Dagbók útlagans

Björn Þorláksson skrifar

Dagbók útlagans

Á karl sem gerist femínisti ekkert föðurland?Góðir ráðstefnugestir! Ég ætla að hefja þetta ferðalag á stuttri sögu: Ég var staddur á Siglufirði í sumar við rannsóknir á vegum Háskólans á Akureyri þegar ég hitti mann sem ég kannaðist lítillega við. Maðurinn vildi endilega segja mér sögu af þekktum Siglfirðingi, manni sem hafði fyrir langalöngu setið við drykkju með kunningja sínum og var haglabyssa á drykkjustað þeirra félaganna. Brá nú svo við að eiginkonu annars þeirra bar að. Var hún orðin langþreytt á ómennsku bónda síns og kallaði til hans inn um opinn glugga að koma sér heim og láta renna af sér. En maðurinn hennar brást við með því að standa á fætur, miða út um gluggann og skjóta af haglabyssunni. Og kemur þá að „punchinu“ í sögunni, rúsínunni í pylsuendanum, sem ég held að eigi að sýna sitthvað um karlmennsku þessara drykkjumanna og kannski annálaða orðheppni að minnsta kosti annars þeirra. Sá reis upp við dogg, leit framan í drykkjufélagann sem hafði hleypt af og spurði rámur: Lá hún? En þekkt er í veiðimáli að spyrja hvort gæs eða rjúpa hafi legið eftir að hleypt er af skoti og er þá átt við með spurningunni Lá hún hvort skotið hafi hæft fuglinn þannig að hann hafi setið eftir að skotinu loknu en ekki flogið burt. En í þessari sögu var ekki fugl undir heldur kona, eiginkona, og eftir að hafa klárað brandarann skellihló sögumaður að eigin fyndni. Lá hún? Hahaha!

Hvernig átti ég að bregðast við, karlinn sem hafði skrifað bókina Heimkomuna, karlinn sem hafði játað karlrembusyndir ýmiss konar og beðist afsökunar á fyrri brestum, fyrri glámsýni, hvað átti ég að gera? Belgja mig út? Baula með þjósti að svona saga sé hvorki fyndin né góð, svona saga sé afbrigði af illmennsku, kynlægu ofbeldi. En ég, karlinn, kunninginn, karlinn á krossgötunum á Siglufirði, ég þorði ekki að taka sénsinn á útskúfun þannig að ég kreisti fram brosvipru og sagði bara: Ja, þetta eru nú aldeilis karlar í krapinu hérna á Siglufirði. Gekk svo með höfuðið niður í bringu á braut og skammaðist mín.

Góðir ráðstefnugestir: Hvers vegna segi ég þessa sögu? Til þess liggja ýmsar ástæður, ein er að velta upp þeirri spurningu hvort við karlarnir notum ennþá svona sögur til að halda í veröld sem var og þá hvers vegna? Sem rifjar upp yfirskrift þessa erindis: Dagbók útlagans – á karl sem gerist femínisti ekkert föðurland? Föðurland í hvaða skilningi? Er þessi tvíræðni orðaleikur? Móðurmál og föðurland, eru þetta góð og gild hugtök nú á tímum? Kannski er það þannig fyrir karla sem eiga sér gamla Ísland að föðurlandi að setja megi samasemmerki á milli föðurlands og baklands, sem aftur veltir upp annarri spurningu, nefnilega þeirri hvort karlar styrki eða viðhaldi a.m.k. áfram sínu föðurlandi, sínu baklandi með kynlægum innbyrðis tengslum eins og þeim að segja sögur af fullum karli sem skýtur á edrú eiginkonu, eru þeir karlar sem segja svona sögur og hlæja hrossahlátri að þeim kannski að viðhalda einhverjum gömlum valdastrúktúr með lymskulegum hætti? Og ef baklandið er bakland, sem byggir á misrétti, veldi ferðanna, hlýtur sá sem gerist femínisti þá ekki að eiga von á að það kvarnist úr baklandinu ef hann svo mikið sem hugleiðir að leita sér að nýju landi? En kannski er það allt í lagi, kannski kallar leitin að nýju landi, betra landi, fyrirheitnu landi, kannski kallar leitin að fyrirheitna jafnréttissamfélaginu beinlínis á slíkt rof? Eða hvað?

