Hinir nýju kvennaskólar - eru konur að yfirtaka háskólana?

Arnfríður Aðalsteinsdóttir skrifar

Hinir nýju kvennaskólar - eru konur að yfirtaka háskólana?

Fimmta árið í röð er Ísland í efsta sæti í rannsókn Alþjóðaefnahagsráðsins (2013) á jafnrétti kynjanna á heimsvísu. Finnland, Noregur og Svíþjóð raða sér svo í annað til fjórða sæti. Með túlkun á gögnum rannsóknarinnar má segja að Norðurlöndin hafi, að jafnaði, skapað konum 80% af rétti karla þegar kemur að stjórnamálaþátttöku, efnahag, heilsu og menntun. Kynin hafa jafnan aðgang að grunn- og framhaldsmenntun en þegar kemur að háskólastiginu hafa konur tekið forystu. Mun fleiri konur stunda nú háskólanám en karlar. Í Noregi, Svíþjóð og á Íslandi er rúmlega 1,5 kona á móti hverjum karli í háskóla og í Finnlandi og Danmörku eru konur líka fjölmennari í hópi háskólastúdenta (The Global Gender Gap Report, 2013).
Þrátt fyrir að jafnræði hafi náðst meðal kynjanna í menntun skilar sú fjárfesting sér ekki til kvenna.  Árið 2013 lét Bandalag háskólamanna á Íslandi vinna kjarakönnun. Í könnuninni voru laun og kjaratengdir þættir félagsmanna skoðaðir og sýndu niðurstöður áberandi launamun milli kynja hjá öllum vinnuveitendum. Línulegt samband var milli launa og fjölda kvenna í aðildarfélagi, því fleiri konur þeim mun lægri laun. Heildarvinnutími karla innan BHM var rúmum 15 vinnustundum lengri en kvenna. Karlar voru með 16,3% hærri heildarlaun en konur en þegar tekið hafði verið tillit til starfshlutfalls og vinnustunda mældist launamunurinn 11% og 8,9% með tilliti til menntunar og aldurs (Kjarakönnun BHM, 2013).


Samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla (Lög nr. 10/2008) skulu einstaklingar hafa jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni og staðalmyndum. Á vinnumarkaði ber að vinna gegn kynbundnum launamun og kynskiptum vinnumarkaði og á öllum skólastigum skal undirbúa nemendur, óháð kyni, til jafnrar þátttöku í samfélaginu hvort heldur í starfi eða einkalífi. Ljóst er að sérstakt átak þarf til og breytingar að eiga sér stað á vinnumarkaði ef þetta á að ganga eftir. Aðgreining starfa í sérstök karla- og kvennastörf á stóran þátt í launa- og aðstöðumun kynjanna. Karlastörf eru meira metin og njóta meiri virðingar en hefðbundin kvennastörf.


Í október 2012 gaf velferðarráðuneytið út aðgerðaráætlun um launajafnrétti kynjanna. Áætlunin, sem er til fjögurra ára, miðar að því að draga verulega úr kynbundnu launamisrétti hér á landi. Lagt er upp með ýmis verkefni meðal annars skal mótuð stefna og áætlun um aðgerðir til langs tíma til að hafa áhrif á náms- og starfsval ungs fólks. Sérstök áhersla verður lögð á að fjölga körlum í kvennastéttum og konum í karlastéttum. 


Markmið jafnréttislaga er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Markmiði þessu skal meðal annars ná með því að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins.


Í 23. gr. jafnréttislaga segir að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi sem þýðir að kynjajafnrétti á að vera útgangspunktur. Kyngreindar upplýsingar gegna lykilhlutverki þegar skoða á hvernig ólík tækifæri og ólíkar aðstæður kvenna og karla birtast. Ef fram kemur ómálefnalegur mismunur þarf að endurskipuleggja starfsemina til að ná fram jafnvægi. Í úttekt Alþjóðaefnahagsráðsins (2013) segir að mun fleiri konur stundi háskólanám á Íslandi en karlar og því er ekki úr vegi að skoða hvernig ólík tækifæri og aðstæður kynjanna til háskólanáms birtast. 



Ljóst er að konur eru í miklum meirihluta nemenda í háskólum og ef fram heldur sem horfir stefnir allt í það að skilgreina megi háskóla á Íslandi sem kvennaskóla. En hvað veldur því að konur sækja sér frekar háskólamenntun?


