Akureyrarbær veitir jafnréttisviðurkenningar

Mynd: María Tryggvadóttir
Mynd: María Tryggvadóttir

Á Vorkomu stjórnar Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta var tilkynnt um jafnréttisviðurkenningar Akureyrarbæjar, auk fleiri viðurkenninga, en árlega veitir bærinn viðurkenningu þeirri stofnun, fyrirtæki, nefnd eða ráði Akureyrarbæjar, einstaklingi eða félagi sem hefur að mati frístundaráðs bæjarins staðið sig best við framgang jafnréttismála á Akureyri, að undangenginni auglýsingu eftir tilnefningum.

Við athöfnina veitti forseti bæjarstjórnar, Halla Björk Reynisdóttir, fjórar jafnréttisviðurkenningar fyrir framlag til jafnréttismála á Akureyri. Viðurkenningarnar hlutu Akureyrarakademían, Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna og Valgerður H. Bjarnadóttir.

Þetta kemur fram í frétt frá Akureyrarbæ.

Akureyrarakademían hlaut viðurkenningu fyrir námskeiðið Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál sem haldið var á Akureyri í fyrra. Markmið þess var fyrst og fremst að auka hlut kvenna í bæjarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí 2018. Ásamt Akureyrarakademíunni komu Jafnréttisstofa og JCI Sproti að fræðslunni.