Jafnrétti í sveitarfélögum

Jafnréttislögin leggja sveitarfélögum ýmsar skyldur á herðar. Þannig er sveitarfélögum skylt að afloknum sveitarstjórnarkosningum að sjá til þess að sveitarfélagið setji sér jafnréttisáætlun til næstu fjögurra ára.

Sveitarstjórn skal fela byggðaráði eða annarri fastanefnd sveitarfélags að fara með jafnréttismál og hafa, með stuðningi starfsfólks, umsjón með undirbúningi áætlunar og framkvæmd hennar.

Áætlunin skal lögð fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar, hún rædd árlega í sveitarstjórn og endurskoðuð eftir þörfum.  

Jafnréttisáætlanir

Samkvæmt 13. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála skulu sveitarstjórnir setja sér aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir þar sem fram kemur hvernig sveitarfélagið, sem stjórnvald, sem atvinnurekandi og sem þjónustuveitandi, uppfyllir skyldur sínar m.t.t. eftirfarandi laga:

Í jafnréttisáætlun sveitarfélagsins skal koma fram hvernig unnið er að kynja- og jafnréttissjónarmiðum á öllum sviðum, m.a. tiltaka markmið og aðgerðir til að stuðla að jafnrétti og jafnri meðferð við ráðstöfun fjármagns, í þjónustu sveitarfélagsins og starfsmannamálum.

Leiðbeiningar.

Skyldur sveitarfélaga

Sveitarfélög sem stjórnvald

Sveitarfélög eru í góðri stöðu til að vinna að jafnrétti í samfélaginu bæði vegna nálægðar við íbúana og þess þríþætta hlutverks sem þau hafa, sem stjórnvald, sem vinnuveitandi og sem þjónustuveitandi. Virk jafnréttisáætlun þar sem unnið er að jafnrétti á öllum þessum sviðum stuðlar að réttlátara og eftirsóknarverðara samfélagi fyrir alla.

Við skipan í nefndir og ráð þarf hlutfall kvenna og karla að vera sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta á ekki að koma í veg fyrir tilnefningu og skipan fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Einnig ber sveitarfélögum að kyngreina upplýsingar og samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við alla stefnumótun og áætlanagerð.

Sveitarfélög sem vinnuveitendur

Ánægt og hæft starfsfólk skiptir sköpum fyrir árangur sveitarfélaga og fyrirtækja og stofnana á þeirra vegum. Ef nýta á krafta og kunnáttu alls starfsfólks til fullnustu er mikilvægt að á vinnustöðum sveitarfélagsins ríki jafnrétti og allir fái notið sín óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Hegðun á borð við kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni sé ekki liðin og starfsfólk geti samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf.

Sveitarfélög sem þjónustuveitendur.

Sveitarfélög gegna veigamiklu hlutverki sem veitendur þjónustu, t.d. þegar kemur að menntun barna og unglinga, tómstunda og íþróttastarfi og umönnun aldraðra. Þegar þjónustan er skipulögð og fjármagni úthlutað þarf, auk kyns, að huga að stöðu fólks af ólíkum kynþætti og þjóðernisuppruna. Með því að hafa kynja og jafnréttissjónarmið í huga við alla stefnumótun og áætlanagerð og við ráðstöfun fjármagns má koma í veg fyrir mismunun og tryggja betur félagslegt réttlæti í þjónustu sveitarfélagsins.

Menntun og skólastarf

Sérstök ákvæði eru í jafnréttislögum varðandi menntun og skólastarf. Sveitarfélög reka grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla, auk þess sem þau styrkja gjarnan íþrótta- og tómstundastarf. Samkvæmt lögunum skal samþættingar kynja og jafnréttissjónarmmiða gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi.

Í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum er hvers kyns mismunun vegna kyns, kynþáttar eða þjóðernisuppruna óheimil. Skylt er að gæta þessa í námi, kennslu, við val á kennslu- og námsgögnum, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Nemendur á öllum skólastigum eiga að fá jafnréttis- og kynjafræðslu þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks. Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu nemendur, óháð kyni, kynþætti eða þjóðernisuppruna hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.

 

 Jafnréttismál hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Hér má finna upplýsingar um jafnréttismál hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 
Jafnréttismál eru sveitarstjórnarmál er bæklingur gefinn út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga (2016) og fjallar um jafnrétti kynjanna og jafnréttisstarf sveitarfélaga.