Góðir ráðstefnugestir: Það lýsir hugrekki hjá aðstandendum þessa málþings að bjóða pönkara af götunni eins og mér að flytja erindi á afmælisráðstefnu Jafnréttisstofu. Ég hef spurt mig hvort ég sé verðugur síðan mér var boðið að tala hér, ég spyr enn hvort ég sé verðugur, ég er bara karl ættaður úr Mývatnssveitinni, karl bara með stúdentspróf sem vann lengi sem fréttamaður, fékk svo á kjammann, var rekinn, neyddist til að hundskast inn á heimilið þar sem ég hafði sjaldnast haft viðkomu nema yfir blánóttina, hafði vistaskipti við konuna mína, hún hafði verið heimavinnandi en fór út á vinnumarkaðinn þegar ég tók við búi og börnum og enn bætist í, yngsta dóttir okkar er aðeins nokkurra vikna gömul og næsta skref verður sennilega að kaupa rútu svo við komust öll milli hverfa. Það er önnur saga, en ég sem vissi ekki að snuddur væru veldissprotar alheimsins, ég sem vissi ekkert um mikilvægi blautklúta, ég hef undanfarið þurft að skipta á fleiri bleium en vatnsdropar eru í Dettifossi, á hinn bóginn hef ég ekki haft fréttalegt umboð lengi, að ákvarða hvað teljist merkilegt á Íslandi og hvað ekki. Hvað sé þess virði að fjalla um það, hvað ekki. En eftir á að hyggja voru það forréttindi að vera rekinn, að vera niðurlægður, í duftinu, í auðmýktinni skýrist hugur okkar, sjónarhorn valdhafans þess sem horfir á hlutina að ofan er bjagað. Ég kann vel við mig í duftinu núna en það voru umskipti að fara úr hinum ytra heimi, viðburðaheiminum, yfir í hinn innri heim, hinn andlega heim og umskiptunum hafa fylgt bæði kostir og gallar.

Tökum gallana núna: Fyrst þegar ég fékk son minn í fangið í Hruninu, fannst mér nýja lífið alveg ömurlegt. Fyrst þegar ég neyddist til að vinna öll þau ósýnilegu störf sem við köllum jafnan heimilisstörf, fann ég fyrir mikilli sjálfsvorkunn. Ég var vanur að láta klappa fyrir mér í dagslok í fréttunum, en það klappar enginn fyrir húsfreyjum eða húskörlum á kvöldin. Dagurinn leið ekki fyrstu dagana heima við, en svo fór ég að baka, elda, skrúbba og skvera og kynnast fólkinu mínu almennilega, eiginlega í fyrsta skipti. Smám saman fór ég að sjá alla fjölskylduna sem lífræna heild. Ég fór að finna gæðin, tilganginn með því að halda utan um fjölskylduna, smám saman lærðist mér að útivinna, hvorki ráðherradómur, fréttamennska né rafvirkjun, ekkert af þessu er merkilegra en að skipta um bleiu, öll þarf þessi verk bara að vinna, það er sennilega með það eins og svo margt annað að spurningin snýst um hvernig maður nálgast starf sitt en ekki starfið sjálft, að vera trúr yfir litlu er stundum stærra afrek en smíða geimflaug. En kannski spyrjiði ykkur nú: Fer hann ekki að hætta þessu bulli, maðurinn, hann er ekki að segja neitt nýtt, við vissum þetta allt fyrir. Vonandi vissuði þetta, þá hafiði verið betur til þess fallin en ég að leita jafnvægis og hamingju í lífinu. Ég hef ekki gert neitt merkilegt, það er rétt, ég hef bara unnið þau störf síðustu misseri sem allar konur hafa unnið alla tíð og hví ætti að þurfa að eyða einhverju sérstöku púðri í það? Bara vegna þess að ég er karlmaður? Góð spurning: En sem karlmaður gaf ég út Heimkomuna, þar sem ég skrifaði um upplifunina sem fólst í því að koma út úr karlrembuskápnum, játa syndir mínar, horfa í kringum mig, verða fyrir viðhorfsvakningu, fá tækifæri til að breyta lífi mínu og fjölskyldunnar til hins betra. En það er heilt ár liðið síðan Heimkoman kom út og nú er nýjabrumið horfið. Nú sést hvort viðhorfsvakningin heldur enn, nú er hægt að meta hverjar fórnirnar eru við slík umskipti? Hverjar gjafirnar eru? Lokast einhver skilningarvit? Styrkjast önnur, opnast ný? Hefur það í sannleika sagt borgað sig raunverulega að þróast úr órangútan í „elítista“, mann með nútíma skoðanir – „réttar“ skoðanir innan gæsalappa - Fittar karl eins og ég betur inn í heiminn sem ég byggi nú, eða verður maður sem reynir að breyta sjálfum sér meiri útlagi en nokkru sinni í því ferli öllu?

