Jafnréttisáætlanir

Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu. Í 18. gr. jafnréttislaga kemur fram að í slíkri jafnréttisáætlun þarf að kveða á um þau réttindi sem tilgreind eru í 19.–22. gr. Þar er sérstaklega fjallað um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og hvernig atvinnurekendur og stjórnendur eiga að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað. Í jafnréttisáætlunum skulu sett fram markmið og unnið að aðgerðum sem samræmast eftirfarandi lagagreinum:

19. gr. Launajafnrétti

Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.

Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.

Fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skal öðlast vottun að undangenginni úttekt vottunaraðila á jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar sem staðfestir að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85. Vottunina skal endurnýja á þriggja ára fresti. Nánari upplýsingar má lesa hér.

20. gr. Laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið öllum kynjum.

Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

21. gr. Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.

22. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni
Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. 


Jafnréttisáætlanir tryggja virkt jafnréttisstarf á vinnumarkaði

Jafnréttisáætlun er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að skoða og endurmeta aðstæður á hverjum vinnustað og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem geta verið á vegi bæði kvenna og karla. Vel upplýst starfsfólk er forsenda þess að jafnréttisstarf sé virkt hjá fyrirtækjum og stofnunum.

Það er hagsmunamál fyrir atvinnulífið að starfsfólk sé áhugasamt og ánægt og að þekking og reynsla allra fái notið sín sem best. Fjárfesting í mannauði skilar ekki bara bættu starfsumhverfi, heldur aukinni samkeppnisfærni.

Fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri ber að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Ýmis mikilvæg ákvæði sem varða vinnumarkaðinn og er að finna í III. og IV. kafla jafnréttislaga:

  • Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  • Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
  • Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.
  • Starf sem laust er skal standa opið jafnt konum og körlum.
  • Atvinnurekendur skulu tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, starfsþjálfunar og til að sækja námskeið.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.
  • Atvinnurekendur skulu tryggja að komið sé í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.

 

Verkefni og aðgerðir í jafnréttisáætlunum

Vinnan við að skapa aðstæður þar sem jafnrétti og jafnstaða ríkir milli kvenna og karla er ekkert frábrugðin annarri verkefnavinnu. Hún krefst undirbúnings, markmiðssetningar, ákvarðana um aðferðir og ekki síst vilja til að fylgja þeim ákvörðunum eftir. 

Mikilvægt er að verkefni séu vel skilgreind í upphafi og vel kynnt fyrir starfsfólki, bæði meðan unnið er að gerð jafnréttisáætlunar og þegar hún hefur verið tekin í notkun.

Framkvæmdaáætlun verður að fylgja jafnréttisáætluninni en í henni eiga að koma fram leiðir til að ná settum markmiðum. Í framkvæmdaáætluninni þarf að koma fram hver ber ábyrgð á vinnunni og hvernig á að fylgja aðgerðum eftir.