Ferli innleiðingar

Hér gefur að líta ferli sem hægt er að fylgja við innleiðingu jafnlaunastaðalsins.

Áður en ákvörðun er tekin um að innleiða jafnlaunastaðalinn er hægt að kynna sér staðalinn betur, umfang og forsendur innleiðingar á kynningarnámskeiði sem haldið er reglulega hjá fræðslusetrinu Starfsmennt.

Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að innleiða staðalinn þarf að setja upp verkáætlun, gera stöðumat (þ.e. fara yfir það hverjir af þeim þáttum sem gerðar eru kröfur um í staðlinum séu til staðar og hvaða umbætur þurfi að eiga sér stað m.t.t. krafna staðalsins). Hér er m.a. átt við það hvort jafnlaunastefna sé til og hvort hún hafi verið kynnt fyrir starfsfólki og sé aðgengileg þeim, hvort allar ákvarðanir um laun og kjör séu skjalfestar, rökstuddar og rekjanlegar, hvort verklagsreglur fyrir launaákvarðanir séu til og skráðar og hvort hlutverk, ábyrgð og völd séu skilgreind. Hægt er að kynna sér betur þætti stöðumats í tékklista í verkfærakistunni.

Því næst er að framkvæma verkáætlunina og er stærsti þáttur hennar oftast að framkvæma starfaflokkun. Einnig þarf að framkvæma launagreiningu byggða á starfaflokkuninni og huga að skjölun verklagsreglna.

Að lokum er rétt að gera nokkurs konar innri úttekt eða forúttekt til að athuga hvort vinnustaður telji sig uppfylla kröfur staðalsins.

Ef vinnustaður telur sig uppfylla kröfur staðalsins getur hann:

  1. lýst því yfir að kröfum staðalsins sé fullnægt
  2. fengið fulltrúa hagsmunaaðila (s.s. stéttarfélaga) til að koma og taka út jafnlaunakerfið og staðfesta að það uppfylli kröfur staðalsins
  3. fengið vottun frá faggiltri vottunarstofu um að kröfum staðalsins sé fullnægt. Þeir vinnustaðir sem fá vottun af faggiltri vottunarstofu fá að prýða sig Jafnlaunamerkinu.