Istanbúlsamningurinn

Samningur um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúlsamningur, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag.

Um er ræða fyrsta bindandi samninginn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Í megindráttum kveður hann á um skyldur opinberra aðila til að:

  • Tryggja réttindi brotaþola
  • Vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi
  • Fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila
  • Sinna forvörnum gegn ofbeldi
  • Bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð

Í mars 2016 náðist fyrsti áfangi í fullgildingu Istanbúlsamningsins hér á landi með gildistöku breytinga á almennum hegningarlögum. Þar eru m.a. var sett í lög ákvæði um heimilisofbeldi, nauðungarhjónabönd og þvingaðar ófrjósemisaðgerðir auk breytinga er lúta að lögsögu og fyrningarreglum.

Samkvæmt samningnum hafa stjórnvöld einnig skyldur sem kalla á aðgerðir til að fyrirbyggja og veita vernd gegn ofbeldi. Skyldur þessar snúa m.a. að:

  • Rekstri kvennaathvarfa
  • Starfrækslu neyðarnúmers
  • Þjónustu við þolendur
  • Meðferðarúrræði fyrir gerendur

Jafnframt hefur þurft að uppfylla skyldur samningsins varðandi þau ákvæði er kveða á um mikilvægi þess að tryggja samráð um þjálfun og endurmenntun fagstétta, mikilvægi forvarna og fræðslu og endurskoðun á verklagi og reglugerðum á grundvelli gildandi laga, meðal annars hvað varðar meðferð mála hjá lögreglu.

Þann 26. apríl 2018 fullgilti Ísland samninginn þegar Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal um fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Hér má nálgast samninginn.