Árlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Á morgun 25. nóvember hefst alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hérlendis með Ljósagöngum og morgunverðarfundi UN Women, fundi og verðlaunaafhendingu Stígamóta og dagskrá í Menntaskólanum á Akureyri

Sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi er nú haldið í áttunda sinn á Íslandi en megið markmið þess er að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hópar og samtök um allan heim hafa nýtt átakið til að vekja athygli á afleiðingum kynbundins ofbeldis og krefjast aðstoðar og stuðnings fyrir brotaþola.

Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991 og er þetta því í 20. skiptið sem átakið er haldið á heimsvísu. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur . Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Í ár er alþjóðlegt þema átaksins kynbundið ofbeldi í stríði og vopnuðum átökum. En jafnframt er sjónum beint að heimilisofbeldi því að aðeins þegar friður er á heimilum næst friður í heiminum. Hér heima höfum við því einbeitt okkur að yfirskrift átaksins „Heimilisfriður – heimsfriður“.

Kynbundið ofbeldi er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis hér á landi sem og annars staðar. Hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins vegna nauðgana og annars ofbeldis af hendi karla. Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og börnum inni á heimilum þeirra sem utan.

Við getum ekki litið framhjá þeim staðreyndum um kynbundið ofbeldi sem blasa við okkur. Með árlegu 16 daga átaki viljum við hvetja til opinnar og hispurslausrar umræðu sem leið til vitundarvakningar meðal almennings og frekari aðgerða í kjölfarið.

Dagskrá átaksins í ár er fjölbreytt og samanstendur af Ljósagöngum, bíósýningum, bókaupplestrum og málstofum. Við hvetjum alla til að kynna sér dagskrána nánar hér 
og á Facebook