Spurt og svarað

Um hvað snúast lög um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna?

 

Lög um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna 85/2018 tóku gildi 1. september 2018.

Með lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna er kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af efni tilskipunar 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna. Með skýru banni við mismunun er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Jafnréttisstofa annast framkvæmd laga þessara og skal 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda eftir því sem við getur átt.

Þannig lúta störf Jafnréttisstofu ekki eingöngu að stjórnsýslu í tengslum við jafnrétti kynjanna á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla heldur einnig að jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar annars vegar og jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu hins vegar. 

Um hvað snúast lög um jafna meðferð á vinnumarkaði?

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði tóku gildi 1. september 2018.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með skýru banni við mismunun á vinnumarkaði er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku atvinnulífi og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Jafnréttisstofa annast framkvæmd laga þessara og skal 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda eftir því sem við getur átt.

Þannig lúta störf Jafnréttisstofu ekki eingöngu að stjórnsýslu í tengslum við jafnrétti kynjanna á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla heldur einnig að jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar annars vegar og jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu hins vegar. 

Hvað er jafnlaunavottun?

Þann 1. janúar 2018 tóku gildi lög nr. 56/2017 um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Breytingin á við um 19. grein laganna sem fjallar um launajafnrétti.
Megin breytingin er sú að nú er fyrirtækjum og stofnunum skylt að sýna fram á að þau greiði jöfn laun fyrir sömu og jafnverðmæt störf. Í lögunum segir að „fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast vottun, sbr. 10. tölul. 2. gr., að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85, sbr. 1. gr. c staðalsins.“
Hér eru nánari upplýsingar.

Hvað er jafnréttisáætlun? Hverjir eiga að gera hana?

Jafnréttisáætlun er formlega samþykkt áætlun um aðgerðir sem hafa jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla að leiðarljósi. Jafnréttisáætlanir taka fyrst og fremst á stöðu kvenna og karla í atvinnulífinu. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Í jafnréttisáætlun þurfa að koma fram markmið og gera þarf áætlun um hvernig á að ná þeim markmiðum til að tryggja starfsfólki réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. gr. jafnréttislaga. Þessi réttindi lúta að lausum störfum, starfsþjálfun, endurmenntun og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.  Sjá nánar hér.

Hvaða reglur gilda um kvóta í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum?

Í 15 gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 segir að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli gæta þess að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en 3 fulltrúa er að ræða.

Hvaða reglur gilda um kvóta í stjórnum fyrirtækja?

Í mars 2010 voru samþykkt lög um kynjakvóta í stjórnum opinberra hlutafélaga, hlutafélaga sem hafa fleiri en 50 starfsmenn og stjórnum lífeyrissjóða. Lögin, sem tóku í gildi 1. september 2013, kveða á um a.m.k. 40% hlutfall hvors kyns í stjórn. Sama regla gildir einnig um stjórnir lífeyrissjóða.  

Hver getur leitað til kærunefndar jafnréttismála?

Hver sem telur að ákvæði laga hafi verið á sér brotið getur leitað til kærunefndar jafnréttismála. Gildir einu hvort um er að ræða einstakling, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna. Jafnréttisstofa getur einnig óskað eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar. Hægt er að leita ráðgjafar hjá Jafnréttisstofu þegar verið er að meta hvort ástæða sé til að senda kærunefndinni mál til meðferðar eða ekki. Sjá nánar hér.

Fæðingarorlof – hvernig eru reglurnar?

Nýbakaðir foreldrar hafa rétt á fæðingarorlofi sem samanstendur af 4 mánuðum fyrir móður, 4 mánuðum fyrir föður og 2 mánuðum sem hægt er að ráðstafa á milli sín. Hámarksgreiðsla fyrir foreldra í fullu fæðingarorlofi er nú 600.000 kr. á mánuði frá 1. jan. 2019. Nánari upplýsingar um upphæð greiðslna og ítarlegri reglur má finna á vef fæðingarorlofssjóðs.

Bera hjón jafna ábyrgð á börnum og heimili?

Já, það kemur fram í 2. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en þar segir að „Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlegra hagsmuna heimilisins og fjölskyldu. Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.“ 

Hvað felst í samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs?

Í 24. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 segir að: „Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.“
Í greinargerð vinnuhóps um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs fyrir hönd Velferðarráðuneytis sem kom út árið 2013 er talað um að gera heimasíðuna http://www.hidgullnajafnvaegi.is. Hið gullna jafnvægi er verkefni sem var falið Jafnréttisstofu, en það snýst einmitt um að upplýsa fólk um þeirra réttindi er varða samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífi.

Hvert er hlutverk jafnréttisráðs?

Jafnréttislög nr. 10/2008 tilgreina hlutverk og skipun jafnréttisráðs í 8. og 9. gr. Í 9. gr. segir að hlutverk jafnréttisráðs sé að starfa í nánum tengslum við Jafnréttisstofu og vera ráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þá skal jafnréttisráð undirbúa jafnréttisþing í samráði við ráðherra og leggja fyrir það skýrslu um störf sín.  Sjá nánar hér

Hvað er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnar í jafnréttismálum?

Samkvæmt 11. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 á ráðherra, sá sem fer með jafnréttismál, að leggja tillögu að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir Alþingi innan árs frá þingkosningum. Framkvæmdaáætlun á að vera til fjögurra ára og ráðherra á að fá tillögur að verkefnum frá einstökum ráðuneytum, Jafnréttisstofu og jafnréttisráði. Í framkvæmdaáætluninni eiga að vera verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til verkefna eiga að koma fram í áætluninni.

Til hvers er jafnréttisþing? Er það öllum opið?

Ráðherra sem fer með jafnréttismál boðar til jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum í samræmi við lög nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og er það ávallt ókeypis og öllum opið en alþingismenn, fulltrúar stofnana ríkis- og sveitarfélaga og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem vinna að jafnréttismálum skulu boðaðir sérstaklega. Á jafnréttisþingi leggur ráðherra fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála, þar sem m.a. skal koma fram mat á stöðu og árangri verkefna í gildandi framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Tilgangur jafnréttisþings er að efna til umræðu á milli stjórnvalda og þjóðarinnar um kynjajafnrétti ásamt því að leyfa þeim sem hafa áhuga að hafa áhrif á stefnumótun í jafnréttismálum Íslands.

Hvað eru sértækar aðgerðir í jafnréttismálum?

Í 2. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 eru sértækar aðgerðir skilgreindar sem tímabundnar aðgerðir til þess að jafna stöðu karla og kvenna og teljast ekki ólögleg mismunun. Í 24. grein jafnréttislaga nr. 10/2008, eru tímabundnar sértækar aðgerðir í jafnréttismálum gerðar löglegar. Sértækar aðgerðir vísa til kynjakvóta í stjórnmálum og í atvinnulífinu. Sértækar aðgerðir eru umdeildar vegna þess að sumum finnst þær ekki vera í anda jafnréttis en stuðningsfólk þeirra bendir á að í gegnum söguna hefur samfélagið kerfisbundið útilokað konur frá valdamiklum stöðum og því er talað um sértækar aðgerðir sem leiðréttingu á fyrrum óréttlæti. 

Hvað eru jákvæðar skyldur á vinnumarkaði?

Jákvæðar skyldur á vinnumarkaði (e. positive duties) eru notaðar með neikvæðum skyldum á vinnumarkaði. Neikvæðar skyldur banna mismunun gegn fólki í atvinnulífinu vegna kynferðis, kynþáttar, trúarbragða o.s.frv. Jákvæðar skyldur skylda atvinnulífið að gera eitthvað sérstaklega fyrir þessa hópa. Jákvæð skylda kemur m.a. fram í 21. gr. jafnréttislaga nr. 10/2008 sem segir að „atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu“.

Gilda kynjakvótar hjá dómstólum?

Nei, það gilda engir kynjakvótar við ráðningar dómara, hvorki til héraðsdómstóla né Hæstaréttar. Það eru hvergi í lögum slík ákvæði gildandi um skipanir í embætti.  

Hvað er samsköttun hjóna? Samræmist hún jafnréttissjónarmiðum?

