Alcoa Fjarðaál hlaut jafnréttisviðurkenningu

Alcoa Fjarðaál hlaut í dag árlega viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir störf sín í á sviði jafnréttismála. Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, afhenti verðlaunin. Í ávarpi sem hún flutti við þetta tækifæri sagði hún meðal annars að árangurinn af jafnréttisstefnu fyrirtækisins væri sá að 28% af 450 starfsmönnum væru konur, 34% í framleiðslustörfum og 27% í framkvæmdastjórn. „Þetta er besti árangur í jafnréttismálum sem náðst hefur innan Alcoa samsteypunnar og líkur á að um heimsmet í áliðnaðinum sé að ræða.“Í greinargerð Jafnréttisráðs vegna viðurkenningarinnar segir að Alcoa Fjarðaál vinni eftir nýrri jafnréttisáætlun, sem tekur mið af nýsamþykktum jafnréttislögum. Með henni fylgi metnaðarfull framkvæmdaáætlun sem leggur áherslu á áframhaldandi jöfnun kynjahlutfalls starfsmanna á öllum sviðum, áætlun um að tryggja launajafnrétti og samræmingu atvinnu og fjölskyldulífs. Athygli vekja áætlanir um að hvetja og styrkja konur til iðnmenntunar og áhersla á að bæði kynin noti rétt sinn til fæðingarorlofs og veikindadaga barna.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi, tók við verðlaununum úr hendi ráðherra, postulínsstyttu eftir Guðrúnu Indriðadóttur sem ber heitið Snúum bökum saman. Greinargerð Jafnréttisráðs um viðurkenninguna má sjá hér.