Alþjóðleg ráðstefna um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi

Utanríkisráðuneytið í samvinnu við Háskóla Íslands stendur fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi dagana 19.-20. júní 2009.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er einn mikilvægasti hluti ályktunarinnar, þ.e. hvernig tryggja megi að konur taki með beinum hætti þátt í formlegum og óformlegum friðarferlum, þ.á.m. friðarumleitunum, friðarsamningum og friðaruppbyggingu. Á ráðstefnunni verður kannað hvaða leiðir eru færar fyrir stjórnvöld, alþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök til að efla þátttöku og eignarhald kvenna á friðarferlum.
Tíu frummælendur með mikla þekkingu á ályktun öryggisráðsins nr. 1325 og umfangsmikla reynslu af friðarferlum á átakasvæðum munu segja frá reynslu sinni og hugmyndum um hvernig megi bæta framkvæmd ályktunarinnar. Að loknum framsögum verða pallborðsumræður og málstofur með þátttöku frummælenda.

Ráðstefnan er öllum opin að kostnaðarlausu og fer fram á ensku. Tekið er á móti skráningum á vefslóðinni www.1325.is þar sem einnig er að finna frekari upplýsingar um ráðstefnuna.