Þegar tveir einstaklingar eru giftir eru þeir samskattaðir. Hjón geta því nýtt rétt hvors annars til skattlagningar í neðra þrepi tekjuskatts og millifært persónuafslátt sín á milli. Þessi millifæranleiki veldur því að að tekjur eru skattlagðar líkt og um tvo aðila sé að ræða, jafnvel þótt aðeins annar þeirra afli teknanna. Ástæða þessa fyrirkomulags er sú að með þessu móti hafa hjón meira val þegar kemur að því hvernig tekjuöflun er háttað og fyrirkomulagið getur aukið tekjur heimila þegar annar aðilinn er undir skattleysismörkum og hinn yfir þeim.
Hins vegar er þetta fyrirkomulag einnig umdeilt frá jafnréttissjónarmiði. Millifæranleiki persónuafsláttar getur ýtt undir hefðbundna verkskiptingu kynjanna með því að hækka þröskuld þess aðila sem aflar ekki tekna utan heimilis og getur því haft neikvæð áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði kvenna (þar sem konur eru oftar með lægri tekjur eða heimavinnandi).

Hvað er „free the nipple“?

Í mars 2015 birti ung stúlka mynd af sér þar sem hún beraði brjóst sín á samskiptamiðlinum Twitter undir millumerkinu #freethenipple. Í kjölfarið, eftir að gert var lítið úr henni, fóru fleiri stúlkur að setja inn berbrjósta myndir af sér henni til samstöðu og þúsundir fleiri Twitter notenda sýndu stuðning sinn í orðum. Undir þessu millumerki var verið að mótmæla þeim tvöfalda staðal að karlmenn mega bera geirvörtur sínar en geirvörtur kvenna verður að hylja, jafnvel þótt að þær þjóni einungis þeim tilgangi að fæða ungabörn. Það var verið að mótmæla klámvæðingu brjósta og kvenlíkamans. Þessi bylting spratt upp með ótrúlegum hraða og engu líkara en að fólk hafi verið í viðbragðsstöðu allan tímann og beðið aðeins eftir að einhver tæki fyrsta skrefið.

Hvað er það sem kennt er við „Beauty tips“?

Stuttu eftir „free the nipple“ byltinguna eða í maí 2015 hófst önnur bylting. Í þetta sinn í lokuðum hópi á Facebook sem ber nafnið Beauty Tips. Í þessum hópi voru tæplega 25 þúsund íslenskar konur. Upphaflegi tilgangur hópsins var að deila fegurðarráðum en fljótlega fór umræðan að snúast um alvarlegri málefni sem snerta konur. Konur fóru að deila sögum sínum af kynferðislegu ofbeldi. Fljótlega  var kominn gríðarlegur fjöldi af sögum og umræðan færðist fljótt yfir á Twitter undir millumerkjunum #þöggun og #konurtala. Í kjölfar áðurgreindra samfélagsumræðna náði hin svokallaða „Beauty tips bylting“ að hafa áhrif í borgarstjórn Reykjavíkur. Það var ákveðið að baráttan gegn kynbundnu ofbeldi væri fyrsta verkefni ofbeldisvarnarnefndar, sem stofnuð var í júní 2015. 

Út á hvað gengur #metoo byltingin?

Hvarvetna í heiminum er nú mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir millumerkinu #metoo. Vakningunni er ætlað að draga ofbeldið fram í dagsljósið og breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.

Ísland hefur ekki farið varhluta af #metoo vakningunni. Upphafið má rekja til þess að í nóvember 2017 sendu 419 stjórnmálakonur frá sér yfirlýsingu þar sem þær segja frá því að kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér stað í heimi stjórnmálanna. Í kjölfarið birtust fjölmargar frásagnir af ofbeldi og mismunun sem konurnar hafa þurft að þola.

Jafnréttisstofa bendir á að í 22. gr. jafnréttislaga er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir:
Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.
Í 18. gr. sömu laga er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Með jafnréttisáætluninni skal fylgja aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Þetta þýðir að allir stærri vinnustaðir eiga að vera með aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig koma á í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Jafnréttisstofa hvetur starfsfólk og nemendur til að kynna sér hvort slík áætlun sé til á þeirra vinnustað eða skóla.
Hvert er hægt að leita?:
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og sér um fræðslu og ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna. Senda má póst á netfangið jafnretti[at]jafnretti.is eða hringja í sími 460-6200.
Vinnueftirlitið fylgir því eftir að starfsumhverfi sé öruggt, heilsusamlegt og í samræmi við vinnuverndarlög. Senda má póst á netfangið vinnueftirlit[at]ver.is eða hringja í sími 550-4600.
Stéttarfélögin semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum fyrir hönd félagsmanna sinna og gæta hagsmuna þeirra á vinnumarkaði. Heildarsamtök launafólks eru Alþýðusamband Íslands http://www.asi.is/ , Bandalag stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu www.bsrb.is , Bandalag háskólamanna www.bhm.is og Kennarasamband Íslands www.ki.is
Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Senda má póst á netfangið stigamot[at]stigamot.is eða hringja í síma 562 6868 / 800 6868.
Aflið samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Senda má póst á aflid[at]aflid.is eða hringja í síma 857-5959 / 461-5959. 

Hvað er átt við með staðalmyndum kynjanna?

Þegar talað er um staðalmyndir er átt við ákveðin einkenni sem eru yfirfærð á ákveðinn hóp af fólki sem deilir ákveðnum einkennum eins og kyngervi, kynhneigð, kynþætti, trúarbrögð, þjóðerni o.s.frv. Staðalmyndir kynjanna eru því ákveðin persónueinkenni sem eru færð yfir á allar konur eða alla karla. Algeng dæmi eru t.d.: konur eru betur hæfar í umönnunarstörf, karlar eru árásagjarnir, karlar eru góðir leiðtogar, konur eru fylgjendur o.s.frv.
Staðalmyndir kynjanna eru skaðlegar vegna þess að þær hindra persónulegt frelsi einstaklinga með því að búa til pressu fyrir fólk að haga sér og vera á ákveðinn hátt, einungis vegna þeirra kyngervis. Þær búa til ákveðnar ályktanir um eðli kynjanna sem eru skaðlegar fyrir bæði kyn.

Út á hvað gengur kynjafræði?

Kynjafræði er þverfagleg fræðigrein sem leggur áherslu á að skoða og greina hlutverk og áhrif kyns og kyngervis í samfélaginu. Sjá nánar á Wikipedia.

Hvað eru hinsegin fræði?

Hinsegin fræði er þverfagleg fræðigrein sem skoðar málefni er varða kynhneigð og kyngervi.

Af hverju þarf að kyngreina tölulegar upplýsingar?

Það er nauðsynlegt að kyngreina allar tölulegar upplýsingar vegna þess að tölulegar upplýsingar hafa mikilvægt hlutverk í því hvernig við sjáum heiminn. Tölulegar upplýsingar stýra pólitískum ákvörðunum, þær sýna hvað þarf að bæta og hvað gengur vel. Á kvennaráðstefnunni í Peking árið 1995 var ákveðið, að þar sem konur og karlar lifa ólíku lífi, þá væri nauðsynlegt að safna, greina og birta gögn í sitthvoru lagi fyrir bæði kyn. Á sumum sviðum, eins og á heilsu- og menntasviðum, gerðu kyngreindar tölulegar upplýsingar fólki kleift að stýra þjónustu og inngripum til beggja kynja á meira viðeigandi hátt. Til þess að skilja betur ójafnrétti kynjanna er mikilvægt að kyngreina tölulegar upplýsingar á öllum sviðum eins og t.d. atvinnu, fasteignum og kynbundnu ofbeldi. Kyngreining tölulegra upplýsinga er gott tæki til þess að endurspegla samband kynjanna og fá betri heildarmynd yfir stöðuna þannig að hægt sé að bregðast við og bæta þar sem þess þarf.  

Út á hvað gengur jafnréttisfræðsla?

Í 23. gr. jafnréttislaga nr.10/2008 segir: „Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi“. Jafnréttisfræðsla fjallar líka um kynbundið ofbeldi, kerfisbundna kynhyggju, kynjað tungumál, klámvæðingu, margfalda mismunun og allt á milli himins og jarðar er varðar kyngervi, kynhneigð, kynþátt og fordóma. 

