Áhugaverðar greinar og umræða

Jafnréttisstofa hefur tekið í notkun nýtt greinarkerfi fyrir heimasíðu stofunnar, þar sem birtar verða vikulegar greinar tengdar jafnréttismálum. Greinarnar verða bæði skrifaðar af starfsmönnum stofunnar og gestapennum. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, skrifaði fyrstu greinina um jafnrétti í skólum. Grein vikunnar er hins vegar eftir Jóhannes Sigurjónsson, ritstjóra héraðsfréttablaðsins Skarps á Húsavík, og nefnist hún: Er fyndið að nauðga karlmönnum?Grein Jóhannesar fjallar um hluta af dægurmenningu Íslendinga, nánar tiltekið sjónvarpsþáttinn Dagvaktina, þar sem m.a. er hent gaman að samskiptum kynjanna. Jóhannes telur að þarna sé verið að gera grín að kynferðislegri misnotkun og nauðgunum, sem þætti ekki fyndið ef kona ætti í hlut.

Jafnframt því að taka upp greinakerfi hefur Jafnréttisstofa bætt við liðnum "Spurt og svarað" á forsíðu heimasíðunnar. Þar eru birtar algengar spurningar um jafnréttismál og svör Jafnréttisstofu við þeim. Hægt er að hafa samband við Jafnréttisstofu í gegnum tölvupóst, í síma eða í gegnum hlekkinn "hafa samband" á forsíðunni. Ætlunin er að reglulega verði settar inn nýjar spurninga og ný svör á síðuna.

Sjá greinarnar