1979 & 1995: Tímamót í réttindabaráttu kvenna

Sigríður Lillý Baldursdóttir og Brynhildur Flóvenz ræða um tvö af stærri tímamótum í réttindabaráttu kvenna: Kvennaráðstefnuna í Peking 1995 og Kvennasáttmála Sameinuðu Þjóðanna á Unifem umræðum laugardaginn 6. febrúar kl. 13:00 í húsnæði Miðstöðvar Sameinuðu þjóðanna að Laugarvegi 42. Fundurinn stendur í klukkutíma, aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.PEKING 1995
Flestir þekkja til Kyoto bókunarinnar en fyrir konum og feministum er Peking aðgerðaráætlunin ein sú merkasta sem tuttugasta öldin gaf af sér. Í dag eru liðin 15 ár frá því að konur heimsinsins hittust í Peking og lögðu línurnar að jafnari heimi. Hvað hefur áunnist? Hvernig var andrúmsloftið á þessum sögulega fundi? Sigríður Lillý mun ræða aðdraganda ráðstefnunnar, vinnu og fjölþjóðlega samvinnu í Peking 1995.

Sigríður Lillý Baldursdóttir, eðlisfræðingur og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, var formaður undirbúningsnefndar stjórnvalda vegna ráðstefnunnar í Peking 1995 og fór fyrir sendinefndinni.

KVENNASÁTTMÁLINN 1979
Til þess að fólk geti beitt sér í þágu jafnréttis er brýnt að það kunni skil á mannréttindum. Þekking á ákvæðum Kvennasáttmálans er mikilvæg í þessu sambandi og ein forsenda mannvæns samfélags.

Kvennasáttmálinn tekur til flestra þátta daglegs lífs, en með aðild að honum skuldbinda stjórnvöld sig til að efla stefnu, lög og stofnanir jafnt sem viðhorf sem tryggja jafnrétti kynjanna. Í sáttmálanum er einnig kveðið á um aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum á öllum sviðum mannlífs.

Brynhildur G. Flóvenz er dósent við lagadeild Háskóla Íslands og fræðir okkur um kvennasáttmálann og gildi hans fyrir bæði íslenskar konur og systur þeirra um allan heim.

Tryggjum að allar dætur, mæður, systur, ömmur og vinkonur njóti fullra réttinda.
Mannréttindi eiga upptök sín í hug og hjarta hverrar manneskju, í okkar nánasta umhverfi. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að halda jafnrétti í heiðri á heimilinu, í skólanum, á vinnustaðnum; hafi mannréttindi ekki merkingu á þessum stöðum, þá hafa þau litla merkingu annars staðar.

Nánari upplýsingar veitir: Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi. 552 6200 / 690 3565 / steinunn (hjá) unifem.is

UNIFEM á Íslandi er ein af 17 landsnefndum UNIFEM, Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna. Landsnefndirnar eru frjáls félagasamtök sem styðja við starf sjóðsins. Markmið UNIFEM á Íslandi er að kynna og auka áhuga landsmanna á UNIFEM og afla fjár til verkefna UNIFEM bæði frá hinu opinbera, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess að vera málsvari kvenna í þróunarlöndum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti friðar og framfara. Heimasíða UNIFEM á ísalndi.