Ályktun Jafnréttisráðs um skerðingu fæðingarorlofs

Jafnréttisráð hefur sent frá sér ályktun um þar sem varað er við þeim hugmyndum sem fram hafa komið um skerðingu fæðingarorlofs. Ályktun Jafnréttisráðs:

Jafnréttisráð geldur varhug við þeirri styttingu fæðingarorlofs um einn mánuð sem nú eru uppi áform um. Hún mun bitna á öllum hlutaðeigandi, konum, körlum og – ekki síst – börnum. Mest skerðist þó hlutur einstæðra mæðra – og barna þeirra - í þeim tilfellum þar sem faðir nýtir ekki rétt sinn til fæðingarorlofs.
Þessi áform fela heldur ekki í sér lausn til frambúðar heldur er vandanum aðeins ýtt fram á við um einhver ár. Hætt er við að uppsöfnuð fjárþörf þá skapi ný vandamál og erfiðari en nú er við að glíma. Hver verður lausnin þá?
Ef boðaðar breytingar á frumvarpi um fæðingarorlof ná fram að ganga er það alvarlegt bakslag í jafnréttisbaráttunni sem er illa sæmandi ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og hefur það sem eitt af meginmarkmiðum sínum.
Jafnréttisráð skorar því á ríkisstjórnina að gaumgæfa vel hugsanlegar afleiðingar boðaðs niðurskurðar, því í upphafi skyldi endinn skoða, og leita allra annarra mögulegra leiða til að mæta slæmri stöðu fæðingarorlofssjóðs.

F.h. Jafnréttisráðs,
Þórhildur Þorleifsdóttir
formaður Jafnréttisráðs

Ályktun á pdf