Fordómar í feðraorlofi

Valgeir Örn Ragnarsson skrifar

Fordómar í feðraorlofi

Ég er nýkominn til vinnu aftur eftir að hafa verið allan apríl í fæðingarorlofi. Í anda fullkomins jafnréttis kynjanna finnst mér orðið feðraorlof vera betra. Það er frábær framför að feður hafi þann rétt að geta verið heima um tíma í orlofi með börnum sínum. Þetta var tímabil sem ég hefði alls ekki viljað sleppa. Ég hafði reyndar gert mér vonir um að ná að afkasta mörgum hlutum sem höfðu setið á hakanum. Ég ætlaði að fara í jarðvegsframkvæmdir við sumarbústaðinn, taka upp frumsamda tónlist, lesa bækur og reyna að læra eitthvað. Mér gafst nánast enginn tími til að gera þessa hluti. Það er alveg full vinna að elta dreng sem skríður um öll gólf og er dolfallinn yfir hvers kyns rafmagnssnúrum og innstungum. Dagarnir fóru nánast alfarið í að elta piltinn um alla íbúð. Þegar hann sofnaði náði ég rétt svo að laga til allt draslið áður en hann vaknaði aftur.

Ég er ekki að kvarta yfir þessu hlutskipti. Þetta var frábær skóli fyrir mig sem pabba og sennilega líka fyrir Aron Dag sem son að við skyldum vera heima tveir alla daga. Við lærðum nokkuð mikið inn á hvor annan. Staðreyndin er nefnilega sú að þegar húsmóðirin á heimilinu er jafn öflug og raun ber vitni, þá höfum við feðgarnir þá tilhneigingu að verða alveg háðir henni. Þegar kemur að málefnum heimilisins hefur hún þurft að hugsa fyrir þrjá – tvo fullorðna og eitt barn.

Jafnvel þó þessi orlofsréttindi séu til staðar fyrir feður finnst mér samfélagið ekki alveg gera ráð fyrir feðrum í orlofi. Það virðist ekki samræmast almennilega kyngervi karlmanna að vera heimavinnandi. Eitt dæmi er að því fylgir nokkur einangrun að vera heima allan daginn með litlu barni sem kann ekki að tala. Á sama tíma heyrði ég af fyrirbæri sem kallast mömmuklúbbar. Mágkona mín sem er nýbúin að eignast barn var í slíkum mömmuklúbbi, þar sem mæður í fæðingarorlofi hittust að minnsta kosti vikulega heima hjá einni þeirra og gerðu eitthvað skemmtilegt með börnunum sínum. Ég hafði ekki aðgang að slíkum félagsskap, enda er mjög ólíklegt að hitta á aðra feður sem eru heima í orlofi. Þróunin er hins vegar jákvæð því kaffihúsið Fjallkonubakarí auglýsir nú pabbamorgna. Reyndar vil ég taka það fram að eftir að ég benti mágkonu minni á þetta kynjamisrétti í minn garð bauð hún mér að koma. Ég komst reyndar ekki.

Ein helsta dægradvöl í feðraorlofinu var að fara í göngutúra með barnavagninn á meðan sá litli svaf vært. Þá fékk maður kærkomna hreyfingu og frískt loft. Í göngutúrum mínum lenti ég oftar en einu sinni í því að konur á sextugs- eða sjötugsaldri fundu það hjá sér að skipta sér af því hvernig ég bjó um barnavagninn. „Ertu nokkuð að kæfa barnið með þessu?“ sagði bláókunnug fullorðin kona við mig í Bankastrætinu þegar hún sá að ég hafði lokað vagninum með flugnaneti. Ég leyfi mér að fullyrða að þessi kona, sem vafalaust meinti vel, hefði aldrei nokkurn tímann sagt þetta við konu með barnavagn. Þessi sjón var henni greinilega nokkuð framandi.

Í önnur skipti fékk ég glósur frá konum um hvernig húfan væri of mikið ofan í augun á stráknum eða þegar hann sat uppréttur í vagninum að hann væri of skakkur. Ég tók þetta ekki inn á mig, en aftur fullyrði ég að þessar ágætu konur hefðu ekki jafn miklar áhyggjur ef kynsystir þeirra hefði verið með barnavagninn. Einhver gæti skilgreint þetta sem fordóma.

Við unga verðandi feður segi ég þetta: Nýtið ykkur þennan rétt. Takið feðraorlof og notið það til hins ýtrasta. Vinnan hleypur ekki frá ykkur og það er langtum mikilvægara að læra að verða betri pabbi. Ekki halda að þið getið gert neitt annað í orlofinu en að hugsa um barnið. Allt annað er bónus. Ég skal lofa ykkur því að þið komið til baka sem víðsýnni og betri menn. Þið munuð líka fatta að það er full ástæða fyrir því að orðið „vinnandi“ er í hugtakinu „heimavinnandi“.