Birtingarmyndir ofbeldis – hvað er til ráða?

Í nánast hverri viku falla dómar hér á landi í kynferðisbrotamálum. Kynbundið ofbeldi þar með talið kynferðisofbeldi gegn konum og börnum er óhuggulega útbreitt og því mikilvægt að beita öllum tiltækum ráðum til að kveða það niður. Síðast liðinn föstudag 11. maí boðuðu Jafnréttisstofa, Rannsóknarstofnun gegn ofbeldi og Háskólinn á Akureyri til fjölsóttrar ráðstefnu um birtingarmyndir ofbeldis, afleiðingar og úrræði í kjölfar endurmenntunarnámskeiðs sem haldið var við HA. Alls voru haldin sjö erindi á ráðstefnunni, hvert öðru betra og athyglisverðara.
Fyrst reið á vaðið Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur og doktorsnemi og fjallaði hún um eitt tiltekið tilfelli (e. case study) þar sem hún greindi sögu ákveðinnar konu út frá heilbrigðissögu hennar en konan varð fyrir kynferðisofbeldi á unga aldri. Þær langtímaafleiðingar sem komið hafa fram hjá henni koma heim og saman við fjölmargar rannsóknir sem sýna að alvarlegir andlegir og líkamlegir sjúkdómar hrjá þolendur alla ævi ef ekki er tekið á vandanum. Þær konur sem Sigrún hefur rannsakað og unnið með gegnum árin eiga það sameiginlegt að hafa gengið frá Heródesi til Pílatusar í leit að hjálp en aldrei voru þær spurðar hvort þær hefðu orðið fyrir ofbeldi. Ef þær sögðu frá því voru þess dæmi að blásið væri á slíkar sögur sem vitleysu. Heilbrigðiskerfið hefur til skamms tíma verið nánast ónæmt fyrir þessum mikla og dulda vanda. Enn vantar fræðslu um einkenni og afleiðingar kynbundins ofbeldis í nám fagstétta og á því þarf að ráða bót. Sigrún nefndi að nauðsynlegt væri að koma spurningum um ofbeldi alls staðar að í heilbrigðiskerfinu. 

Næst flutti erindi Sigríður Hrönn Bjarnadóttir geðhjúkrunarfræðingur. Hún er að ljúka mastersprófi og fjallar ritgerð hennar um konur sem eiga við geðsjúkdóma að stríða og njóta þjónustu Reykjavíkurborgar. Sigríður greindi sögu nokkurra þessara kvenna en þær eiga það nánast allar sameiginlegt að þjást af áfallastreituröskun. Alvarlegasta orsök áfallastreituröskunar er einmitt kynferðisofbeldi. Það er athyglisvert að 84% þeirra sem nýta sér þetta úrræði Reykjavíkurborgar eru konur. Það vakti athygli að þó nokkrar kvennanna höfðu orðið fyrir ofbeldi af hendi móður, jafnvel kynferðisofbeldi og trúarlegu ofbeldi. Þarna kom Sigríður inn á atriði sem hefur verið of lítið rannsakað hér á landi, þ.e. ofbeldi sem mæður beita börn sín. Sú spurning vaknar hver saga mæðranna er og hvernig félags- og menningarlegt munstur berst frá kynslóð til kynslóðar ef ekki er brugðist við.   

Eftir þessi háalvarlegu erindi birti til er Kristín Rós Óladóttir sjúkraþjálfari greindi frá árangri þerapíu sem hún hefur beitt, m.a. innan verkefnisins Gæfuspors á Akureyri þar sem unnið var með þolendum kynferðisofbeldis. Aðferðin sem Kristín beitir er kölluð Basic Body Awareness Therapy og gengur út á  að efla líkamlega skynjun og hjálpa viðkomandi að ná sambandi við líkama sinn. Það er vel þekkt að þolendur kynbundins ofbeldis, ekki síst kynferðisofbeldis, fá andstyggð og skömm á líkama sínum og „fara út úr honum“ til að forðast andlegan og líkamlegan sársauka. Meðferðin skilar góðum árangri og þarf að kynna miklu betur.

