Jafnrétti í sveitarfélögum

Jafnréttislögin leggja sveitarfélögum ýmsar skyldur á herðar. Þannig er sveitarfélögum skylt að skipa jafnréttisnefndir að loknum sveitarstjórnarkosningum, en hlutverk nefndanna er að vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir í málefnum er varða jafnrétti kynjanna. Einnig á jafnréttisnefnd að fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þar með talið sértækum aðgerðum, til að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna innan viðkomandi sveitarfélags.

 
Jafnréttisáætlanir

Jafnréttisnefnd ber að hafa umsjón með gerð jafnréttisáætlunar til fjögurra ára, þar sem fram komi hvernig unnið skuli að kynjasamþættingu á öllum sviðu ásamt framkvæmdaáætlun um það hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu karla og kvenna innan sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlanir skulu lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn ekki síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.

Skyldur sveitarfélaga

Sveitarfélög hafa síðan sem vinnuveitendur sömu skyldur og aðrir atvinnurekendur. Þau skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og eiga að stuðla að því að störf skiptist ekki í kvenna- og karlastörf. Þeim ber að greiða konum og körlum jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og einnig ber þeim að tryggja að störf séu opin jafnt konum sem körlum. Þá ber þeim að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundna og kynferðislega áreitni.

Menntun og skólastarf

Sérstök ákvæði eru í jafnréttislögum varðandi menntun og skólastarf. Sveitarfélög reka grunnskóla og leikskóla, auk þess sem þau styrkja gjarnan íþrótta- og tómstundastarf. Samkvæmt lögunum skal kynjasamþættingar gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi. 

Nemendur skulu hljóta fræðslu um jafnréttismál á öllum skólastigum og kennslu- og námsgögn skulu vera þannig út garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Þá skulu piltar og stúlkur hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum. 

 

 Jafnréttismál hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Hér má finna upplýsingar um jafnréttismál hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.