Ályktanir landsfundar jafnréttisnefnda sveitarfélaga

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaganna var haldinn á Akureyri dagana 10.-11. september. Þátttaka á fundinum var góð en fulltrúar frá 17 sveitarfélögum tóku þátt í dagskránni. Fundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir.
Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 10.-11. september 2010 lýsir yfir ánægju sinni með nýtt námsefni í kynjafræði fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla sem hefur verið unnið og gefið út á síðustu 2 árum og hvetur stjórnendur allra skóla í landinu til að nýta það við kennslu í skólunum. Jafnframt skorar landsfundurinn á mennta- og menningarmálaráðuneytið að auka áherslu á kennslu í kynjafræðum í kennaranámi og gera það að skyldufagi.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 10.-11. september 2010 skorar á sveitarfélög að taka afgerandi afstöðu gegn kynbundnu ofbeldi, m.a. með því að auka fræðslu til að uppræta það og tryggja að karlar jafnt sem konur taki þátt í umræðunni. Jafnframt óskar landsfundurinn eftir aukinni samvinnu milli sveitarfélaganna og (tilvonandi) velferðarráðuneytis um þessi mál.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 10.-11. september 2010 bendir á að jafnrétti er hagsmunamál allrar fjölskyldunnar og jafnréttismál eru ekki síður réttlætismál fyrir karla en konur m.a. til að vinna gegn staðalímyndum kynjanna í samfélaginu. Landsfundurinn bendir sveitarfélögum á að þau geta farið fram á kyngreindar upplýsingar frá félögum áður en styrkir eru greiddir til þeirra.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 10.-11. september 2010 harmar hversu mikill munur er enn á launum karla og kvenna fyrir sambærileg störf og hvað karlar hjá mörgum sveitarfélögum eiga auðveldara en konur með að ná launaaukum inn í fasta samninga og hafa meiri aðgang að yfirvinnu, ekki síst nú þegar reynt er að draga úr henni víðast hvar.

Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga 10.-11. september 2010 bendir á nauðsyn þess að jafnrétti verði virt við val á fulltrúum til setu á stjórnlagaþingi. Einnig að atvinnurekendur verði sveigjanlegir svo fólk hafi tækifæri til að gefa kost á sér til þessara starfa.