- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi, á grundvelli hans geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 er hægt að nálgast hjá Staðlaráði Íslands.
Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og séu þau uppfyllt veitir hann viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.
Skv. breytingu á reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðlsins ÍST 85 skulu fyrirtæki og stofnanir öðlast vottun sem hér segir:
Fjöldi starfsfólks að jafnaði á ársgrundvelli |
Tímamörk |
250 eða fleiri |
31. desember 2019 |
150-249 |
31. desember 2020 |
90-149 |
31. desember 2021 |
25-89 |
31. desember 2022 |
Opinberar stofnanir, sjóðir og fyrirtæki sem eru að hálfu eða meirihluta í eigu ríkisins og þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu hafa öðlast vottun eigi síðar 31. desember 2019.
Nánari upplýsingar, leiðbeiningar auk svara við algengum spurningum má finna á vef forsætisráðuneytisins.