Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu.

Atvinnurekendum er skylt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni. Ráðstafanir þær skulu m.a.

  • miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að bæði sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsfólks og þarfa atvinnulífs.
  • þar með talið að starfsfólki sé auðveldað að koma aftur til starfa eftir fæðingar- og foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna brýnna fjölskylduaðstæðna.

Fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa 25 eða fleiri starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skulu setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína og skal þar sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um það hvernig skuli tryggja starfsmönnum þau réttindi sem hér er um kveðið.

 

Hvernig er þinn vinnustaður?

Hægt er að velta eftirfarandi spurningum fyrir sér:
  • Er rætt hvaða möguleikar eru til staðar til að auðvelda samræmingu fjölskyldu– og atvinnulífs?
  • Hver eru viðhorf stjórnenda og yfirmanna til fjölskyldulífs og mikilvægi þess að starfsfólk geti samræmt vinnu og fjölskylduábyrgð?
  • Er boðið upp á vinnufyrirkomulag og/eða vinnutíma sem auðveldar starfsfólki að eiga tíma með fjölskyldunni, eins og t.d. sveigjanlegan vinnutíma eða fjarvinnu?
  • Er fjölskyldulíf þitt metið af virðingu þegar vinna og fjölskylda rekast á?
  • Er báðum kynjum sýndur skilningur þegar sinna þarf foreldrahlutverkinu?

    Bæklingurinn fyrir stjórnendur.
    Bæklingur fyrir starfsfólk.