Jafnréttisáætlanir

Hvað er jafnréttisáætlun?  

Jafnréttisáætlun er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að skoða og endurmeta aðstæður á hverjum vinnustað og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem geta verið á vegi bæði kvenna og karla. Vel upplýst starfsfólk er forsenda þess að jafnréttisstarf sé virkt hjá fyrirtækjum og stofnunum. Jafnréttisáætlanir tryggja virkt jafnréttisstarf á vinnumarkaði.

Það er hagsmunamál fyrir atvinnulífið að starfsfólk sé áhugasamt og ánægt og að þekking og reynsla allra fái notið sín sem best. Fjárfesting í mannauði skilar ekki bara bættu starfsumhverfi, heldur aukinni samkeppnisfærni.

Til að öðlast jafnlaunastaðfestingu eða jafnlaunavottun þarf að hafa samþykkta jafnréttisáætlun frá Jafnréttisstofu.

Fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri ber að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þar skal sérstaklega fjalla um:

      • launajafnrétti,
      • laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun,
      • samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og
      • sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað.

Í jafnréttisáætlunum skulu sett fram markmið og unnið að aðgerðum sem samræmast eftirfarandi þáttum:

  • Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  • Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gæta að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá á vinnumarkaði.
  • Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.
  • Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. þó 2. mgr. 16. gr.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni.
  • Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni

Verkefni og aðgerðir í jafnréttisáætlunum
Vinnan við að skapa aðstæður þar sem jafnrétti og jafnstaða ríkir milli kvenna og karla er ekkert frábrugðin annarri verkefnavinnu. Hún krefst undirbúnings, markmiðssetningar, ákvarðana um aðferðir og ekki síst vilja til að fylgja þeim ákvörðunum eftir. 

Mikilvægt er að verkefni séu vel skilgreind í upphafi og vel kynnt fyrir starfsfólki, bæði meðan unnið er að gerð jafnréttisáætlunar og þegar hún hefur verið tekin í notkun.

Framkvæmdaáætlun verður að fylgja jafnréttisáætluninni en í henni eiga að koma fram leiðir til að ná settum markmiðum. Í framkvæmdaáætluninni þarf að koma fram hver ber ábyrgð á vinnunni og hvernig á að fylgja aðgerðum eftir.

Skil á jafnréttisáætlun

Orðskýringar