4H aðferðin

Hægt er að beita mörgum ólíkum aðferðum við innleiðingu kynjasamþættingar. Kjarninn í þeim öllum er þó hinn sami þ.e. að varpa ljósi á stöðu kynjanna og jafnréttismála innan þeirrar starfsemi sem verið er að skoða. 4H – aðferðin er gott dæmi um einfalda leið sem gott getur verið að byrja á ef skoða á starfsemi sem þegar er til staðar.

4H – aðferðin:
Aðferðin byggir á að skoða hver fær hvað á hvaða forsendum? Auk þess að spyrja hvernig við getum bætt stöðuna?

H1: Hver?
Ákveðin starfsemi eða hópur er valinn til að skoða með tilliti til þess hverjir njóta þjónustu og hverjir taka ákvarðanir varðandi hana. Hér þarf að finna til töluleg gögn um fjölda og hlutfall kynja í markhóp, í hópi stjórnenda auk annarra þátta. Ef skoða á styrkveitingar þarf að skoða fjölda og hlutfall umsækjenda, þeirra sem hljóta styrk, þeirra sem vinna úr umsóknum auk þess hóps sem hafa rétt á að sækja um styrkinn.

H2: Hvað?
Á þessu stigi er kortlagt hvaða gæði og úrræði eru í boði fyrir konur og karla. Ef við erum að skoða styrkveitingu þarf að skoða heildar- og meðalupphæð til kvenna og karla. Í öðrum tilfellum gæti skipt máli að skoða tíma, rými eða aðgang að upplýsingum.

H3: Á hvaða forsendum? (Hvers vegna?)
Upplýsingarnar sem nú liggja fyrir eru skoðaðar og eftirfarandi spurningum svarað:
• Hvaða kynjamynstur sjáum við?
• Er gæðunum / úrræðunum skipt jafnt milli kvenna og karla?
• Eru málefnilegar skýringar á því kynjamynstri sem kemur í ljós eða er þörf á viðbrögðum?

H4: Hvernig?
Hvernig á að bregðast við ef misrétti kemur í ljós. Hér þarf að setja sér markmið og ákveða aðgerðir. Í framhaldinu þarf að tryggja að aðgerðirnar leiði til þeirra breytinga sem til var ætlast og viðhalda þeim svo við föllum ekki aftur í sama farið.

Aðrar aðferðir til að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið inn í starfsemi fyrirtækja og stofnanna má finna í bókinni Jöfnum leikinn: Handbók um kynjasamþættingu. I bókinni er fjallað um hvernig innleiða má samþættingu inn í starfsemi með tækjum verkefnastjórnunnar auk þess sem fleiri aðferðir við að rýna í einstaka verkefni, stefnu eða aðrar ákvarðanir með jafnrétti kynja að leiðarljósi eru kynntar.