Upptökur af ráðstefnum

Lokaráðstefnu Breaking the silence (á ensku) má sjá hér

 

Gerum betur! Áhrifaríkar aðferðir og helstu hindranir í vinnu með heimilisofbeldismál

Ráðstefna um samvinnu í heimilisofbeldismálum var haldin þann 18. október 2018 á Icelandair hótel Reykjavík Natura kl. 10.00–16.00. Ráðstefnan var ætluð fagfólki sem vinnur með ofbeldi í nánum samböndum og almenningi sem vill láta sig málefnið varða. Fjallað var um hver staðan er í heimilisofbeldismálum og hver hefur þróunin verið undanfarin ár? Fjallað var um nokkur fyrirmyndarverkefni, meðal annars verkefnið Saman gegn ofbeldi, samvinnuverkefni í heimilisofbeldismálum með aðkomu fjölbreytts hóps fagsfólks, verklag bráðamóttöku Landspítalans í heimilisofbeldismálum, Heimilisfrið, meðferðarúrræði fyrir gerendur og reynsluna af starfsemi Bjarkarhlíðar.

Kynntar voru nýjar rannsóknir um ofbeldi í nánum samböndum á Íslandi. Meðal annars var fjallað um rannsókn á upplifun kvenna af sáttameðferð sýslumanns við skilnað, heimilisofbeldi gagnvart fötluðu fólki, reynslu af því að leita sér hjálpar og ná bata eftir ofbeldissamband auk þess sem skoðuð var staða erlendra kvenna sem hafa upplifað heimilisofbeldi. Í lok ráðstefnunnar voru pallborðsumræður með þolendum heimilisofbeldis þar sem rætt var um hvernig þau upplifa samfélagið og þjónustu hins opinbera við úrlausn vanda þeirra og þær hindranir sem komu upp þegar þau voru að komast út úr aðstæðunum. 

Hér má sjá dagskrána

Hér má sjá upptöku af ráðstefnunni Gerum betur!

 

Byggjum brýr - brjótum múra

Jafnréttisstofa hélt þéttsetna ráðstefnu um samvinnu í heimilisofbeldismálum þann 4. október 2017 og ljóst að áhugi er mikill á að takast á við heimilisofbeldismál á þverfaglegum grunni. Ráðstefnan er hluti af verkefni Jafnréttisstofu Byggjum brýr – brjótum múra sem styrkt er af ESB. Þátttakendur ráðstefnunnar komu frá öllum landsfjórðungum og úr ýmsum geirum samfélagsins. 

Ráðstefnustjóri var Halla Bergþóra Björnsdóttir, Lögreglustjóri á Norðurlandi eystra en forsetafrú Eliza Reid opnaði ráðstefnuna og kom fram í hennar máli að þegar litið er til síðustu 10 ára megi sjá skýran árangur verklags Ríkislögreglustjóra frá 2014 sem byggir á samvinnuverkefni á Suðurnesjum Að halda glugganum opnum. Fyrir innleiðingu verklagsins, á árunum 2007-2014, voru tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi að meðaltali 26 á mánuði en hafa hækkað í 69 að meðaltali á mánuði á árunum 2015 til dagsins í dag sem er meira en tvöföldun á tilkynntum málum. 

Fríða Rós Valdimarsdóttir kynnti verkefnið Byggjum brýr - brjórum múra fyrir hönd Jafnréttisstofu.

Peter Neyroud, frá lögregludeild Cambridge háskóla, lagði áherslu á að lögreglan þyrfti að greina erfiðustu 2% heimilisofbeldismála þar sem þau eru oft stærsti hluti mála sem er tilkynnt um. Leggja þarf áherslu á að veita gerendum og þolendum í þeim málum sérstaklega mikinn stuðning og leggja megináherslu á að greina stuðningsþörf þolenda og gerenda í þeim málum.


Sissel Meling frá lögreglunni í Noregi fjallaði um alvarleika stigsþróunar í heimilisofbeldismálum. Oft byrja alvarlegustu málin með minniháttar neikvæðum athugasemdum eða afbrýðisemi maka. Sissel sagði frá helsta verkfæri SARA til að mynda samtöl sem leitast við að gera gerendum og þolendum grein fyrir mikilvægi þess að leita sér aðstoðar og þiggja aðstoð. Hún ræddi líka um mikilvægi þess að nýta óhefðbundnar aðferðir til að ná til gerenda og þolenda með það að markmiði að draga úr eða stöðva ofbeldið.

Í öðrum hluta ráðstefnunnar var umfjöllunarefnið jaðarhópar sem eru í mestri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Ástþóra Kristinsdóttir sagði frá þeim áhrifum sem streita af völdum heimilisofbeldis hefur á fóstur. Páll Ólafsson sagði frá reynslu Barnaverndarstofu eftir að stofan fór að vinna meira með börnum sem búa við heimilisofbeldi og höfðu áður verið haldið utan við vinnslu á heimilisofbeldismálum. Reynsla stofunnar er að börn sem búa við ofbeldi hljóta mikinn skaða þó svo að þau séu ekki beinir þolendur ofbeldisins. 

Hrafnhildur Snæfríðar- og Gunnarsdóttir fjallaði um vöntun á þekkingu á málefnum fatlaðs fólks og hversu útbreitt ofbeldi er gegn fötluðum. Hildur Valdís Guðmundsdóttir greindi frá veikri stöðu kvenna sem koma frá löndum utan EES þegar þær lenda í heimilisofbeldi í erindi sínu Gæfa eða gildra.


Ráðstefnan endaði á umræðu um mikilvægi samvinnu. Þar kom meðal annars fram að Ríkislögreglustjóri vinnur að innleiðinu SARA verklagsins innan sinnar stofnunar. Fjallað var um, frá ýmsum hliðum, hversu ólíkar leiðir lögregluumdæmi og sveitarfélög hafa farið við að þróa samvinnu í heimilisofbeldismálum. Jaðarhópar eins og fólk með fjölþættan vanda og geðfatlaðir mega ekki verða utan við þegar unnið er að úrræðum fyrir gerendur og þolendur. Í lok ráðstefnunnar hvatti Alda Hrönn Jóhannsdóttir til þess að stofnanir nýttu krafta sína í að vinna gegn ofbeldi í sameiningu í stað þess að keppast innbyrðis um fjármagn.

Hér má sjá dagskránna

Hér má sjá upptöku af ráðstefnunni Byggjum brýr – brjótum múra