Barna- og fjölskyldustofa birtir ný rafræn námskeið um kynferðisofbeldi gagnvart börnum og ungmennum

Barna- og fjölskyldustofa hefur hannað og framleitt ný rafræn námskeið um kynferðisofbeldi gagnvart börnum sem nú eru aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Námskeiðin, sem ætluð öllum þeim sem koma að starfi með börnum upp að 18 ára aldri, eru afrakstur aðgerða í þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025 (forvarnaráætlun), þar sem megináherslan er lögð á að efla aldursmiðaða kennslu og forvarnir í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar.

Námskeiðin eru fjögur talsins og velja þátttakendur sér námskeið eftir því á hvaða aldursbili þau börn eru sem viðkomandi hefur helst afskipti af gegnum störf sín. Námskeiðin samanstanda af 6 námsþáttum sem byggja á stuttum myndböndum, spurningum til umhugsunar og ítarefni.

Námskeiðin taka á ýmsum þeim atriðum sem mikilvægt er að þeir sem vinna með börnum þekki og séu meðvitaðir um, s.s. möguleg einkenni kynferðisofbeldis, tilkynningaskyldu, hvað þykir eðlileg kynferðisleg hegðun barna á ákveðnum aldri, viðbrögð við óeðlilegri kynhegðun barna, og einkenni sem benda til þess að barn hafi orðið fyrir ofbeldi eða að það vilji segja frá.

Jafnréttisstofa á sæti í stýrihópi forvarnaráætlunar og fagnar birtingu námskeiðanna sem eru lykilþáttur í mörgum aðgerðum hennar auk þess að vera mikilvægt framlag til forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna.

Námskeiðin má finna í skóla Barna- og fjölskyldustofu (BOFS skólanum) á netinu undir nafninu Kynferðisofbeldi og kynferðisleg hegðun barna og unglinga.