Af hverju voru jafnréttislögin sett 1976?

Fyrstu jafnréttislögin voru sett í þeim tilgangi að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Fyrstu lögin sneru fyrst og fremst að stöðu kynjanna á vinnumarkaði og voru ætluð til þess að stuðla að launajafnrétti. Árið 1975 var tileinkað málefnum kvenna á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó, á þessari ráðstefnu var skorað á ríkisstjórnir að setja lög um jafna stöðu karla og kvenna og Ísland lét eftir ári seinna. Jafnréttisráð var sömuleiðis sett á laggirnar til þess að sjá um framkvæmdina. Fyrstu jafnréttislögin innihéldu þá yfirlýsingu að það væri ójafnræði á milli kynjanna og var það í fyrsta sinn sem slík yfirlýsing var skrifuð í lög. 

Hvernig lýsir hatursorðræða sér?

Samkvæmt skilgreiningu Evrópuráðs nr. 97(20) er hatursorðræða „öll tjáning sem dreifir, hvetur til, stuðlar að eða réttlætir kynþáttahatur, útlendingahatur, gyðingahatur eða annars konar hatur sem byggist á umburðarleysi, þar á meðal umburðarleysi sem er tjáð með herskárri/óvæginni þjóðræknisstefnu/þjóðernishyggju eða þjóðhverfum sjónarmiðum, mismunun og fjandskap gegn minnihlutahópum, farandverkafólki og fólki af erlendum uppruna“. Hatursorðræða getur einnig verið kynbundin en hatursorðræður gegn konum eru algengar, þá sérstaklega á netinu og samfélagsmiðlum. Hatursorðræða getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir andlega líðan þolenda og getur valdið því að þolendur láta ekki til sín taka á opinberum vettvangi.

Eru limlestingar á kynfærum kvenna bannaðar á Íslandi?

Já, með ákvæði sem bætt var í almenn hegningarlög nr. 19/1940 árið 2005 er limlesting á kynfærum kvenna gerð refsiverð.

Hvað felst í banninu á einkadansi og nektarstöðum?

Í 4. grein laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 má finna bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem eru á staðnum. Þessi lög voru staðfest árið 2007 og í raun banna nektardans í atvinnuskyni, en það var hægt að sækja um undanþágu frá þessum lögum ef nektardans fór fram í atvinnuskyni á veitingastað og ef umsagnaraðili, sveitarstjórnir eða lögregla gáfu jákvæða umsögn. Þessi undanþáguheimild var þó fljótt að meginreglu. Undanþáguheimildin gekk gegn megin tilgangi laganna og hvöttu sveitarstjórnir tveggja sveitarfélaga landsins til þess að öllum vafa yrði eytt að þessu leyti í lögunum. Undanþáguheimildin var fjarlægð og allsherjar bann var lögfest 1. júlí 2010.

Hvaða munur er á stöðu kvenna og karla sem komin eru á eftirlaun?

Í skýrslu Velferðarráðuneytis frá árinu 2014 kemur það fram að „margvíslegur munur er á högum og aðstæðum karla og kvenna á hjúkrunarheimilum, hvort sem í hlut eiga íbúar eða starfsfólk. Fjárhagslega bera konur að jafnaði minna úr býtum, hvort sem litið er til launa eða lífeyris.“ (Velferðarráðuneyti, 2014). Í skýrslu ráðuneytisins kemur fram að það hallar á konur þegar kemur að fjármagni eldri borgara. Umönnun eldri borgara fellur einnig mun meira á hendur kvenna fremur en karla, bæði sem starfsmanna hjúkrunarheimila og sem aðstandenda. Það má því segja að misvægi fylgir kynjunum alla ævi. Skýrsluna má lesa hér.

Hvers vegna eru fleiri konur en karlar öryrkjar?

