Skilgreiningar á heimilisofbeldi

Notkun á hugtökunum heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er nokkuð frjálsleg þar sem hvort tveggja er notað til skiptis í almennu tali og oft í víðu samhengi. Í þessari umfjöllun verður notast við orðið heimilisofbeldi. Ekki er munur á hugtökunum eins og þau eru skilgreind hér.

Um er að ræða ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, skyldur eða tengdur, eins og maki, barn, foreldri, barnsfaðir, systkini eða forráðamaður. „Maki“ getur verið núverandi eða fyrrverandi eiginmaður/eiginkona, kærasti/kærasta eða sambúðaraðili. Þolandi og gerandi þurfa hvorki að búa saman né vera gift til að ofbeldið flokkist sem heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi þarf heldur ekki að vera bundið við heimili geranda eða þolanda.

Sérstaða heimilisofbeldis felst í því að gerandi og þolandi tengjast nánum böndum sem gerir ofbeldið enn sársaukafyllra en ella, auk þess að gera þolanda erfiðara um vik að slíta tengslum við ofbeldismanninn. Heimilisofbeldi er skilgreint sem kynbundið ofbeldi en það er þegar ofbeldi er beint gegn þolanda vegna kynferðis viðkomandi eða ofbeldi þar sem yfirgnæfandi meirihluti þolenda er af tilteknu kyni.

 

Ólík form og birtingarmyndir heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi getur verið af margvíslegum toga og í hverju tilfelli er oft er um fleiri en eina tegund ofbeldis að ræða. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt og stafrænt auk ýmis konar hegðunar sem felur í sér ógn, hótun, stjórnun og/eða þvinganir. Formi og aðdraganda ofbeldisins má oft lýsa sem ákveðnum ofbeldishring, þar sem spennan í sambandinu magnast upp, endar með einhvers konar sprengingu, svo fellur allt í dúnalogn („hveitibrauðsdagarnir“) og allt er frábært. Svo byrjar spennan aftur að byggjast upp og hringurinn rúllar.

Athugið að hér á eftir er einungis stiklað á stóru hvað varðar lýsingu, dæmi og afleiðingar ýmissa birtingarmynda ofbeldis. Samantektin er alls ekki tæmandi og er einungis til þess hugsuð að gefa hugmynd um tegundir ofbeldis og afleiðingar. Algengt er að form/birtingarmyndir ofbeldis skarist, til dæmis er líkamlegt ofbeldi einnig andlegt ofbeldi. Kynferðislegt ofbeldi er jafnframt líkamlegt í flestum tilfellum, en getur verið t.d. að þvinga fólk til að horfa á klám, að vera með kynferðislegar aðdróttanir eða að tala á óviðeigandi kynferðislegan máta.

Mikið fræðsluefni um heimilisofbeldi er aðgengilegt á netinu. Til dæmis eru til nokkrar rannsóknir á íslensku um heimilisofbeldi.

 

1. Líkamlegt ofbeldi

Líkamlegt ofbeldi er þegar líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi, hvort sem líkamlegur skaði hlýst af eða ekki. Líkamlegt ofbeldi er líka þegar haldið er aftur af líkamlegum þörfum viðkomandi. Algengt er að líkamlegu ofbeldi sé beitt í kjölfar andlegs ofbeldis sem hefur verið til staðar um tíma.

Dæmi um líkamlegt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef maki þinn:

 • Heldur þér í gíslingu.
 • Kemur í veg fyrir að þú nærir þig.
 • Kemur í veg fyrir að þú náir almennilegum svefni.
 • Skaðar þig með t.d. hnífi, belti, byssu eða barefli.
 • Kemur í veg fyrir að þú getir tekið nauðsynleg lyf.
 • Sparkar/kýlir í hluti, hendir og/eða skemmir hluti.
 • Kemur í veg fyrir að þú getir farið og/eða komið þegar þú vilt.
 • Slær, kýlir, lemur, klórar, bítur, skallar, klípur, sparkar í, rífur í hár, hrindir, brennir, drekkir, kæfir, eða tekur þig kverkataki.

