Hvað er kynjasamþætting?

Samkvæmt 30. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 skal samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana sem starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt. Hér er því ekki einungis horft til kyns og kynjasamþættingar heldur skal einnig gæta að samþættingu jafnréttissjónarmiða almennt.

Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða eða kynjasamþætting er aðferð sem beitt er við innleiðingu jafnréttissjónarmiða inn í almenna starfsemi stofnunar eða fyrirtækis. Hugtakið er skilgreint í 2. grein sömu laga. Þar segir um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða: „Þegar stefnumótunarferli er skipulagt, bætt, þróað og lagt á það mat þannig að sjónarhorn jafnréttis kynja sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir þeirra sem alla jafna taka þátt í stefnumótun í samfélaginu.“ Kynjasamþætting er því aðferð sem notuð er til að ná fram jafnrétti í daglegu starfi sem snertir starfsemina sjálfa, viðskiptavini, skjólstæðinga, umbjóðendur eða annað fólk.

Aðferðin gengur út á að sjónarmið beggja kynja séu til staðar þegar ákvarðanir eru teknar, til dæmis þegar gera á breytingar á starfsemi eða uppbyggingu nýrrar starfsemi. Markmiðið er að tryggja að þarfir allra kynja séu uppfylltar og að á engan halli. Með því að nota aðferðir kynjasamþættingar má tryggja að stefna og starfsemi mismuni ekki eftir kyni heldur stuðli að frekari uppbyggingu og auknu jafnrétti kynja. Aðferðin getur nýst við fjölbreyttar aðstæður og er auðvelt að aðlaga að ólíkum verkefnum. Í ljós hefur komið að kynjasamþætting getur haft jákvæð áhrif á rekstur og þjónustu og er gott gæðastjórnunartæki. Hér má sjá einfalt dæmi um aðferð til kynjasamþættingar

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð hjá ríkinu og kynjuð fjárhagsáætlanagerð hjá sveitarfélögum eru tegund af kynjasamþættingu þar sem ráðstöfun fjármagns er sérstaklega skoðað. Kynjuð fjárlagagerð hefur nú verið leidd í lög með nýjum lögum um opinber fjármál nr. 123/2015 en í 18. gr. segir að fjármálaráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hefur forustu um að gerð verði áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skal til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Í frumvarpi til fjárlaga skal gerð grein fyrir áhrifum þess á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.