Netnámskeið

Hér að neðan er að finna netnámskeið. Markmiðið með námskeiðinu er að auka þekkingu fagfólks um land allt á heimilisofbeldi og auðvelda svör við spurningum, til að mynda: Hvernig berum við kennsl á þolendur og gerendur? Hvernig skal bregðast við? Hvaða úrræði eru fyrir hendi á Íslandi? Hverju þarf að huga að við vinnslu á málum er varða fatlað fólk, barnshafandi einstaklinga, fólk af erlendum uppruna, hinsegin fólk og einstaklinga af öðrum minnihlutahópum?

Námskeiðið samanstendur af 13 myndböndum með fyrirlestrum fagfólks sem starfar í nánum tengslum við fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi í nánum samböndum.

Myndböndin er tilvalið að nota sem fræðslu fyrir starfsfólk stofnana, félagasamtaka og annarra. Þau er einnig hægt að nota sem hluta af ráðstefnum, námskeiðum, kennslu í framhaldsskólum og á háskólasstigi. Þau eru opin öllum til nýtingar að kostnaðarlausu.

 

1. Freydís Freysteinsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, fjallar um ofbeldi í nánum samböndum út frá fræðilegum kenningum félagsráðgjafarinnar. 

 

2. Alda Hrönn Jóhannesdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á Suðurnesjum, fjallar um hlutverk og verkefni lögreglu á vettvangi og eftirvinnslu í heimilisofbeldismálum.

 

3. Auður Magnúsdóttir, Elín Klara Bender og Kjell Hymer, starfsfólk heimilisofbeldisteymis barnaverndar Kópavogs. Þau fjalla um vinnslu barnaverndar í heimilisofbeldismálum og hlutverk félagsþjónustu sveitarfélaga á vettvangi og við vinnslu heimilisofbeldismála.

 

 

 4. Hrönn Stefánsdóttir, hjúkrunarfræðingur bráðadeildar, fjallar um verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis á bráðamóttöku heilbrigðisstofnana.

 

 5. Ástþóra Kristinsdóttir, sérfræðiljósmóðir, fjallar um heimilisofbeldi á meðgöngu út frá orsökum og afleiðingum. Ástþóra fer til að mynda yfir tíðni, áhættuhópa, hvernig hægt er að bera kennsl á þungaða þolendur heimilisofbeldis.

 

 

6. Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar - miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, kynnir hér starfsemi og verkefni miðstöðvarinnar.

 

 

7. Andrés Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði, segir frá meðferð sem þau bjóða upp á fyrir karla og konur sem beita ofbeldi í nánum samböndum.

 

 

8. Eiríkur Smith, réttindagæslumaður fatlaðra, fjallar um hlutverk og verkefni réttindagæslu í heimilisofbeldismálum.

 

 

 

9. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um Kvennaathvarf, segir frá starfsemi athvarfsins og mikilvægi þess sem úrræði fyrir þolendur í heimilisofbeldismálum.

 

 

10. Nichole Leigh Mosty, verkefnastjóri hjá Women in Iceland, kynnir hér úrræði fyrir konur af erlendum uppruna. Hún fjallar einnig um mikilvægi þess að taka tillit til menningarmunar og sérstöðu innflytjenda í vinnu með heimilisofbeldismál.

 

 

11. Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, fjallar um hinsegin fólk og heimilisofbeldi. Valgerður segir frá hvernig hægt er að bæta þjónustu við þolendur og gerendur með því að innleiða hinsegin sjónarmið í þjónustu. Bækling Reykavíkurborgar um hinsegin fólk og heimilisofbeldi má finna hér

 

 

12. Tómas Ingi Adolfsson, verkefnastjóri Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar, segir frá þeirri vinnu sem Reykjavíkurborg hefur farið í um málefni fatlaðs fólks og heimilisofbeldis. Mikið hefur verið gert til að auka þekkingu á málum fatlaðs fólks til að auka við þau þjónustu og bæta þar með verkefni Reykjavíkurborgar Saman gegn ofbeldi.

 

 

13. Þóra Kemp er deildarstjóri skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Á þjónustumiðstöðvum borgarinnar hefur farið fram kerfisbundin skimun fyrir ofbeldi til að gera þjónustufulltrúum í félagsþjónustu kleift að bera kennsl á þolendur og gerendur í ofbeldismálum og bjóða þeim viðeigandi þjónustu. Þóra segir hér frá þeim spurningum sem lagðar eru fyrir þjónustuaðila borgarinnar og hvernig til hefur tekist með skimunina.