Konur eru 60% allra öryrkja á Íslandi og 93% þeirra eru með hærra stig örorku. Algengustu sjúkdómsflokkar kvenna á örorkuskrá eru stoðkerfisraskanir og geðraskanir. Einstæðir foreldrar (en konur eru í miklum meirihluta þar) finna fyrir mikilli streitu, bæði andlega og líkamlega þegar kemur að samræma fjölskyldu og atvinnu sem hefur neikvæð áhrif á heilsu þeirra.
Síðustu ár hefur tíðni stoðkerfisraskana aukist mikið meðal kvenna, þá sérstaklega tíðni vefjagigtar. Störf sem reyna mikið á líkamlega og andlega, sem og aukið álag í lífi kvenna, hafa verið talin orsök aukinnar tíðni vefjagigtar. Atvinnuþátttaka kvenna hefur aukist og á sama tíma bera konur enn meiri ábyrgð á heimilisstörfum en karlar. Skýrsla Vinnueftirlits bendir einnig til þess að konur hafa það almennt verr á atvinnumarkaði en karlar, þær fá minna borgað fyrir sambærileg störf, þær eru líklegri til þess að starfa í láglaunastörfum, þær eru í miklum meirihluta í umönnunarstörfum og þær bera oft hitann og þungann af heimilisstörfum og uppeldi barna. Þessir þættir valda því að konur eru líklegri til að vera í umhverfi sem krefst mikils af þeim bæði líkamlega og andlega sem getur haft neikvæðar afleiðingar fyrir líkamlega og andlega heilsu.
Hér má sjá skýrslu frá Vinnueftirlitinu (2008) um örorku meðal kvenna.

Ríkir jafnrétti er varðar hjúskap á Íslandi?

Hjúskaparlög nr. 31/1993 gilda fyrir alla hvort sem pörin eru gagnkynhneigð, samkynhneigð o.s.frv. og eru þau hönnuð til þess að tryggja jafnrétti meðal para. En utan hins lagalega ramma, þá endurspeglar félagslegur raunveruleiki ekki jafnrétti. Þó svo að atvinnuþátttaka kvenna hér á landi sé mjög góð miðað við önnur lönd, þá hefur ábyrgð kvenna á heimilisstörfum og uppeldi ekki minnkað í samræmi við þá þróun. Slík misskipting leiðir til þess að konur eiga oft erfiðara með að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf og leiðir til aukinnar streitu. Hér má lesa skýrslu félags- og jafnréttismálaráðherra 2015-2017.

Hvers vegna eru fleiri konur en karlar í hlutastörfum?

Samkvæmt skýrslu Velferðaráðuneytis sem unnin var árið 2015 um stöðu karla og kvenna, þá er ábyrgð á fjölskyldu og börnum aðalástæða þess að mun fleiri konur en karlar vinna hlutastörf. Önnur ástæða þess er að margir atvinnurekendur bjóða ekki upp á annað og það er ekki alltaf möguleiki fyrir konur að vinna fullt starf. Þessi staðreynd hefur neikvæð áhrif á fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Margar konur í hlutastarfi segja það erfitt að finna fullt starf. Í sumum fjölmennum „kvennastörfum“ líkt og hjúkrun og umönnun aldraða er einfaldlega ekki mögulegt að vinna nokkuð annað en hlutastarf. Skýrsluna má nálgast hér.

Hvers vegna hætta fleiri strákar en stelpur í skólum?

Það hefur löngum verið vitað að strákar hafa heilt yfir lakari námsárangur en stelpur. Lakari námsárangur og minni áhugi á náminu einkennir skólagöngu drengja og það mætti telja helstu ástæðu þess að strákar eru mun líklegri til þess að hætta námi á framhaldsskólastigi en stelpur. Fræðimenn eru hins vegar ósammála um af hverju strákum gengur verr í skóla en stelpum. Margar skýringar hafa verið settar fram, eins og t.d. eðlisskýringar (að kynin eru eðlisólík og bóklegt nám henti einfaldlega stelpum betur heldur en strákum), karlmennskuskýringar (hugmyndir um karlmennsku er heftandi fyrir stráka í námi, það þykir t.d. ekki töff að vera „nörd“), líffræðilegar skýringar (heilinn á strákum og stelpum er öðruvísi og mismunandi svæði eru virk við mismunandi verkefni) og menningarskýringar (samfélagið setur mismunandi væntingar á stráka en stelpur. Strákar fara t.d. seinna að sofa, læra síður heima, fá minni umhyggju frá foreldrum o.s.frv.). Það er því augljóst að skýringin er margþætt.  

