnréttisfræðum, skilgreiningu þeirra auk enskrar þýðingar. Jafnréttisstofa hefur áhuga á að fá ábendingar um hugtök sem bæta ætti við listann og umræður um skilgreiningar sem gætu þurft breytingar.

Bakslag (e. backlash)
Það er talað um bakslag í jafnréttisbaráttunni þegar réttindi sem hafa áunnist tapast eða aukinn hlutur annars kynsins á vettvangi hins gengur tilbaka. Einnig er talað um bakslag þegar menningarlegt munstur veður íhaldssamara en áður var eða snýr til baka til eldri viðhorfa.

Jafnrétti kynjanna (e. gender equality)
Kringumstæður þar sem konur og karlar njóta sömu réttinda og tækifæra þannig að hegðun, væntingar, óskir og þarfir kvenna og karla eru jafnmikils metnar. Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil, og taki þátt í opinberu og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Samkvæmt Íslenskum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, á að gilda jafnrétti á Íslandi. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum samfélagssviðum.

Jákvæð mismunun (e. positve discrimination)
Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004: "Það er jákvæð mismunun þegar einstaklingur af því kyni sem hallar á er ráðinn í starf, að uppfylltum lágmarksskilyrðum, jafnvel þótt hæfari einstaklingur af hinu kyninu sé meðal umsækjenda." Jákvæð mismunun er ekki það sama og sértækar aðgerðir. Íslensk löggjöf styður sértækar aðgerðir en ekki jákvæða mismunun.

Klámvæðing (e. pornification)
Klámvæðing er hugtak sem notað er til að lýsa því þegar klám og vísanir í myndmál, táknmyndir og orðfæri kláms eru notaðar í okkar daglega umhverfi. Klámvæðingin birtist víða til dæmis í auglýsingum, tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og tísku. Þetta hefur leitt til þess að klámfengið efni hefur orðið sýnilegt og smeygja sér inn í daglega líf. Smátt og smátt hefur þetta aukið umburðarlyndi almennings gagnvart slíku efni sem er orðið samþykkt og jafnvel dáð menningarlegt fyrirbæri.

Kyn (e. sex)
Líffræðilegir meðfædd kyneinkenni sem sem gera manneskjur karlkyns eða kvenkyns s.s. eggjastokkar og eistu. Einnig eru til einstaklilngar sem hafa meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum sem samræmist ekki væntingum samfélagsins um það sem sé „eðlilegt“ og eru þá intersex.  

Kynblinda (e. gender blindness)
Kynblinda á sér stað þegar áhrif kyns eru ekki skoðuð. Einnig þegar fólk leiðir hjá sér eða kemur ekki auga á kynjamisrétti sem er til staðar í samfélaginu. Þetta gerist til dæmis þegar upplýsingar eru ekki kyngreindar eða ekki er tekið tillit til ólíkra þarfa kynjanna við stefnumótun.

Kynbundin áreitni
Samkvæmt 22. grein jafnréttislaga nr. 10/2008 er kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni bönnuð. Lögin skilgreina kynbundið áreitni sem hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Bæklingur um hvernig ber að bregðast við kynferðislegri áreitni má lesa hér. 

Kynbundinn launamunur (e. gender pay gap)
Sá munur á launum karla og kvenna sem stendur eftir þegar búið er að leiðrétta fyrir muni á menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu og vaktaálagi. Það er umdeilt hvað það er sem á að taka inn í reikninginn til dæmis er þátttaka á kynjanna á vinnumarkaði hluti af stærra félagslegu munstri. Konur taka frekar ábyrgð á heimilishaldi og börnum og er frekar í hlutastörfum, það sama á við um yfirvinnu og vaktavinnu. Eins eru hefðbundin kvennastörf ekki jafn mikils metin og hefðbundin karlastörf. Þetta eru þættir sem erfitt er að mæla en bera að hafa í huga.

Kynbundið ofbeldi (e. gender based violence)
Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. Skilgreiningin er í 2. grein jafnréttislaga.

Kynferðisleg áreitni (e. sexual harassment)
Samkvæmt 22. grein jafnréttislaganna nr. 10/2008 er kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni bönnuð.  Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Bæklingur um hvernig ber að bregðast við kynferðislegri áreitni má lesa hér.

Kyngervi (e. gender)
Hugtak sem er notað um félagslega tilbúin hlutverk kvenna og karla. Það sem við teljum kvenlegt og karlmannlegt er lærð hegðun. Kyngervi breytist með tímanum og er mismunandi innan og milli ólíkra menningarheima. Hugmyndin um að bleikt sé kvenlegur litur en blátt sé karlmannlegur er til dæmis félagslega mótuð hugmynd. Hugmyndir okkar um kvenleika og karlmennsku á ekki rætur að rekja til líffræðilegra þátta heldur mótast merking þessara eiginleika af menningunni hverju sinni.

Kyngreindar (tölfræði)upplýsingar (e. sex disaggregated statistics)
Hér er átt við að upplýsingum sem safnað er séu greindar eftir kyni. Samkvæmt 16. gr. jafnréttislaga 10/2008 skal greint á milli kynja við söfnun, úrvinnslu og birtingu upplýsinga. Upplýsingar um konur og karla á því alltaf að sundurgreina sé það mögulegt en slík gögn eru nauðsýnleg til þess að við getum áttað okkur á stöðu kynjanna.

