8. MARS ALÞJÓÐLEGUR BARÁTTUDAGUR KVENNA

Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna og af því tilefni er boðið upp á spennandi viðburði bæði á Akureyri og í Reykjavík. Jafnréttisstofa hvetur alla til að kynna sér og taka þátt í viðburðum dagsins. Uppeldi barna í anda jafnréttis verður rætt á Akureyri, Örugg í vinnunni? er á dagskrá á Grand Hótel, Konur í stéttastríði í Iðnó, opið hún hjá Stígamótum og fyrirlestur um stöðu kvenna innan ASÍ á Þjóðminjasafninu. 
Á Akureyri:

Uppeldi barna í anda jafnréttis
Zontaklúbbarnir á Akureyri og Jafnréttisstofa  fyrir hádegisfundi í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Fundurinn sem ber yfirskriftina Uppeldi barna í anda jafnréttis hefst með léttum veitingum kl: 11:30. Fyrirlesarar eru Brynhildur Þórarinsdóttir móðir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri og Jón Páll Eyjólfsson faðir og leikhússtjóri Menningarfélags Akureyrar. Brynhildur kallar erindi sitt Þegar Messi fór að spila í prinsessubleiku  - Hugleiðing um fyrirmyndir og staðalmyndir en Jón Páll nefnir sitt erindi Svarthöfði sigraður? Fundarstjóri verður Katrín Björg Ríkarðsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra. 

Í Reykjavík:


Örugg í vinnunni?
Kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi á vinnustöðum
Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð efna til hádegisverðarfundar þriðjudaginn 8. mars 2016 þar sem fjallað verður um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Erindin verða eftirfarandi: Kynbundin og kynferðisleg áreitni á vinnustað - Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB. Kynbundið vald og vinnumarkaðurinn - Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. Er kynferðisleg áreitni óhjákvæmileg? - Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Fundurinn fer fram í fundarsalnum Hvammur, Grand Hótel Reykjavík kl. 11.45 til 13.00. 

Fyrirlestur um stöðu kvenna innan ASÍ
Klukkan 12 mun Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur flytja fyrirlestur á vegum Þjóðminjasafnsins í sal safnsins við Suðurgötu. Erindið tengist  sýningunni Vinnandi fólk - ASÍ 100 ára sem opnuð var í Myndasal Þjóðminjasafnsins sl. laugardag.
Sumarliði mun fjalla sérstaklega um stöðu kvenna innan ASÍ. Allir velkomnir!


Konur í stéttastríði
Í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna fyrir friði og jafnrétti verður efnt til baráttufundar í Iðnó kl. 17-18. Fundurinn ber yfirskriftina Konur í stéttastríði.
Til máls taka Sólveig Anna Jónsdóttir, Christina Milcher og Jónína Björg Magnúsdóttir. Guðrún Hannesdóttir les upp ljóð og Ásdís María Viðarsdóttir tekur lagið og stýrir fjöldasöng. Fundarstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.
Að fundinum standa BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvenréttindafélag Íslands, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, Samtök hernaðarandstæðinga, SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu, Stígamót, STRV – starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, W.O.M.E.N. – Félag kvenna af erlendum uppruna og Öryrkjabandalag Íslands.

Opið hús hjá Stígamótum
Stígamót halda upp á 26 ára afmæli sitt kl. 16-18, með opnu húsi. Boðið verður upp á vöfflur og heitt súkkulaði. Farið verður yfir starfsemi síðastliðins árs og kynntar nýjar tölur úr ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2015. Stígamót eru til húsa við Laugaveg 170, 2. hæð.