Hafa loftslagsbreytingar mismunandi áhrif á konur og karla?

Já, áhrif loftslagsbreytinga eru m.a. flóð, fellibyljir og langtíma eyðilegging umhverfa. Þessi áhrif eru nú þegar byrjuð að koma fram, sérstaklega í þróunarlöndum og fátækum ríkjum. Neikvæð áhrif loftslagsbreytinga á landbúnað, fæðuöryggi, líffræðilegan fjölbreytileika, vistkerfi, aðgang að vatni, heilsu, byggðir, fólksflutninga, orku og iðnað, hafa meiri áhrif á konur en karla. Meirihluti fátækra eru konur og þær eru meira háðar náttúrulegum auðlindum. Konur í fátækum löndum mæta einnig félagslegum, efnahagslegum og stjórnmálalegum veggjum sem kemur í veg fyrir að þær nái sér aftur á fætur. Konur hafa ekki eins mikinn aðgang að náttúrulegum auðlindum og stjórnmálalegum ákvörðunum. Það er því gríðarlega mikilvægt að skoða loftslagsáhrif með kynjuðu sjónarmiði, ekki aðeins vegna þess að loftslagsbreytingar hafa verri áhrif á konur en karla, heldur líka vegna þess að konur geta haft mikil áhrif í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.
Hér er hægt að nálgast upplýsingar um konur og loftslagsbreytingar frá Sameinuðu þjóðunum.

Er mismunur á stöðu kynjanna á norðurslóðum?

Já, loftslagsbreytingar hafa mikil áhrif á norðurslóðum og áhrif þeirra eru meiri á konur en karla, það er kynjahalli þegar kemur að stefnumótun og ákvörðunartöku á norðurslóðum, konur eru í minnihluta í stjórnmálum, viðskiptalífinu og vísindum sem hefur mikil áhrif á framtíð samfélaga á norðurslóðum.
Hér má nálgast skýrslu Norðurskautsráðs um kynjajafnrétti á norðurslóðum frá 2015.

Hvað er The World Economic Forum Gender Gap Index?

The World Economic Forum er svissnesk efnahagsstofnun sem gefur út árlega skýrslu, þar sem svokallað kynjabil er mælt. Ísland hefur verið efst á listanum mörg ár í röð. Í skýrslunni er kynjajafnvægi í stjórnmálum, menntun, atvinnulífinu og heilsugæslu metið. Gott gengi Íslands er byggt á velgengni okkar í að bæta kynjafnrétti í menntunarkerfinu, pólitískri þátttöku og þátttöku íslenskra kvenna í atvinnulífinu. Hins vegar hefur verið bent á í skýrslum að launamisrétti og fáar konur í stjórnendastöðum í atvinnulífinu er áhyggjuefni.

Hvað felst í yfirlýsingunni um afnám alls ofbeldis gegn konum?

Yfirlýsingin um afnám ofbeldis gegn konum var samþykkt á 85. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. desember 1993. Í yfirlýsingunni segir að allsherjarþing geri sér grein fyrir umfangi vandamálsins sem ofbeldi gegn konum er, og heitir því að gera allt sem í valdi sínu stendur til þess að berjast gegn því. Yfirlýsinguna í heild má sjá á íslensku hér.

Hvaða skyldur leggur Istanbúl-samningurinn Íslendingum á herðar?

Ísland skrifaði undir Istanbúl-samninginn árið 2011 en hann var gerður á vegum Evrópuráðs og snýst um að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Istanbúl-samningurinn er fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem gerir þjóðum skylt að vernda og hjálpa konum sem eru þolendur kynferðis- og heimilisofbeldis, að uppfræða almenning, ríkisstjórnina og starfstéttir um hætturnar og bjóða gerendum einhvers konar endurmenntun. Íslenska ríkisstjórnin hefur þegar gert breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 til að endurspegla samninginn. Þessar breytingar innihalda m.a. lengingu á fyrningu brota fyrir þolendur undir 18 ára.

