Akureyrarbær og lögreglan á Norðurlandi eystra vinna gegn heimilisofbeldi

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri Norðurlands eystra, undirrituðu í dag, samstarfsyfirlýsingu um átak gegn heimilisofbeldi. Í yfirlýsingunni felst að þann 1. mars n.k. mun lögreglan og félagsþjónustan á Akureyri taka upp nýjar verklagsreglur í starfsemi sinni. Markmiðin eru markvissari viðbrögð og úrræði gegn heimilisofbeldi og bætt þjónustu við þolendur og gerendur. 
Fyrirmyndin er verkefnið Að halda glugganum opnum. Verkefnið, sem er samstarfsverkefni lögreglu og félagsþjónustu á Suðurnesjum, miðar að því að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi og koma fleiri málum í gegnum refsivörslukerfið. Markmiðið er að fyrstu viðbrögð lögreglu verði markvissari, úrræði eins og nálgunarbann og brottvísun af heimili verði betur nýtt og þolendur og gerendur fái betri stuðning.

Árangur Suðurnesjaverkefnisins hefur mælst m.a. í því að a) fleiri heimilisofbeldismál af Suðurnesjunum fá nú framgang innan réttavörslukerfisins, b) færri konur af Suðurnesjum koma í Kvennaathvarfið og  c) fleiri karlar af Suðurnesjum sækja sér aðstoð í gegnum meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar.

Í byrjun desember stóð Jafnréttisstofa, í samstarfi við Samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis, fyrir námskeiði um forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Tilgangur námskeiðsins var að miðla þekkingu sem skapast hefur á Suðurnesjum í tengslum við verkefnið. Samskonar námskeið verða haldin víðar um land og næsta námskeið verður haldið á Eskifirði nú í byrjun mars.