Jafnréttisfræðsla

Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Skyldur samkvæmt 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 eru mjög skýrar.

23. gr. Menntun og skólastarf

  • Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.
  • Kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. 
  • Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu piltar og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.

Skyldur mennta- og menningarmálaráðuneytisins samkvæmt 23. grein jafnréttislaga:

  • Efla skal rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnt fræðilegar grunnrannsóknir sem hagnýtar rannsóknir, og miðla niðurstöðum þeirra markvisst innan skólastarfsins og til fjölmiðla.
  • Það ráðuneyti er fer með fræðslumál skal fylgjast með að jafnréttis kynjanna sé gætt í skóla- og uppeldisstarfi sem og í íþrótta- og tómstundastarfi. Enn fremur skal það ráðuneyti er fer með fræðslumál fylgjast með þróun jafnréttismála á þessum sviðum samfélagsins.
  • Jafnréttisráðgjafi skal starfa innan þess ráðuneytis er fer með fræðslumál og skal hann fylgja eftir ákvæðum þessarar greinar og veita viðkomandi aðilum ráðgjöf í jafnréttismálum, m.a. um sértækar aðgerðir til að stuðla að jafnrétti kynjanna.

Skyldur skólastjórnenda samkvæmt 22. grein jafnréttislaga:

22. gr. Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni

  • Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
  • Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.