Ég hef verið kallaður karlinn sem breyttist í kerlingu við það að skrifa Heimkomuna, það heyri ég bæði frá körlum og konum, sumir hlæja um leið og þeir skjóta því á mig en aðrir ekki. Að það skuli þykja hnjóðsyrði að kalla karl kerlingu er sérstakt athugunarefni og er ekki dálítill munur á því að kalla konu karl eða karl kerlingu – annað er verra en hitt eins og ég skil tungumálið, hið gildishlaðna tungumál.

Tökum annað dæmi: Ég er karlinn sem var kjörinn bæjarlistamaður Akureyrar eftir að hafa samið kerlingarbók, svo vitnað sé í ónafngreindan bæjarfulltrúa hér í bæ. Hér hafa verið nefnd tvö dæmi um neikvæða upplifun sem sá sem mundar sig í átt til jafnréttissnúnings á miðjum aldri getur átt von á. Fólk hafði kannski vanist mér sem karlrembunni Bjössa Þorláks, kannski eru viðbrögðin réttlát refsing, óhjákvæmileg refsing meðan maður er í viðrinishamnum, einhvers konar „hvorki né“ fyrirbrigði, í dróma, stigið áður en fiðrildið stígur upp af púpunni. Ég hafði hegðað mér lengi eins og nátttröll, ég hafði lengi verið hræddur við að takast á við störfin sem ég kunni ekki að vinna. Ég skrifaði um það allt með kómískum blæ í Heimkomunni en líka tragíkómískum, því ég komst að því að gamaldags viðhorf mín, sem þó voru einfaldlega afrakstur gamalla hefða og gamaldags fyrirmynda, ég komst að því að afstaða mín, framferði mitt, kátínan yfir að vera karlmaður og lifa sem slíkur og deyja sem slíkur myndi hvorki færa mér gæfu né frelsi þegar upp yrði staðið. Ég fór að hætta að hugsa eins og karlar í gyðingatrú, sem samkvæmt franska femínistanum Simone de Beauvoir hefja daginn á morgunbæn þar sem þeir þakka fyrir að vera ekki konur. Ég fór að hætta að hugsa (svo áfram sé vitnað í de Beauvoir) að ég sé einn en konan annar, að konan sé hinn. Með því að fá af því nasaþefinn hvernig það er að vera hinn, fór mér að skiljast að sá sem lifir í gamla tímanum sé síður líklegur til að verða hamingjusamur en sá sem trúir á jafna verkaskiptingu kynjanna og jafnræði á öllum sviðum.

En var ég boðinn velkominn inn í þennan nýja heim? Hvernig reiddi mér af, í eigum við að segja hinu nýja móðurlandi? Bæði vel og illa. Illa samanber þau niðrandi ummæli sem hverfast merkilegt nokk um kerlingu og fyrr er getið, en ég fann líka fyrir fálæti hjá þeim sem ég taldi þó að myndu fagna mér fyrstir. Sumir af hinum innvígðu femínistum virtust ekki áfjáðir í að bjóða mig velkominn yfir í nýju heimsálfuna, þeir svona horfðu pínu í aðra átt, sérstaklega sumar konurnar, fannst það kannski pínulítið vandræðalegt að ég segðist í sjónvarpsviðtali búinn að kaupa mér bleikan reiðhjólahjálm, fannst kannski fremur ólíklegt að þótt ég ætti bleikan hjálm og hefði skrifað bók þá gæti ég orðið femínisti, bara svona einn, tveir og þrír. Kannski hafa sumir hugsað: Verður ekki að fara réttar leiðir, hefðbundnar leiðir til þess að karl eins og BÞ fái að tjá sig opinberlega um femínisma? Í hinum besta heimi allra heima ætti það nú kannski ekki að vera þannig en við erum mannleg, eða ætti ég að segja kvenleg, kona eins í hópi svokallaðra fræðafemínista gerði þá játningu nýverið í mín eyru að hún hefði tekið öllum mínum málflutningi um jafnrétti og femínisma með miklum fyrirvara, hún hefði haft fordóma gagnvart mér, vegna þess umhverfis sem ég spratt úr, eða kannski vegna skorts á ákveðnu umhverfi, baklandi, það hefði ekki verið fyrr en hún las Heimkomuna af slysni sem hún áttaði sig á að fleiri gætu tjáð sig um jafnrétti og femínisma en þeir sem færu hina hefðbundnu leið, það er ljúka háskólamenntun, stunda kynjafræði, hittast á málþingum og drekka te saman. Femínisti þessi gekk svo langt að biðjast afsökunar á fordómum sínum en það þurfti hún ekki að gera, þetta er á öllum sviðum eins, alls staðar eins, því miður, ég skildi vel hvers vegna hún og margir hinna innvígðu hefðu brugðist við mér, gauksunganum, með fálæti. Sem dæmi veit ég eftir 20 ár sem innvíguður í fréttum að fréttamenn telja að enginn geti tjáð sig um fréttamennsku af viti nema fréttamenn sjálfir eða a.m.k. fjölmiðlafræðilærðir menn. Samt eru fréttir bara sögur af okkur öllum sem eiga erindi til okkar allra. Er það kannski svipað með femínismann?