Eftir kaffihlé var röðin komin að Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Hann fjallaði um aðkomu lögreglunnar að kynbundnu ofbeldi af ýmsu tagi og þeim breytingum sem orðið hafa á skipulagi lögreglu höfuðborgarsvæðisins hvað varðar þau mál. Fyrir nokkrum árum var komið á fór sérstakri kynferðisbrotadeild og þar hefur verið byggð upp sérþekkingu á málaflokknum. Lagabreytingar hafa orðið til þess að lögreglan á auðveldara með að rannsaka mál og getur jafnvel hafið rannsókn þó að þolandinn vilji það ekki. Það er vel þekkt að iðulega eru þolendur í þannig stöðu (90% konur) að þeir þora ekki að kæra. Sú breyting er nú orðin á að lögregla getur fjarlægt ofbeldismann af heimili hans (austuríska leiðin) og samkvæmt lögunum ber lögreglu að tilkynna það til félagsmálayfirvalda. Þess má geta að í gangi er sérstakt samvinnuverkefni við barnaverndaryfirvöld þannig að  sérfræðingur er kallaður út ef börn eru á viðkomandi heimili. Slíkt hefur vonandi fyrirbyggjandi áhrif á ofbeldismenn. Þá má skjóta því að hér að rannsóknir hér á landi hafa leitt í ljós að töluverður fjöldi bæði þolenda og gerenda ofbeldis í nánum samböndum telur sér trú um (eða segir í það minnsta) að börnin á heimilinu verði ekki vör við ofbeldið. Rannsóknir á börnum leiða svo sannarlega annað í ljós. Stefán benti í sínu erindi á að það vanti sérstakt ákvæði inn í hegningarlög hér á landi um heimilisofbeldi eða það sem nú er kallað ofbeldi í nánum samböndum. 

Næst í röðinni var Svala Ísfeld Ólafsdóttir dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Svala ritstýrði nýlega bókinni Hinn launhelgi glæpur sem er greinasafn um kynferðisofbeldi gegn börnum. Erindi Svölu fjallaði um alla þá hæstaréttardóma sem fallið hafa frá stofnun Hæstaréttar 1920 þar sem kynferðisbrot gegn drengjum koma við sögu. Þeir dómar eru á þriðja tug talsins. Svala greindi brotin, m.a. eftir aldri brotaþola og gerenda, stöðu drengjanna gagnvart ofbeldismanninum o.fl. Í nokkrum tilfellum var um sama barnaníðing að ræða. Til að gera langa og mjög athyglisverða sögu stutta þá eru drengir í mestri hættu á aldrinum 10-15 ára (stúlkur eru yfirleitt yngri þegar ofbeldi gegn þeim byrjar). Drengjum stafar meiri hætta af þeim sem þeir þekkja ekki en þeim sem eru þeim nánir, meðan stúlkur verða miklu oftar fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karla í fjölskyldunni. 

Þá var röðin komin að Guðjóni H. Haukssyni framhaldsskólakennara og föður. Guðjón hefur kynnt sér ítarlega það efni sem börn eru að skoða á netinu sem og í tölvuleikjum, þar á meðal sýndi hann brot úr tónlistarmyndböndum sem eru löðrandi í klámi. Guðjón sagði að á 39. hverri mínútu væri byrjað á nýrri klámmynd í Bandaríkjunum og þær eru út um allt á netinu og auðvelt að nálgast þær. Guðjón sýndi líka myndbönd með frægum röppurum, innlendum sem erlendum, og þar er boðskapurinn vægast sagt klámfenginn og enginn skortur á léttklæddum konum sem eru körlum til þjónustu. Klámnotkun meðal drengja er mjög mikil og Guðjón spurði hvaða skilboð væri verið að senda til drengjanna. Hann nefndi að bandarískar rannsóknir bentu til að klámnotkun væri farin að hafa verulega slæm áhrif á sambönd kynjanna, ýmist vegna ranghugmynda um kynlíf eða vegna þess hve karlar eyða miklum tíma í klámheimum. 

Síðasta erindið flutti Steinunn Gyðu og Guðjónsdóttir verkefnisstýra hjá Stígamótum. Steinunn hefur yfirumsjón með Kristínarhúsi en það er heimili fyrir konur og karlar sem vilja komast út úr vændi. Heimilið hefur aðeins starfað í nokkra mánuði en þegar hafa 30 konur og nokkrir karlar leitað sér aðstoðar. Búið er að opna hjálparsíma fyrir fólk í vændi. Markmiðið er að aðstoða fólk við að komast út úr vændisheiminum en eins og vitað er tengist hann mjög oft bæði eiturlyfjaneyslu og skipulagðri glæpastarfsemi. Steinunn greindi frá tilraunum til að kanna eftirspurn eftir vændi en auglýsingar hafa m.a. verið settar inn á netið. Ótrúlegar margir karlar höfðu samband sem vekur margar spurningar um hugarheim þeirra. Kaup á vændi eru ólögleg hér á landi og það þarf að draga úr eftirspurninni með því að senda sterk skilaboð út í samfélagið um að kaupum á vændi viðhalda ofbeldi og misnotkun á fólki. Steinunn sagði frá því að í Svíþjóð væru karlar farnir að leita sér aðstoðar til að komast út úr vítahring vændiskaupa enda eru þau brot á lögum og algjörlega óviðunandi hegðun. 

Þar með lauk ráðstefnunni sem sýndi að þekking er stöðugt að aukast hér á landi á afleiðingum kynbundins ofbeldis og að sem betur fer fjölgar úrræðum bæði fyrir brotaþola og ofbeldismenn. 

KÁ.