Byggjum brýr Brjótum múra - Samvinna í heimilisofbeldismálum

Jafnréttisstofa stýrir Byggjum brýr Brjótum múra sem er 30 mánaða verkefni til að bæta samvinnu í heimilisofbeldismálum og auka vitund almennings um heimilisofbeldi.

Evrópusambandið styrkir verkefnið og er það unnið í samstarfi við dómsmálaráðuneyti, Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Lögregluna á Norðurlandi eystra, Ríkislögreglustjóra, velferðarráðuneyti og sveitarfélögin Akureyri og Reykjavík. Fulltrúar þessara aðila mynda stýrihóp verkefnisins.

Samvinna í heimilisofbeldismálum byggir á verklagi sem dregur nafn sitt af verkefni sem byrjaði á Suðurnesjum 2012 og heitir „Að halda glugganum opnum“. Verklagið hefur virkað svo vel að Ríkislögreglustjóri innleiddi það um allt land.

Af hverju virkar „Að halda glugganum opnum“?
Verklagið gengur út á að samhæfa og skýra reglur varðandi skráningu heimilisofbeldismála, en til grundvallar verklaginu er samvinna í heimilisofbeldismálum. Á Suðurnesjum eru það lögregla, félagsþjónusta og barnavernd sveitarfélaga og heilbrigðisstofnun svæðisins sem hafa sett á reglubundna fundi þar sem farið er yfir vinnslu heimilisofbeldismála sem upp koma á svæðinu. Í sameiningu eru lausnir fundnar til að veita þolendum og gerendum aðstoð og á þeim vandamálum sem upp koma.

Ef litið er til síðustu 10 ára má sjá mikinn mun á tilkynningum mála til lögreglu fyrir og eftir innleiðingu verklagsins 2014. 2007-2014: 26 mál að meðaltali á mánuði og 2015-2017: 69 mál að meðaltali á mánuði.

Vitundarvakning og upplýsingaefni
Auk þess að vinna að samvinnu í heimilisofbeldismálum um allt land verða einnig endurútgefin upplýsingarit um heimilisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum. Efnið verður gert enn aðgengilegra og þýtt á fleiri tungumál en áður. Staðið verður fyrir vitundarvakningu meðal almennings um heimilisofbeldi með það að markmiði að draga ofbeldið upp úr þögninni. Einnig verða haldnar þrjár ráðstefnur. Sú næsta verður haldin 18. október 2018 á hótel Natura.

Í verkefninu er sérstök áhersla á þau sem eru í meiri áhættu að verða fyrir heimilisofbeldi. Það eru konur af erlendum uppruna, fatlaðar konur og barnshafandi einstaklingar.

 

Nánari upplýsingar er að finna að vefsíðu verkefnisins.

Einnig má fylgjast með verkefninu á Facebook-síðu verkefnisins.