Ég man líka þegar ég var í Silfri Egils að spjalla um Heimkomuna, viðtalið var varla byrjað þegar Egill spurði hvort það væri rétt sem honum skildist að ég liti svo á sem ég hefði skrifað femíníska bók? Já, svaraði ég. Og örskömmu síðar lauk viðtalinu.

Góðir ráðstefnugestir: Ég er að segja ykkur það, að þótt ég efist aldrei um þann mikla ávinning sem ég og aðrir í kringum mig höfum fengið eftir að ég breytti bæði innra og ytra lífi mínu í átt til jafnréttis, ég er að segja ykkur að þótt það sé gott að komast upp úr karlrembunni þá hefur það samt ekki verið algjör dans á rósum að finna nýtt bakland. Sumir gamaldags vina minna hafa stungið saman nefjum, þeir sem kalla mig kerlingu eru hættir að fara með mér í golf. Á sama tíma fannst mér á femínistunum að ég væri líka boðflenna í partýinu þeirra en jafnréttissinnar eru farnir að tala við mig núna – eins og sést best á því djarfa skrefi að leyfa mér að lýsa reynslu minni hér á þinginu. Ég held að það sé gáfulegt fyrir jafnréttisbaráttuna að leyfa sem flestum ljósum að loga, ég byggi það m.a. á kenningu um að þeir sem eru nývaknaðir eftir aldarlangan Þyrnirósarsvefn séu líklegri en hinir til að nota galopin augu sín til að sjá skýrt, glöggt er gests augað. Ég er í hópi þeirra sem hafa fundið hvöt til að breiða út boðskapinn eftir að ég vaknaði loksins af löngum blundi. Ég hef verið eins og barn sem sér sjóinn í fyrsta skipti, ég hef hrópað: Sjáiði hvað hafið er blátt og breitt og stórt. Ég hef hlaupið að morgni dags niður að strönd og kallað í átt til klettanna að ég vilji breyta heiminum öllum á einni nóttu, en það þarf víst lengri tíma. Mér hefur skilist að jafnréttisbaráttan er ekki barátta milli karla og kvenna heldur kannski frekar barátta milli upplýstra, þeirra sem sjá valkostina, og óupplýstra, þeirra sem ekki sjá valkostina. Sem dæmi fékk ég hálfgert áfall þegar Andrea Hjálmsdóttir, kunnur femínisti, hélt erindi við Háskólann á Akureyri og gerði að umtalsefni eigindlega rannsókn sem sýndi að viðhorf nemenda í 10. bekk í einum af grunnskólum Akureyrar væri fremur neikvætt í garð femínista og mátti kannski tala um viðhorfslegt bakslag í jafnréttisbaráttunni samkvæmt þessari rannsókn. Stelpurnar í 10. bekknum voru á sama máli og strákarnir, að femínistar virtust aldrei sjá glaðan dag, að þeir hefðu alltaf allt á hornum sér, neikvæðar staðalmyndir um femínista sem ófullnægðar og ófríðar konur virtust lifa góðu lífi í vitund barnanna í skólanum og svona nývaknaður og innblásinn, ég bara barði í borðið í hryllingi mínum í frímínútunum að loknu erindinu og sagði við bekkjarsystur mínar: Nú verðum við að rísa gegn þessu kjaftæði, uppfræða börnin okkar betur, vera þeim betri fyrirmyndir og segja hingað og ekki lengra. En þá kom á daginn að bekkjarsystur mínar sumar hverjar voru fullkomlega sammála grunnskólabörnunum um að þær höfðu neikvætt viðhorf til femínista. Að kvöldi þess dags varð mér ljóst að það væri ekki nóg að ég talaði bara við karla um hinar miklu uppgötvanir sem lífið hafði fært mér alveg ókeypis.