 

Afleiðingar geta verið misjafnlega alvarlegar. Alvarlegasta afleiðing líkamlegs heimilisofbeldis er þegar annar aðilinn myrðir maka sinn.

 

2. Andlegt ofbeldi

Andlegt ofbeldi getur verið í formi orðaskipta eða í formi líkamstjáningar. Samskiptin einkennast oft af niðurlægingu og er yfirleitt leið annars aðilans að ná stjórn á eða völdum yfir makanum.

Dæmi um andlegt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef maki þinn:

 • Öskrar á þig.
 • Uppnefnir þig.
 • Gerir lítið úr þér.
 • Hótar og/eða ógnar þér.
 • Segir þig ruglaða/geðveika.
 • Kennir þér um hegðun sína og líðan.
 • Einangrar þig frá vinum og fjölskyldu.
 • Treystir þér ekki til að taka ákvarðanir.
 • Lætur þér líða eins og þú sért föst í sambandinu.
 • Treystir þér ekki í kringum aðila af hinu kyninu.
 • Fylgist með ferðum þínum – hefur eftirlit með þér.
 • Kemur að tilfinningu hjá þér um yfirvofandi ofbeldi.
 • Gagnrýnir þig og/eða gerir lítið úr afrekum þínum eða vinnu.
 • Lætur þér líða þannig að þú þurfir virkilega á honum að halda.
 • Er móðgandi/særandi þegar hann er undir áhrifum áfengis/fíkniefna.
 • Notar áfengi/fíkniefni sem afsökun til að segja móðgandi/særandi hluti.
 • Áreitir þig stanslaust t.d. með skilaboðum, símhringingum og/eða heimsóknum.
 • Ætlar að „láta þér eitthvað að kenningu verða“ með því að t.d. banna þér að leita aðstoðar eftir rifrildi.
 • Niðurlægir þig og gerir grín að þér, hvort sem er í fjölmenni, fyrir framan vini/fjölskyldu eða þegar þið eruð tvö.

 

Afleiðingar andlegs ofbeldis sitja oft lengur í þolandanum, miðað við afleiðingar líkamlegs ofbeldis. Andlegt ofbeldi skilur ekki eftir sig sjáanlega áverka og því getur verið erfiðara að koma auga á það og meðhöndla.

 

3. Kynferðislegt ofbeldi

Kynferðislegt ofbeldi getur verið í formi óumbeðinnar innsetningar (um leggöng, endaþarm og/eða munn), eða snertingar (strjúka, kyssa, sleikja, sjúga eða nota hluti) á einhverjum hluta líkamans. Ofbeldið getur birst sem:

 • Kynferðisleg árás; eins og að þvinga viðkomandi til að stunda með sér einhvers konar kynmök, hvort sem um er að ræða varin eða óvarin.
 • Kynferðislegt áreiti; getur verið bæði andlegt og líkamlegt áreiti af kynferðislegum toga.

Dæmi um kynferðislegt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef maki þinn:

 • Gerir þig út í vændi.
 • Krefst kynlífsathafna sem þú kýst ekki.
 • Lætur þig stunda kynlíf með (mörgum) öðrum.
 • Notar líkamlegt afl, vald, samvisku eða neyð þína til að eiga við þig kynmök.

Það telst kynferðislegt ofbeldi ef annar aðilinn ákveður að stunda kynmök með maka sínum ef makinn er drukkinn, undir áhrifum fíkniefna, sofandi, hræddur við að neita um þátttöku í kynlífi, of gamall, of ungur eða er háður þeim sem krefst kynmaka.

