Bæklingur um birtingarmyndir heimilisofbeldis

Sveitarfélög á Suðurnesjum hafa gefið út bæklinginn "Býrð þú við ofbeldi?" með upplýsingum um birtingarmyndir heimilisofbeldis og hvar sé hægt að leita sér hjálpar. Gerð bæklingsins er hluti af árverkniverkefni Suðurnesjavaktarinnar sem tengist jafnframt áætlun stjórnvalda um aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum.
Öll sveitarfélög á Suðurnesjum standa saman að árvekniverkefninu gegn heimilisofbeldi sem hófst fyrir tilstilli Suðurnesjavaktarinnar. Verkefnishópur sem í sitja þrír félagsmálastjórar á svæðinu, fulltrúi lögregluembættisins á Suðurnesjum, fulltrúi heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og verkefnisstjóri Suðurnesjavaktarinnar stóðu fyrir málþingi síðastliðið haust fyrir fagfólk sem starfar meðal annars með þolendum og gerendum heimilisofbeldis.

Bæklingurinn er á íslensku, ensku og pólsku og á fyrst og fremst að vekja athygli á heimilisofbeldi og að allir geti orðið fyrir því. Bæklingnum hefur verið dreift í öll hús á Suðurnesjum.

Bæklingurinn: Býrð þú við ofbeldi?