Jafnlaunastaðfesting

Hvað er jafnlaunastaðfesting?
Jafnlaunastaðfesting er staðfesting Jafnréttisstofu á því að lögð hafi verið fram gögn sem sýna fram á það, með fullnægjandi hætti, að launakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess mismuni ekki í launum á grundvelli kyns. Reglugerðina um staðfestingarleiðina má finna hér

Fyrirtæki eða stofnanir með 25 til 49 starfsmenn geta valið á milli að fá jafnlaunastaðfestingu eða jafnlaunavottun.

Skila þarf eftirfarandi gögnum til Jafnréttisstofu til að fá jafnlaunastaðfestingu:

  • Jafnlaunastefna - stefna fyrirtækis eða stofnunar í jafnlaunamálum
  • Jafnréttisáætlun eða samþætt jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu
  • Starfaflokkun
  • Launagreining
  • Áætlun til úrbóta þar sem það á við
  • Samantekt æðsta stjórnanda

Jafnréttisstofa metur umsóknargögn með tilliti til þess hvort að þau uppfylli skilyrði laga. Sé niðurstaða Jafnréttisstofu sú að gögnin séu ekki fullnægjandi að einhverju eða öllu leyti er fyrirtækinu gefin kostur á að bæta úr. Telji Jafnréttistofa að gögnin uppfylli skilyrði 8. gr. er fyrirtækinu veitt jafnlaunastaðfesting. Hana skal endurnýja á þriggja ára fresti.

Þá ber að geta þess að þau fyrirtæki sem að hljóta jafnlaunastaðfestingu öðlast ekki heimild til þess að nota jafnlaunamerkið. Einungis fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fengið jafnlaunavottun er heimilt að nota jafnlaunamerkið að fenginni heimild frá Jafnréttisstofu.

Þá er einnig vakin athygli á því að hafi fyrirtæki / stofnun ekki öðlast annaðhvort jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu hefur Jafnréttisstofa heimild til þess að beita dagsektum. 

Samkvæmt bráðabirgaðákvæði skulu fyrirtæki þar sem 25-49 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafa öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu eigi síðar en 31. desember 2022.

Nánari leiðbeiningar fyrir jafnlaunastaðfestingu

Reglugerð um framkvæmd jafnlaunastaðfestingar og eftirlit Jafnréttisstofu

8. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020

Lögin má nálgast hér

Fyrirtæki og stofnanir þar sem 25-49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli geta valið á milli þess að öðlast jafnlaunavottun, sbr. 7. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 (hér eftir jafnréttislög), eða sótt um að fá jafnlaunastaðfestingu, sbr. 8. gr. sömu laga. Kjósi fyrirtæki / stofnun að fara staðfestingarleiðina eru ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla. 

Fyrirtæki / stofnun skal skila Jafnréttisstofu gögnum sem staðfesta að jafnlaunakerfi og framkvæmd þess uppfylli, að mati Jafnréttisstofu, þær kröfur sem fram koma í 2. mgr. 8. gr. Þar ber fyrst að nefna stefnu í jafnlaunamálum og jafnréttisáætlun (eða samþættingu jafnréttissjónarmiða í starfsmannastefnu). Jafnréttisáætlun telst hafa öðlast gildi þegar Jafnréttisstofa hefur samþykkt hana, sbr. 2. mgr. 5. gr. jafnréttislaga. Þá þarf að vera til staðar starfaflokkun út frá fyrirframákveðnum hlutlægum viðmiðum þar sem lagt er mat á þær kröfur sem störf gera til starfsfólks, svo sem út frá ábyrgð, álagi, hæfni og vinnuaðstæðum, þannig að saman flokkist sömu eða jafn verðmæt störf. Þá þurfa gögnin að innihalda launagreiningu sem byggist á ofangreindri starfaflokkun og sýnir meðaltal fastra mánaðarlauna fyrir dagvinnu, fastar viðbótargreiðslur fyrir störf og allar aukagreiðslur eftir kynjum. Fyrirtæki / stofnun skal hafa kynnt niðurstöður launagreiningar hvað varðar kynbundinn launamun fyrir starfsfólki sínu og tryggja að niðurstöðurnar séu aðgengilegar starfsfólki. Hér þarf þó að taka tillit til persónuverndarsjónarmiða. Þá skal leggja fram áætlun til úrbóta í þeim tilfellum sem það á við. Að lokum skal samantekt æðsta stjórnanda um niðurstöður ofangreindra gagna fylgja umsókn um jafnlaunastaðfestingu.

Jafnlaunastaðfesting 

Staðfesting Jafnréttisstofu sem veitt er fyrirtæki eða stofnun þar sem 25–49 starfa að jafnaði á ársgrundvelli að undangengnum skilum fyrirtækisins eða stofnunarinnar á gögnum um að jafnlaunakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess uppfylli kröfur 2. mgr. 8. gr.