Að mennta til mannréttinda

Kynning á jafnréttisverkefnum nemenda í Lundarskóla fer fram á Félagsvísindatorgi í Háskólanum á Akureyri þann 27. apríl kl. 12 í stofu M-101Undanfarið ár hafa þær Helga Ragnheiður Gunnlaugsdóttir og Kristín Irene Valdimarsdóttir kennarar við Lundarskóla á Akureyri tekið þátt í verkefni á vegum Evrópuráðsins. Heiti verkefnisins er „Að mennta til mannréttinda framtíðarþegn Evrópu“. Þátttakendur í verkefninu komu frá átta Evrópulöndum, Frakklandi, Hollandi, Finnlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Póllandi, Finnlandi og Rúmeníu . Verkefnið fólst í þátttöku í vinnustofum þar sem kennarar fengu fræðslu um mannréttindakennslu, skiptust á hugmyndum og kynntu að lokum verkefnin sín.

Íslensku, finnsku og þýsku kennararnir ákváðu að vinna verkefni um jafnrétti kynjanna og kynntu sín verkefni á uppskeruhátíð í Strassborg dagana 19.-21. mars síðastliðinn. Með Kristínu Irene og Helgu Ragnheiði fóru 2 nemendur, Fannar Már Jóhannsson í 7. bekk og Bára Alexandersdóttir í 8. bekk sem kynntu verkefni og niðurstöður nemenda á ensku.

Jafnréttisverkefni nemenda í Lundarskóla voru mjög fjölbreytt og tóku allir nemendur virkan þátt í náminu. Helga Ragnheiður og Kristín Irene hafa áður þróað og unnið jafnréttisfræðsluverkefni með nemendum sínum en þær tóku þátt í þróunarverkefninu „Jafnrétti í leik- og grunnskólum“ á síðasta ári en upplýsingar um það verkefni er að finna á heimasíðu verkefnisins: www.jafnrettiiskolum.is