Hvað er kynferðisleg áreitni?

Í 2. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 er að finna orðskýringar og skilgreiningar með lögunum en þar segir:

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Í 22. grein er svo nánar fjallað um réttindi fólks sem verður fyrir áreitni. En þar segir að „atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.

Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.“

Í 18. gr. jafnréttislaga kemur fram að í slíkri jafnréttisáætlun þarf að kveða á um þau réttindi sem tilgreind eru í 19.-22. gr. Þar er sérstaklega fjallað um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og hvernig atvinnurekendur og stjórnendur eiga að koma í veg fyrir kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað.

Samkvæmt reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum 1009/2015 skal atvinnurekandi „bregðast við eins fljótt og kostur er þegar honum berst kvörtun eða ábending um einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi á vinnustað sem og verði hann var við slíka hegðun eða aðstæður á vinnustaðnum sem líkur eru á að leitt geti til slíkrar hegðunar verði ekki gripið til aðgerða.“ Einnig er atvinnurekendum gert skylt að gera „skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað skv. II. kafla þannig að dregið sé úr hættu á að aðstæður skapist sem líkur eru á að leitt geti til eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni eða ofbeldis á vinnu­staðnum.“

Nánari upplýsingar um áætlanir um öryggi og heilbrigði auk áhættumats sem liggja á til grundvallar áætlunum á vinnustað má finna á heimasíðu Vinnueftirlitsins.