Orðskýringar

Hér að neðan eru orðskýringar í tengslum við jafnlaunastaðfestingu.

Afbrigði

Sjá frávik

Aukagreiðslur

Hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans, þ.e. launum ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Frávik

Einnig nefnd afbrigði eða útlagar. Mæligildi sem eru ólík öðrum mæligildum í gögnunum. Ýmsar ástæður geta verið fyrir frávikum. Í launagreiningum þurfa ástæðurnar að vera málefnalegar. Annars telst frávikið óútskýranlegt og því ekki hægt að staðfesta að til staðar sé launakerfi sem kemur í veg fyrir kynjamismunun.

Grunnlaun

Greidd mánaðarlaun fyrir dagvinnu, án allra aukagreiðslna.

Hrágögn

Gögn sem ekki hefur verið átt við.

Jafnlaunakerfi

Launakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem tryggt er að ekki sé mismunun í launum á grundvelli kyns.

Jafnlaunastaðfesting

Staðfesting Jafnréttisstofu, sem veitt er fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 – 49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli, á því að launakerfi og framkvæmd þess feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Jafnlaunastefna

Stefna vinnustaðar varðandi frammistöðu til að ná og viðhalda launajafnrétti kynja, formlega sett fram af æðstu stjórnendum.

Jafnréttisáætlun

Stefna og framkvæmdaáætlun um hvernig tryggja eigi jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna á vinnustað.

Jafnverðmæt störf

Störf fá jafnmörg stig í starfsmati. 

Jöfn laun

Laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir fólk óhað kyni og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar feli ekki í sér kynjamismun. 

Kjör

Laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Kynbundinn launamunur

Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á launum karla og kvenna að teknu tilliti til áhrifaþátta (leiðréttandi þátta) á laun.

Laun

Almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfskrafti fyrir vinnu.

Launagreining

Greining á launum sem byggist á starfaflokkun og sýnir meðaltal fastra mánaðar­launa fyrir dagvinnu, fastar viðbótargreiðslur fyrir störf og allar aukagreiðslur eftir kynjum.

Leiðréttur launamunur

Leiðréttur launamunur sýnir hvort karlar og konur með sömu eigin­leika eða þætti fái sambærileg laun. Þættirnir geta verið starfstengdir og persónubundnir (t.d. starf, atvinnugrein, menntun). Þannig er leitast við að einangra þau áhrif sem kyn hefur á laun. Sá munur er hér kallaður leiðréttur launamunur (e. adjusted gender pay gap).

Óleiðréttur launamunur

Launamunur sem sýnir mun á því hversu mikið konur og karlar fá greitt í laun á klukkustund er stundum nefndur óleiðréttur launamunur (e. unadjusted gender pay gap). Eins og nafnið gefur til kynna er þar ekki verið að leiðrétta eða stjórna fyrir áhrifum þátta eins og menntunarstigi, starfi og atvinnugrein.

Óútskýrður launamunur

Ef enn er til staðar launamunur þegar tekið hefur verið tillit til leiðréttandi þátta þá er um að ræða óútskýrðan launamun. Óútskýrður launamunur sýnir að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun geti falið í sér kynjamismunun.

Regluleg laun

Regluleg laun eru laun greidd fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags-, bónus- eða kostnaðargreiðslur, svo sem föst yfirvinna, sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili.

Starfaflokkun

Flokkun starfa út frá fyrirfram ákveðnum hlutlægum viðmiðum þar sem lagt er mat á þær kröfur sem störf gera til starfsfólks, svo sem út frá ábyrgð, álagi, hæfni og vinnuaðstæðum, þannig að saman flokkist sömu eða jafn verðmæt störf.

Útlagar

Sjá frávik

Viðbótargreiðslur

Föst yfirvinna, stjórnendaálag, persónuálag og/eða greiðslur umfram grunnlaun