Meinlaust?

Þann 30. september 2022 hleypti Jafnréttisstofa af stokkunum vitundarvakningunni Meinlaust?

Vitundarvakningunni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki.

Kynbundin áreitni er með útbreiddustu vandamálum heims, hún á sér margar birtingarmyndir og hefur víðtækar afleiðingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Í vitundarvakningunni er áhersla lögð á hegðun sem mörg telja saklausa og er ætlunin að draga fram samfélagslegt mynstur sem er alls ekki eins meinlaust og halda mætti.

Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á samfélagsmiðla þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust

Vitundarvakningin er unnin í samræmi við Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020-2023 og er fjármögnuð af forsætisráðuneytinu.

Tengt efni á heimasíðunni okkar þar sem hægt er að nálgast nánari upplýsingar, t.d. um aðstoð og úrræði og fleira: 
Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni á vinnumarkaði
Kynbundið ofbeldi 

Meinlaust heldur áfram

Vitundarvakningin Meinlaust í samstarfi við Samtökin 78. Henni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem hinsegin fólk verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum sem öráreitni hefur í för með sér.

Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir það jaðarstöðuna áþreifanlega.

Öráreitni er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingarnar. Þess vegna getur verið erfitt að koma auga á öráreitni og jafnvel erfiðara að benda gerendum á að hegðun þeirra hafi skaðleg áhrif.

Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á samfélagsmiðla þar sem fólk er hvatt il að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.

Við erum hvergi nærri hætt. Næsta #meinlaust mun vera í samstarfi við Þroskahjálp þar sem fjallað verður um þá öráreitni sem fatlað fólk verður fyrir í daglegu lífi. Síðasta #meinlaust í bili verður svo á vordögum í samstarfi við Hennar rödd þar sem kynþáttafordómar gagnvart erlendum konum verða í brennidepli.

Það breytist ekkert ef við lokum augunum fyrir öráreitni. Opnum augun og stöndum saman!

Meinlaust er hafið á ný

Vitundarvakningin Meinlaust? í samstarfi við Þroskahjálp. Henni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum öráreitni sem fatlað fólk verður fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingum sem öráreitni hefur í för með sér.

Fatlað fólk verður oft fyrir öráreitni sem lýsir sér m.a. með að talað er um og við fullorðið fatlað fólk eins og það sé börn. Hugtakið barnvæðing er notað yfir slíka framkomu. Barnvæðing felur í sér hugmyndir um að fatlað fólk sé ekki hæft til að taka ákvarðanir í eigin lífi. Hún getur birst t.d. í því að tala í barnalegum tón, hrósa fyrir hversdagslega hluti eða taka fram fyrir hendur þess.

Rót barnvæðingar liggur í ableisma sem er hugtak sem lýsir mismunun og fordómum gagnvart fötluðu fólki. Það einkennist af því að fatlað fólk er talið gallað eða minna virði en ófatlað fólk. Það getur verið erfitt að koma auga á ableisma þar sem hann er oft falinn og fatlað fólk á jafnvel erfitt með að benda á hann þar sem ófatlað fólk vill yfirleitt ekki kannast við hann.

Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fatlaðs fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á samfélagsmiðla þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.

Það breytist ekkert ef við lokum augunum fyrir öráreitni og ableisma. Opnum augun og stöndum saman!


Meinlaust - konur af erlendum uppruna í fókus

Fjórði og síðasti hluti vitundarvakningarinnar Meinlaust er í samstarfi við félagasamtökin Hennar rödd.

Vitundarvakningunni er ætlað að sýna birtingarmyndir þeirrar öráreitni sem konur af erlendum uppruna verða fyrir í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir afleiðingunum.

Í vitundarvakningunni eru raunverulegar frásagnir kvenna af erlendum uppruna á Íslandi endursagðar í formi myndasagna. Í sögunum sést lítið brot af þeirri öráreitni sem konurnar verða fyrir, sem getur haft skaðleg, varanleg og hættuleg áhrif.

Vitundarvakningin fer fram á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.

Það breytist ekkert ef við lokum augunum fyrir öráreitni. Opnum augun og stöndum saman!

Hugtök

Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. 

Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Öráreitni

Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir það jaðarstöðuna áþreifanlega.

Öráreitni er jafnvel stundum ætlað sem hrós og eru þau sem láta slíkt út úr sér jafnvel ómeðvituð um afleiðingarnar. Þess vegna getur verið erfitt að koma auga á öráreitni og jafnvel erfiðara að benda gerendum á að hegðun þeirra hafi skaðleg áhrif.

Barnvæðing

Barnvæðing er hugtak yfir það þegar talað er um og við fullorðið fatlað fólk eins og börn. Barnvæðing felur í sér hugmyndir um að fatlað fólk sé ekki hæft til að taka ákvarðanir í eigin lífi. Barnvæðing birtist t.d. í því að tala í barnalegum tón, hrósa fyrir hversdagslega hluti eða taka fram fyrir hendur þeirra. Rót barnvæðingar liggur í ableisma. Það er vanvirðing að tala um og við fullorðna manneskju eins og hún sé barn.

Ableismi

Ableismi er hugtak sem lýsir mismunun og fordómum gagnvart fötluðu fólki sem einkennast af því að fatlað fólk er talið gallað og minna virði en ófatlað fólk. Ableismi er ofinn inn í samfélagið og birtist til dæmis í því að fatlað fólk er ekki talið geta stundað nám og vinnu eða sinnt foreldrahlutverkinu.
Það getur verið erfitt að koma auga á ableisma þar sem hann er oft falinn og fatlað fólk á jafnvel erfitt með að benda á hann þar sem ófatlað fólk vill yfirleitt ekki kannast við hann.

Öðrun

Öðrun er hugtak yfir það þegar komið er fram við fólk úr jaðarsettum hópum sem öðruvísi eða frávik. Slík hegðun ýtir undir hugmyndir um „okkur“ og „hina“ sem leiðir af sér ójafnrétti.
Öðrun getur verið meðvituð eða ómeðvituð. Þó svo að ásetningurinn sé ekki að mismuna eða særa, þá byggir öðrun á fordómafullum hugmyndum sem geta verið skaðlegar.

Blætisvæðing

Blætisvæðing er hugtak sem felur í sér hlutgervingu og kyngerðar staðalímyndir um fólk út frá kyni, uppruna eða kynþætti þess. Framkoman fellur undir kynbundið ofbeldi og bitnar sérstaklega á þeim sem tilheyra jaðarsettum hópum og þá aðallega konum.

Skörun

Skörun er mikilvægt verkfæri til að varpa ljósi á kerfislægan- og félagslegan ójöfnuð. Við skörun eru tengslin milli ólíkra jaðarhópa sem einstaklingur tilheyrir og skörunin þeirra á milli skoðuð.
Einstaklingur í jaðarsettum hópi getur orðið fyrir fjölþættri mismunun, þ.e. honum er mismunað á grundvelli fleiri en einnar mismununarástæðu, t.d. vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, fötlunar, o.s.frv. Sú staða kallar á flóknar áskoranir þar sem skörun er mikilvæg.

Veggspjöld