 

Afleiðingar geta komið fram strax en líka síðar, og geta verið líkamlegar, andlegar og/eða félagslegar. Konur sem búa við kynferðislegt ofbeldi eru útsettari fyrir að smitast af kynsjúkdómum, eru líklegri til að vera með vandamál tengd kynfærasvæði og í móðurlífi (s.s. sýkingar, erting, verkir) og eru líklegri til að verða ófrískar gegn sínum vilja en konur sem ekki búa við slíkt ofbeldi. Þolendur kynferðisofbeldis eru enn fremur líklegri til að vera með einkenni áfallastreituröskunar, kvíða og þunglyndis. Jafnframt eru þolendur líklegri til að finna fyrir skömm, sektarkennd, reiði, ótta, einangrun og hafa lélegri sjálfsmynd en þeir sem ekki hafa verið beittir kynferðisofbeldi.

 

4. Fjárhagslegt ofbeldi

Fjárhagslegt ofbeldi er leið til að stjórna makanum í gegnum fjárhag.

Dæmi um fjárhagslegt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef maki þinn:

 • Bannar þér að vinna.
 • Tekur launin þín af þér.
 • Skammtar þér peninga.
 • Skráir skuldir á þig en eignir á sig.
 • Kemur í veg fyrir að þú veljir þér starfsframa.
 • Eyðileggur persónulega muni þína viljandi.
 • Heldur upplýsingum um stöðu fjármála frá þér.
 • Ráðstafar sameiginlegum fjármunum í óþarfa eins og áfengi/fíkniefni eða eigin áhugamál án þess að ráðfæra sig við þig.

 

Afleiðingar geta verið þær að þolandi einangrast, missir sjálfstæði sitt og finnst hann eigi erfitt með að yfirgefa geranda þar sem þolandi er orðinn fjárhagslega háður honum.

 

5. Stafrænt ofbeldi

Er þegar ofbeldi er beitt með notkun tækni, til dæmis senda skilaboð gegnum samfélagsmiðla, síma eða tölvupóst.

Dæmi um stafrænt ofbeldi í nánu sambandi getur verið ef maki þinn:

 • Skráir sig inná samfélagsmiðla á þínu nafni.
 • Stýrir því hver má vera vinur þinn t.d. á facebook og hver ekki.
 • Er með upplýsingar um staðsetningu þína, t.d. í gegnum símann.
 • Stýrir því hverja þú mátt tala við gegnum samfélagsmiðla eða í síma.
 • Sendir þér og þrýstir á þig að senda sér skilaboð af kynferðislegum toga.
 • Þrýstir á þig að senda sér nektar/kynlífsmyndir og/eða myndbönd af þér.
 • Skoðar símann þinn reglulega, skoðar myndir, skilaboð og símtalasögu.
 • Sendir þér nektar/kynlífs myndir og/eða myndbönd af sér, gegn þínum vilja.
 • Sendir stanslaust skilaboð gegnum síma/samfélagsmiðla og/eða hringir stanslaust.
 • Hótar að tala illa um þig eða bera út sögur í gegnum t.d. síma eða samskiptaforrit.
 • Heimtar að fá lykilorð þín til að geta skráð sig inná samfélagsmiðla eða bankareikninga.
 • Hótar að birta opinberlega nektar/kynlífsmyndir og/eða myndbönd af þér, eða senda til ættingja, vina eða vinnufélaga.

 

Afleiðingar geta verið margvíslegar, fyrir utan stöðugt yfirvofandi áreiti upplifa þolendur oft ótta, reiði, kvíði, þunglyndi, ógn og að þeir séu ekki við stjórnina í sínu eigin lífi. Rannsóknir sýna einnig að þolendum finnst þeir ekki eiga neitt einkalíf, eru líklegri til að einangra sig, skammast sín fyrir stöðuna, finnst hún vera sér að kenna og upplifa sig hjálparlausa, miðað við þá sem ekki búa við þessa tegund ofbeldis.

Þessi texti er fenginn frá Kvennaathvarfinu