Kynhlutleysi
Er hugtak sem notað er um þá hugmynd að kyn hafi ekki áhrif og er því ekki skoðað. Slík afstaða er varhugaverð því allstaðar þar sem fólk er hefur kyn áhrif og ber að skoða það við alla stefnumótun og ákvarðanir sem varðar fólk á einhvern hátt.

Kynhlutverk (e. gender roles)
Ákveðin hegðun eða hlutverk sem er tileinkuð öðru kyninu frekar en hinu. Kynhlutverkin eru hluti af menningu okkar og er viðhaldið eða breytist með henni. Þessu tengist hugtakið kynímyndir en það vísar til þerra staðalímynda sem við höfum um kynin.

Kynhneigð (e. sexuality)
Kynhneigð fólks ákvarðast af því hvort það hrífist kynferðislega af körlum eða konum og hvors kyns einstaklingurinn sjálfur er. Á íslensku tölum við um gagnkynhneigð, samkynhneigð og tvíkynhneigð. Aðrar flokkanir á kynhneigðum eru til. 

Kynjagleraugu
Skemmtilegt hugtak sem notað um fólk eða af fólki sem hefur komið auga á að kynin búa við ólíkar aðstæður. Það er talað um að setja upp kynjagleraugun til að leiðrétta kynblinduna eða laga þá sjónskekkju á stöðu kynjanna sem var fyrir. Oft er erfitt að taka þessi gleraugu niður því ef fólk hefur komið auga á misrétti á einu sviði er erfitt að loka augunum fyrir því á öðrum sviðum.

Kynjakerfi (e. gender order, patriarchy)
Kynjakerfi er hugtak sem notað er til að lýsa því félagslega yfirráðakerfi þar sem karlar njóta góðs af kerfisbundinni undirskipun kvenna.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð eða kynjuð fjárhagsáætlanagerð (e. Gender Budgeting)
Aðferðum kynjasamþættingar er beitt við fjárhagsáætlunar gerð, hvort sem það eru fjárlög ríkisins eða aðrar áætlanir. Kynjasjónarmið eru höfð haft að leiðarljósi á öllum stigum fjárlagaferilsins (eða áætlunargerðar) og tekjur og útgjöld endurskoðuð í þeim tilgangi að stuðla að jafnrétti kynjanna, með því að gera ráð fyrir þörfum og forgangsmálum (ólíkra hópa) kvenna og karla, með ólík hlutverk þeirra á heimili, vinnustað og í samfélaginu í huga. Hér má lesa meira um þessa aðferð.  

Kynskiptur vinnumarkaður (e.gender segregation in the labour market)
Kynskiptur vinnumarkaður einkennist af því að mikill meirihluti þeirra sem vinna ákveðin störf eru af öðru kyninu (80%). Góð dæmi um þetta eru hjúkrunarfræði, þar sem meirihlutinn er kvenkyns, og mannvirkjagerð, þar sem meirihlutinn er karlkyns. Vinnumarkaður á Norðurlöndum er mun kynskiptari en í öðrum löndum Evrópu.

Launamunur kynjanna
Launamunur kynjanna vísar til þess munar sem er á hreinum tekjum karla og kvenna. Hér er því ekki um að ræða sama hugtak og kynbundinn launamun, sem er einnig er skilgreindur hér.

Mismunun vegna kyns (e. discrimination)
Slík mismunun getur verið bein eða óbein. Samkvæmt 2. grein jafnréttislaga nr. 10/2008 á sér stað er bein mismunun þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar af gagnstæðu kyni við sambærilegar aðstæður. Óbein mismunun á sér hinsvegar stað þegar hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kemur hlutfallslega verr við annað kynið nema slíkt sé viðeigandi, nauðsynlegt eða réttlætanlegt vegna hlutlægra þátta óháð kyni. Þessi hlutlausu skilyrði, viðmið eða ráðstöfun getur verið lög, reglugerð, stefna eða aðrar aðgerðir.

Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða eða kynjasamþætting (e. gender mainstreaming)
Í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða felst að skipuleggja, bæta, þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu. Þessi skilgreining er kemur fram í 2. grein jafnréttislaga 10/2008 og er byggð á skilgreiningu Evrópuráðsins. Hér má lesa meira um aðferðina.

Sértækar aðgerðir (e. affirmative action)
Í 2. grein jafnréttislaga nr. 10/2008 eru sértækar aðgerðir skilgreindar sem sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi. Þorgerður Einarsdóttir skilgreinir hugtakið í Morgunblaðinu, 27. ágúst 2004. "Meginreglur íslensku laganna hafa verið skýrðar þannig að þegar val stendur milli tveggja JAFNHÆFRA einstaklinga skuli veita starfið einstaklingi af því kyni sem er í minnihluta. Enginn afsláttur er því gefinn í samkeppni um hæfni. Þetta má kalla forgangsreglu jafnréttislaganna. Þessi túlkun er viðtekin og þykir sjálfsögð og eðlileg leið til að leiðrétta kynjahlutföll í nútímasamfélögum." Sértækar aðgerðir eru ekki það sama og jákvæð mismunun.

Staðalmyndir (e. stereotypes)
Staðalmyndir eru fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, eins og hvernig það á að hegða sér og hvaða störf eru við hæfi þess. Sumar staðalmyndir hafa neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna og samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga 10/2008 á að vinna gegn þeim.

Vantar eitthvað?
Sendu okkur póst