Jöfn meðferð á vinnumarkaði

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði tóku gildi 1. september 2018.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með skýru banni við mismunun á vinnumarkaði er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku atvinnulífi og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Jafnréttisstofa annast framkvæmd laga þessara og skal 4. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála gilda eftir því sem við getur átt.

Þannig lúta störf Jafnréttisstofu ekki eingöngu að stjórnsýslu í tengslum við jafnrétti kynjanna á grundvelli kynjajafnréttislaga og laga um stjórnsýslu jafnréttismála heldur einnig að jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar annars vegar og jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu hins vegar. 

 

Tengt efni: Jöfn meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna

Veggspjald til útprentunar fyrir vinnustaði

Jöfn meðferð

Þegar einstaklingum er hvorki mismunað beint né óbeint vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

 Bein mismunun

Þegar einstaklingur fær óhagstæðari meðferð en annar einstaklingur fær, hefur fengið eða mundi fá við sambærilegar aðstæður vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

 Óbein mismunun

Þegar að því er virðist hlutlaust skilyrði, viðmið eða ráðstöfun kæmi verr við einstaklinga vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. borið saman við aðra einstaklinga nema slíkt sé unnt að réttlæta á málefnalegan hátt með lögmætu markmiði og aðferðirnar til að ná þessu markmiði séu viðeigandi og nauðsynlegar.

 Áreitni

Hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna.

 Kjör

Laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Lífsskoðun

Skoðun sem byggist á veraldlegum viðhorfum til lífsins, ákveðnum siðferðisgildum og siðferði ásamt skilgreindri siðfræði og þekkingarfræði.

 Fötlun

Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.

 Skert starfsgeta

Varanlegt líkamlegt, andlegt eða vitsmunalegt ástand sem er meðfætt eða síðar tilkomið og skerðir starfsgetu einstaklingsins á vinnumarkaði.

 Aldur

Lífaldur.

 Kynhneigð

Geta einstaklings til að laðast að eða verða ástfanginn af öðrum einstaklingi.

 Kynvitund

Upplifun einstaklings af eigin kyni.

Kyneinkenni

Litningar, kynkirtlar og líffærafræðileg sérkenni manneskju.

 Kyntjáning

Dagsdagleg tjáning einstaklings á kynvitund sinni.