Eftirlit og ráðgjöf

Jafnréttisstofa hóf starfsemi í september árið 2000. Stofnunin annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna nr. 85/2018 og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitnd, kyneinkennum eða kyntjáningu nr. 86/2018.

Jafnréttisstofa heyrir undir yfirstjórn forsætisráðherra.

Hlutverk Jafnréttisstofu er skilgreint í 4. grein jafnréttislaganna en þar kemur fram að verkefni sem Jafnréttisstofa annast eru m.a. að:  

 1. hafa eftirlit með framkvæmd laganna,
 2. sjá um fræðslu og upplýsingastarfsemi,
 3. veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna, 
 4. koma á framfæri við ráðherra, Jafnréttisráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna, 
 5. koma með tillögur að sértækum aðgerðum, 
 6. auka virkni í jafnréttismálum, m.a. með aukinni aðild karla að jafnréttisstarfi, 
 7. fylgjast með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu, m.a. með upplýsingaöflun og rannsóknum, 
 8. veita jafnréttisnefndum, jafnréttisráðgjöfum og jafnréttisfulltrúum sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja aðstoð,
 9. vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum sérstaklega, 
 10. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði,
 11. leita sátta í ágreiningsmálum sem Jafnréttisstofu berast og varða ákvæði laga þessara,
 12. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla,
 13. vinna önnur verkefni í samræmi við markmið laganna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.