Aldarfjórðungur liðinn frá stofnun Kvennalistans

Í dag eru liðin 25 ár frá því að Samtök um kvennalista voru formlega stofnuð. Kvennalistinn bauð fram í þremur kjördæmum í Alþingiskosningum vorið 1983 og fékk 5,5% atkvæða og þrjár konur kjörnar á þing. Í þeim kosningum jókst hlutur kvenna á þingi svo um munaði og þingkonum fjölgaði úr þremur í níu.
Forverar Kvennalistans voru kvennaframboðin, sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningum á Akureyri og í Reykjavík vorið 1982. Í Reykjavík fór hlutur kvenna í borgarstjórn úr 20% í rúm 38% í þeim kosningum og á landsvísu tvöfaldaðist fjöldi kvenna í sveitarstjórnum.

Samtök um kvennalista buðu aftur fram í þingkosningum árið 1987 og fengu þá yfir 10% fylgi og sex konur kjörnar á þing. Fjórum árum síðar urðu þingkonur samtakanna fimm. Kvennalistinn tók síðast þátt í Alþingiskosningum árið 1995 og fékk þrjár konur kjörnar á þing. Þá voru konur orðnar 16 af 63 þingmönnum, eða rúmur fjórðungur.