Alþjóðleg afmælisráðstefna RIKK – Ráðstefnukall

Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) boðar til alþjóðlegrar ráðstefnu dagana 4.–5. nóvember 2011 í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar og 100 ára afmælis Háskóla Íslands. Kallað er eftir tillögum að málstofum og fyrirlestrum á öllum fræða- og rannsóknarsviðum.

Afmælisráðstefnan er fimmta yfirlitsráðstefnan um kvenna- og kynjarannsóknir sem hefur verið haldin við Háskóla Íslands. Áhugahópur um íslenskar kvennarannsóknir skipulagði fyrstu ráðstefnuna árið 1985, en hann stóð einnig að stofnun Rannsóknastofu í kvennafræðum (nú RIKK) árið 1991.

Í tilefni aldarafmælisins verða í öndvegi málstofur helgaðar því að 100 ár eru liðin síðan lög voru sett um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta og svo um framlag kvenna til stofnunar Háskóla Íslands. Á ráðstefnunni verður einnig sérstök áhersla lögð á umhverfismál. Á meðal erlendra gesta verða Joni Seager, prófessor í hnattrænum fræðum við Bentley-háskóla í Bandaríkjunum sem mun halda lykilfyrirlestur um loftslags- og umhverfismál; Cynthia Enloe, rannsóknaprófessor í alþjóðastjórnmálum við Clark-háskóla í Bandaríkjunum sem mun flytja fyrirlestur um kynjuð öryggismál; og þátttakendur í norrænu netverki um kyngervi, líkama og heilsu (e. Gender, Body, Health).

Hér með er kallað eftir tillögum að málstofum og fyrirlestrum á öllum fræða- og rannsóknasviðum. Eftirfarandi tillögur að málstofum eru þegar komnar fram: Þáttur kvenna í stofnun Háskóla Íslands og aldarafmæli laga um rétt kvenna til embættisnáms, námsstyrks og embætta; Umhverfi, sjálfbærni og loftslagsbreytingar; Alþjóðastjórnmál, öryggi og ófriður; Landafræði hreyfanleika og einangrunar Ísland, Evrópa og fjölmenning; Menntun og störf; Kreppa, uppgjör og uppbygging; Heilsa og líkami. Ráðstefnan er þverfagleg og margar málstofanna verða þverfræðilegar. Athugið að velkomið er að senda inn tillögur um bæði skyld efni og önnur efni.

Útdráttum skal skila ekki síðar en 15. ágúst 2011. Vinsamlega sendið útdrætti á rikk@hi.is. Sjá frekari upplýsingar á www.rikk.hi.is.

Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sitja: Annadís G. Rúdólfsdóttir, námsstjóri Alþjóðlegs jafnréttisskóla við Háskóla Íslands og doktor í félagssálfræði, Anna Karlsdóttir, lektor í landafræði og ferðamálafræði, Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor í menntunarfræðum, Irma Erlingsdóttir forstöðumaður RIKK og framkvæmdastjóri EDDU - öndvegisseturs, og Kristín Björnsdóttir prófessor í hjúkrunarfræði. Hildur Fjóla Antonsdóttir, verkefnisstóri hjá RIKK, stýrir undirbúningi ráðstefnunnar. Á meðal samstarfsaðila við skipulagningu ráðstefnunnar eru Jafnréttisstofa, Kvennasögusafnið, Stofnun Sæmundar fróða, Alþjóðamálastofnun, EDDA - öndvegissetur og Alþjóðlegur jafnréttisskóli við Háskóla Íslands.