Góðir ráðstefnugestir: Kannski er stóra fréttin sú, svo ég hugsi sem femínískur fréttamaður, að þótt samfélagið fari nú jafnan í sparifötin á tyllidögum og klappi saman höndunum yfir öllum þeim ávinningum sem hér hafa náðst í jafnréttisbaráttunni, þá liggur Móri enn undir niðri og lúrir, víða sjást birtingarmyndir þess að við erum ekki jafn langt á veg komin og við höfum kosið að halda. Stefán Jón Hafstein sá kunni fjölmiðlamaður og félagi minn bað mig að hætta ofsóknum á hendur miðaldra karlmönnum þegar hann vissi að ég ætti að flytja erindi á þessari ráðstefnu, hann sagði þetta í gríni en kannski fylgdi því einhver alvara. Kannski opnaði Heimkoman lítinn glugga inn í hin helgu vé innmúraðra karla sem vanist hafa samtryggingunni lengi og þeirra hlunninda sem fylgja því forskoti að hafa verið karl í valdastöðu?

Sýn okkar markast af fortíðinni. Ég flutti nýverið pistil á Rás 2 um niðurskurð á fæðingardeildum, ég spurði hvort það væri tilviljun að grunnbúnaður líkt og nýburaföt og bleiur hefðu verið skorin niður á mörgum fæðingardeildum á meðan sumt annað lægi óhreyft, ég nefndi að kannski væri það ekki tilviljun að kostnaði við grunnbúnað væri velt yfir á almenning á deild eins og fæðingardeild, er það tilviljun að á fæðingardeild eru allir skjólstæðingarnir konur, þar vinna konur í miklum meirihluta, á sumum öðrum deildum sem hefur verið hlíft ríkja karlar, karlar sem vinna með alvöru dót, ekki bleiur, karlar sem vinna með fína tækni, hátæknibúnað. Er kannski erfiðara að skera niður oflækningar hjá tækjaglöðum karllækni heldur en bleiur og barnasokkabuxur á fæðingardeildinni? Og velti menn því enn fyrir sér hvort fólk í æðstu stöðum sitji við sama borð kynjalega (burtséð frá öllum hausatalningunum) má benda á að íslenska ríkið samþykkti byggingu heils hátæknispítala eftir að einn maður veiktist, eftir að einn valdamikill karlmaður veiktist, Davíð Oddsson heitir hann. Á sama tíma skulum við spyrja okkur hvort það hefði þýtt fyrir konu með kvennasjúkdóm, segjum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra að fá svipaða hugmynd og Davíð fékk, segjum í kjölfar móðurlífsbólgu, hefðu menn ekki bara hlegið að Jóhönnu ef hún hefði komið heim af sjúkrahúsi eftir nokkurra daga legu á kvennadeild og stungið upp á byggingu hátæknispítala? Ég veit það ekki, en áratuga reynsla mín í fréttunum segir mér að það hefði ekki þýtt fyrir konu að fá slíka hugmynd, þvert á móti hefði verið gert grín að henni. Það segir okkur ef rétt er að enn sé mikið starf óunnið.

Ágæta afmælisráðstefna Jafnréttisstofu, ég vil að lokum segja þetta: Ég er ekki gaurinn sem get svarað spurningunni vísindalega hvað við getum gert til að hraða jafnrétti í landinu. Ég sem karl held að ég geti ekki skilið til fullnustu hvað Simone DeBeauvoir á við þegar hún segir: Við fæðumst ekki konur heldur verðum við konur. Ég skil hana ekki til fullnustu af því að ég er ekki kona. En ég hrífst af þessari setningu, alveg eins og hinir fræðilegu femínistar, og ég get ályktað, bæði út frá persónulegri reynslu minni og annarra. Mér finnst ég geta staðhæft, af því að það liggur í augum uppi, að því fleiri sem fái frjálsir að koma að því verki að breiða út jafnréttisboðskapinn, (hvort sem þeir kunna lingóið eða ekki) því betri líkur séu á raunverulegum umbótum. Með það loka ég dagbók útlagans, hendi henni út um gluggann og líður eitt andartak a.m.k. eins og að ég sé kominn inn í anddyri hinna innvígðu femínista.

Takk fyrir að bjóða mér í partýið!