Um hvað er sáttmáli evrópskra sveitarfélaga í jafnréttismálum?

Sáttmálinn er frá árinu 2005 og var gerður að frumkvæði Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, sem að Samband íslenskra sveitarfélaga á aðild að. Sáttmálinn inniheldur pólitíska yfirlýsingu evrópskra sveitarfélaga að vinna að framgangi jafnréttismála. Sáttmálinn nær yfir öll svið sveitarfélaga og býður upp á ýmsar aðferðir fyrir sveitarfélög til að knýja fram jafnrétti í reynd. Sáttmálinn leggur sérstaka áherslu á samþættingu kynjasjónarmiða á öllum stigum og sviðum, og mati á áhrifum stefnumótunar og ákvörðunartöku á hvort kynið fyrir sig. Tryggja á jafnan aðgang kynjanna að ákvörðunartöku og þjónustu sem taki mið af þörfum bæði karla og kvenna. Mælt er fyrir um aðgerðir gegn staðalímyndum og fræðslu til starfsfólks. Taka á sérstaklega á margfaldri mismunun, sem fyrir utan kyn getur átt rót sína að rekja til kynþáttar, kynhneigðar, aldurs o.fl. Sveitarfélög skulu beita sér fyrir því að samstarfsaðilar þeirra virði jafnréttissjónarmið, svo sem í samningum um kaup á vörum og þjónustu og í samstarfssamningum við félagasamtök. 

Um hvað er CEDAW-sáttmálinn?

CEDAW-sáttmálinn er samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum frá árinu 1979. Ísland undirritaði sáttmálann árið 1980 og var hann staðfestur á Alþingi árið 1985. Sáttmálinn krefur aðildarríki um að stofna nefnd sem fylgist með því að sáttmálanum sé framfylgt, aðildarríki skila reglulegum skýrslum til nefndar Sameinuðu þjóðanna sem hefur umsjón með sáttmálanum. Ísland fór síðast fyrir nefndina í febrúar 2016 og hrósaði nefndin Íslandi fyrir löggjöf frá árunum 2008 og 2014 um jafnréttismál sem og þeim aðgerðum sem voru gerðar til þess að minnka skaðleg áhrif efnahagskreppunnar á stöðu kvenna. Nefndin gagnrýndi hins vegar Ísland fyrir lágt hlutfall kvenna innan lögreglunnar og í Hæstarétti. Á vef Utanríkisráðuneytisins má finna nánari umfjöllun.

Um hvað er Peking-áætlunin og aðgerðaáætlunin sem kennd er við Peking?

Peking-áætlunin er kennd við kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking árið 1995. Framkvæmdaáætlunin sem samþykkt var á þessari ráðstefnu nær yfir 12 málaflokka í málefnum kvenna. Markmið Peking-áætlunarinnar eru 14 talsins og eru eftirfarandi:
- Taka upp og viðhalda efnahagsstefnu og aðgerðaáætlun sem lýtur að þörfum og árangri fátækra kvenna
- Auka aðgang kvenna að iðnnámi, vísindum, tæknitengdu námi og endurmenntun
- Styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir sem efla heilsu kvenna
- Stuðla að rannsóknum og söfnun upplýsinga um heilsufar kvenna
- Koma í veg fyrir mansal og aðstoða þolendur ofbeldis í kjölfar vændis og mansals
- Hefja samhæfðar aðgerðir til að koma í veg fyrir og útiloka ofbeldi gegn konum
- Skapa konum sem hafa orðið að flýja heimaland sitt eða konum sem leita athvarfs á Íslandi vernd, viðeigandi aðstoð og þjálfun
- Grípa til aðgerða til að stuðla að jöfnum tækifærum kvenna og fullri þátttöku þeirra í valdakerfum og ákvarðanatöku
- Stuðla að og verja mannréttindi kvenna með því að lögleiða mannréttindasáttmála, sér í lagi Kvennasáttmálann um afnám allrar mismunar gagnvart konum (CEDAW)