Mesta kynjaskekkjan kemur fram í Háskólanum á Akureyri þar sem karlar eru einungis 22% nemenda. Heilbrigðisvísindi, kennsla og félagsvísindi virðast ekki höfða til karla en meira jafnræðis gætir í laga-, auðlinda-, og viðskiptadeild þrátt fyrir að konur séu þar einnig í meirihluta. Karlar virðast ekki finna sig í þeim námsgreinum sem kenndar eru við Háskólann á Akureyri og við því þarf að bregðast. Ein leiðin gæti falist í breyttu námsframboði með aukinni áherslu á hefðbundnar karlagreinar. Önnur leið gæti falist í að hefja aðgerðir til að fjölga körlum í kvennagreinum. Slík aðgerð kæmi heim og saman við aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um launajafnrétti kynjanna sem miðar að því að brjóta upp hefðbundið náms- og starfsval og kynskiptan vinnumarkað.



Einungis í Háskólanum í Reykjavík eru karlar í meirihluta nemenda eða 61%. Öfugt við Háskólann á Akureyri er í Háskólanum í Reykjavík lögð áhersla á hefðbundnar karlagreinar eins og tölvunarfræði, tækni- og verkfræði. Samt er kynjaskekkjan í Háskólanum í Reykjavík ekki eins afgerandi og í Háskólanum á Akureyri þar sem áhersla er lögð á hefðbundnar kvennagreinar. Hugsanleg skýring á minni kynjaskekkju í Háskólanum í Reykjavík gæti verið að konur hafa frekar en karlar frelsi til að fara óhefðbundnar leiðir í náms- og starfsvali. Sífellt fleiri konur hafa haslað sér völl í hefðbundnum karlagreinum en það sama gildir ekki um karla, mun erfiðara virðist fyrir þá að fara inn á hefðbundin svið kvenna. Ennþá þekkjast þau viðhorf að strákar taki niður fyrir sig eða hljóti að vera eitthvað skrýtnir ef þeim dettur í hug að verða leikskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar.



Kynjahlutfall nemenda í Háskóla Íslands er mjög skekkt en þar eru karlar um 34% nemenda. Ef verkfræði- og náttúruvísindasvið skólans er undanskilið eru karlar einungis í meirihluta í tveimur deildum, hagfræðideild (63%) og sagnfræði- og heimspekideild (56%). Í öllum öðrum greinum innan skólans eru konur fleiri. Á heilbrigðisvísindasviði má glögglega sjá hvernig konur eru að taka yfir hefðbundnar karlagreinar eins og læknisfræði, lyfjafræði og tannlækningar. Aftur sýna tölurnar að vandamálið virðist ekki liggja í því að konur fari ekki inn á hefðbundin svið karla heldur frekar að karlar komast ekki yfir kynjamúrinn sem heldur þeim frá hefðbundnari kvennagreinum.



Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands sker sig úr en þar eru karlar í meirihluta í öllum greinum nema líf- og umhverfisvísindadeild. Í rafmagns- og tölvuverkfræði og iðnaðar- og vélaverkfræði eru karlar enn í miklum meirihluta á meðan meira jafnræði ríkir í öðrum deildum. 

Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um launajafnrétti kynjanna er sérstök áhersla lögð á að fjölga körlum í kvennastéttum og konum í karlastéttum. Konur virðast eiga auðveldara en karlar með að fara óhefðbundnar leiðir í náms- og starfsvali og þær eru í miklum meirihluta þeirra sem sækja sér háskólanám á Íslandi. Líklegt er að svipaða kynjaskekkju megi finna í iðn- og verkgreinum og að þá halli á konur. 

Jafnrétti kynjanna snýst ekki um að allir séu eins, heldur að allir fái tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum, óháð kyni. Þrátt fyrir hátt í fjörutíu ára gömul lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla virðist kyn enn takmarka frelsi einstaklinga. Kynið virðist til dæmis hafa meira að segja þegar kemur að náms- og starfsvali en hæfileikar og langanir. Þannig nýtist reynsla, þekking og hæfileikar beggja kynja ekki til fulls og kynbundinn launamunur verður viðvarandi vandamál. 

Ef takast á að fjölga körlum í kvennastéttum og konum í karlastéttum þarf strax á leikskóla að byrja að vinna með kynbundin viðhorf nemenda til starfa. Efla þarf kynjafræðiþekkingu kennara og auka skilning foreldra á mikilvægi jafnréttisuppeldis. Náms og starfsráðgjöf þarf að fá meira vægi með sérstakri áherslu á  kynbundna starfshugsun. Tryggja þarf bæði strákum og stelpum ráðgjöf sem getur leitt þau inn á óhefðbundinn starfsvettvang með tillit til kyns. Öðruvísi mun okkur ekki takast að uppræta úreltar staðalmyndir kynjanna sem úthluta strákum og stelpum ólíkum hlutverkum í lífi og starfi. Ef ekkert verður að gert munu háskólar á Íslandi þegar fram líða stundir standa undir nafni sem hinir nýju kvennaskólar.