Fréttir

Klámvæðing er kynferðisleg áreitni

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar og MARK – miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna við Háskóla Íslands gefa út bækling sem nefnist Klámvæðing er kynferðisleg áreitni. Bæklingurinn varpar ljósi á það hvernig konur upplifa klám á vinnustöðum og umræðu um útlit sitt í stað frammistöðu. Upplýsingar um þetta efni hafa ekki áður komið út á íslensku og er bæklingurinn ætlaður starfsfólki Reykjavíkurborgar og starfsfólki og nemendum Háskóla Íslands. 

Karlarnir og hrunið-Yfirráð, undirgefni og tilfærsla valds meðal karla

Karlar og hugmyndir um karlmennsku léku lykilhlutverk í þeim atburðum sem leiddu til hrunsins. En karlar eru ekki einsleitur hópur og allir karlar hafa ekki völd. Völd er ekki gefin stærð, föst og óumbreytanleg heldur flæðandi og mótanleg. Þorgerður Einarsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir fjalla um breytingar á valdatengslum meðal karla í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þær skoða samspil pólitísks vald og peningavalds og hvernig það tengist pólitískum hugmyndastraumum og orðræðu samtímans.  Umfjöllun Þorgerðar og Gyðu Margrétar fer fram í Gimli 102 kl.12-13. Öll velkomin!

Upplýsingar á ensku um jafnréttismál

Jafnréttisstofa hefur tekið saman umfangsmikinn upplýsingapakka á ensku um jafnréttismál á Íslandi. Í útgáfunni er að finna kynningu á íslenskri jafnréttislöggjöf og þeim opinberu aðilum sem starfa á sviði jafnréttismála hérlendis. Þá er einnig að finna upplýsingar um félagasamtök og aðra aðila sem koma að málaflokknum.  Fyrirhugað er að útgáfan verði endurskoðuð árlega.  Útgáfan er liður í endurbótum á enskri heimasíðu Jafnréttisstofu sem opnuð verður bráðlega. Upplýsingapakkann má nálgast hér

Breytingar á fæðingarorlofi í Noregi

Norska ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögur um nýtt fyrirkomulag á fæðingarorlofi sem byggist á því að jafna ábyrgð og tækifæri beggja foreldra til að sinna nýfæddu barni. Breytingin minnir nokkuð á það kerfi sem tekið var upp hér á landi árið 2000 en gengur nokkuð lengra. Í fyrsta lagi er sérstakt tillit tekið til þess að mæður þurfi hvíld frá vinnu fyrir fæðingu og fá þær þriggja vikna orlof á launum fyrir fæðingu barns sem ekki skerðir orlofið sem hefst eftir fæðingu barnsins. Síðan fær móðirin 12 vikur, faðirinn 12 og síðan er sameiginlegt orlof í 20 vikur ef tekin er full greiðsla eða samtals 44 vikur. 

Góð þátttaka í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Þann 25. nóvember sl. var 16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 20. sinn um allan heim. Átakið hefur beinst að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Yfirskrift átaksins á Íslandi í ár var Heimilisfriður-Heimsfriður og áhersla lögð á að vera vakandi fyrir þeirri vá sem fylgir ofbeldi í nánum samböndum sem er mjög falið vandamál í okkar samfélagi. Þann 25. nóvember sl. var 16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 20. sinn um allan heim. Átakið hefur beinst að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Yfirskrift átaksins á Íslandi í ár var Heimilisfriður-Heimsfriður og áhersla lögð á að vera vakandi fyrir þeirri vá sem fylgir ofbeldi í nánum samböndum sem er mjög falið vandamál í okkar samfélagi.

Að skrifa konur inn í söguna

Föstudaginn 10. febrúar efnir Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) til málþings í samvinnu við Jafnréttisstofu, Sagnfræðistofnun og mennta- og menningarmálaráðuneytið um hlutdeild og birtingarmyndir kynjanna í sögubókum. Málþingið, sem ber heitið „Að skrifa konur inn í söguna“, fer fram kl. 14.00-17.30 í Öskju, stofu 132.

Stöndum vörð um vora jörð

Dagatal Jafnréttisstofu í ár er tileinkað Ríó samningnum um loftslagsbreytingar sem var samþykktur í New York árið 1992. Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 4. júní 1992 og fullgiltur 16. júní 1993. Í samningnum er lögð áhersla á nauðsyn þess að öll ríki heims taki þátt í að sporna við loftsslagsbreytingum og vernda vistkerfið.

Velferðarráðherra fundar með starfsfólki Jafnréttisstofu

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra heimsótti starfsfólk Jafnréttisstofu síðastliðinn föstudag og sat fund um starfssemi stofunnar og brýnustu verkefni framundan. Á fundinum var m.a. rætt um launamisrétti, fræðslustarf, jafnréttisáætlanagerð sveitarfélaga og stofnana auk þess sem farið var yfir helstu þætti sem þarf að hafa í huga við endurskoðun jafnréttislaga. Í för með ráðherranum voru Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, Ingi Valur Jóhannsson, og Björg Fenger.

Af hverju bara á Íslandi, Ný barnalög án dómaraheimildar - Norrænn samanburður

Félag um foreldrajafnrétti efnir til ráðstefnu, föstudaginn 10. febrúar kl. 13:30 í Háskólanum í Reykjavík, vegna fyrirhugaðra breytinga á barnalögum varðandi forsjá, umgengni og fleira. Ráðstefnan ber heitið "Af hverju bara á Íslandi, Ný barnalög án dómaraheimildar - Norrænn samanburður" og mun fjalla um heimild dómara til að ákveða hvort foreldrar fari sameiginlega með forsjá barns en jafnframt verður komið inn á aðra þætti fyrirhugaðra breytinga.