Aðgerðaráætlun Reykjavíkur gegn ofbeldi

Drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum er nú til kynningar innan borgarinnar. Verið er að gefa starfsfólki tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur að úrbótum til að fyrirbyggja ofbeldi. Þetta er fyrsta áætlun sveitarfélags gegn ofbeldi sem nær bæði til kynbundins ofbeldis og ofbeldis gegn börnum. Akureyrarbær hefur þegar kynnt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldis gegn börnum. Reykjavíkurborg hefur einsett sér að vinna gegn kynbundnu ofbeldi; andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Þetta kemur fram í mannréttindastefnu borgarinnar og í Evrópusáttmála um jafna stöðu kvenna og karla sem Reykjavíkurborg er aðili að. Aðgerðaráætlunin miðar að því að nýta sem best þær leiðir sem borgarstarfsmenn hafa til að fyrirbyggja ofbeldi og styðja við þolendur ofbeldis. Áætlunin leggur áherslu á samstarf borgarstofnana og samstarf við ríkið og félaga- og grasrótarsamtök sem vinna gegn ofbeldi. 
Einn liður í þessu átaki er vefsíða sem þegar er komin í gagnið www.reykjavík.is/gegnofbeldi. Þar eru upplýsingar um hvar þolendur ofbeldis geta leitað sér aðstoðar. Upplýsingarnar eru á íslensku, ensku, pólsku og á auðlesnu máli.

Í starfshópi sem gerði áætlunina áttu sæti fulltrúar þeirra fagsviða borgarinnar sem vinna með fórnarlömb ofbeldis og með börnum og ungmennum. Hópurinn leitaði til fræðimanna og grasrótarsamtaka sem hafa í gegnum tíðina unnið ómetanlegt starf til að brjóta niður þann þagnarmúr sem ríkt hefur um ofbeldi á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum, á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar í síma: 772 5323

Hér má lesa drög að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum.