Jafnlaunastaðfesting

Hvað er jafnlaunastaðfesting?
Jafnlaunastaðfesting er staðfesting Jafnréttisstofu á því að lögð hafi verið fram gögn sem sýna fram á það, með fullnægjandi hætti, að launakerfi fyrirtækisins eða stofnunarinnar og framkvæmd þess mismuni ekki í launum á grundvelli kyns. Reglugerðina um staðfestingarleiðina má finna hér

Fyrirtæki eða stofnanir með 25 til 49 starfsmenn geta valið á milli að fá jafnlaunastaðfestingu eða jafnlaunavottun.

Skila þarf eftirfarandi gögnum til Jafnréttisstofu til að fá jafnlaunastaðfestingu:

Skref 1 (eyðublað 1 í þjónustugátt):

  • Skila þarf jafnréttisáætlun sem Jafnréttisstofa samþykkir - nánar hér

Skref 2 (eyðublað 2 í þjónustugátt):

  • Jafnlaunastefna - stefna fyrirtækis eða stofnunar í jafnlaunamálum
  • Starfaflokkun
  • Launagreining
  • Áætlun til úrbóta þar sem það á við
  • Samantekt æðsta stjórnanda

Jafnréttisstofa metur umsóknargögn með tilliti til þess hvort að þau uppfylli skilyrði laga. Sé niðurstaða Jafnréttisstofu sú að gögnin séu ekki fullnægjandi að einhverju eða öllu leyti er fyrirtækinu gefin kostur á að bæta úr. Telji Jafnréttistofa að gögnin uppfylli skilyrði 8. gr. er fyrirtækinu veitt jafnlaunastaðfesting. Hana skal endurnýja á þriggja ára fresti.

Þá ber að geta þess að þau fyrirtæki sem að hljóta jafnlaunastaðfestingu öðlast ekki heimild til þess að nota jafnlaunamerkið. Einungis fyrirtækjum og stofnunum sem hafa fengið jafnlaunavottun er heimilt að nota jafnlaunamerkið að fenginni heimild frá Jafnréttisstofu.

Þá er einnig vakin athygli á því að hafi fyrirtæki / stofnun ekki öðlast annaðhvort jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu hefur Jafnréttisstofa heimild til þess að beita dagsektum. 

Samkvæmt bráðabirgaðákvæði skulu fyrirtæki þar sem 25-49 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafa öðlast jafnlaunavottun eða jafnlaunastaðfestingu eigi síðar en 31. desember 2022.