Hvað er kynbundinn launamunur? Af

Hvað er kynbundinn launamunur? Af hverju eru konur með lægri laun en karlar?

Margvíslegar skýringar geta verið á launamun kynjanna og fer nokkuð eftir því við hvað er miðað. Karlar vinna almennt lengri vinnudag en konur, sem er hluti skýringarinnar. Þeir eru líka frekar í störfum sem meira eru metin til launa í samfélaginu. Þetta tvennt skýrir að hluta til almennan launamun kynjanna.

Í könnunum á kynbundnum launamun er tekið tillit til þessara þátta og einnig er yfirleitt tekið tillit til þátta eins og menntunar, aldurs og starfsaldurs. Þegar tekið hefur verið tillit til þessa í rannsóknum innan fyrirtækja og stofnana, stendur oftast eftir launamunur á bilinu 7-18% sem ekki verður skýrður á annan hátt en þann að kyn ráði. Sá munur eru kallaður óútskýrður eða kynbundinn launamunur.

Þessi munur kemur fyrst og fremst fram í fríðindum, sporslum og óunninni yfirvinnu sem karlar hljóta í mun ríkari mæli en konur. Að öllum líkindum skiptir hér miklu máli mismunandi staða kynjanna gagnvart heimili og fjölskyldulífi. Með réttu eða röngu er það mat margra atvinnurekenda og stjórnenda að konur séu óáreiðanlegra vinnuafl því þær þurfi mun frekar en karlar að sinna börnum og heimili, séu því frekar fjarverandi og geti síður unnið yfirvinnu. Á síðustu árum hefur heldur dregið saman með kynjunum hvað atvinnutekjur varðar en kynbundinn launamunur er þó viðvarandi samkvæmt könnunum.

Sjá nánar svar Vísindavefs Háskóla Íslands við spurningunni: Hver er mismunur á launum kynjanna?