Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008 er að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Samkvæmt 21. grein laganna er atvinnurekendum skylt að gera „nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna og þarfa atvinnulífs, þar með talið að starfsmönnum sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna.“

Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína og skal þar sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um það hvernig skuli tryggja starfsmönnum þau réttindi sem þeim er tryggð samkvæmt lögum.