Borgaraleg réttindi kvenna í 100 ár

Um þessar mundir fagna Norðurlöndin aldarafmæli kosningaréttar kvenna. Finnar héldu upp á áfangann árið 2006, Norðmenn árið 2013 og nú, árið 2015, er komið að Íslandi og Danmörku. Fyrir hönd framkvæmdanefndar Alþingis um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og RIKK, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, verður haldin alþjóðleg hátíðarráðstefna í Hörpu dagana 22.-23. október 2015. 
Markmið ráðstefunnar er að varpa ljósi á stöðu borgaralegra réttinda kvenna í innlendu, norrænu og alþjóðlegu samhengi. Fyrri daginn verður sjónum beint að baráttunni fyrir almennum kosningarétti á Norðurlöndum og þróun borgaralegra réttinda á síðustu hundrað árum. Síðari daginn verður leitast við að svara þeirri spurningu hvaða ógnir steðji að borgaralegum réttindum kvenna í dag.

Yfirskrift dagskrárinnar 22. október er; Lýðræði á Norðurlöndum. Dagskráin hefst að morgni með því að ávörp flytja Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastjóri UN Women, og Kira Apppel, formaður embættismannanefndar Norðurlandaráðs í jafnréttismálum.


Síðdegis 22. október verður haldin hátíðarmálstofa til heiður frú Vigdísi Finnbogadóttur sem hefst með ávarpi Tan Lin, forstöðukonu Women´s Studies Institute of China, en þátttakendur í málstofunni eru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, og Laura Ann Liswood, framkvæmdastjóri Council of Wopmen Woarld Leaders.


Þann 23. október hefst ráðstefnan með ávarpi Einars K. Guðfinssonar, forseta Alþingis. Þennan dag er einnig fjölbreytt dagskrá með mörgum áhugaverðum erindum, þar sem einkum verður fjallað um stöðu kvenna á opinberum vettvangi og þær hindranir sem helst standa í vegi fyrir auknu kynjajafnrétti. 

Ráðstefnan er bæði almenns og fræðilegs eðlis. Hún fer fram á ensku og er öllum opin og aðgangur ókeypis. Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku fyrir 16. október. Óskir um táknmálstúlkun þurfa að berast í síðasta lagi 14. október 2015. 

Ráðstefnan er skipulögð af RIKK í samstarfi við Femínista félag Íslands, Reykjavíkurakademíuna, MARK, Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna við HÍ, Rannsóknarstofnun í fötlunar fræðum við HÍ, Jafnréttisstofu, Sagnfræðistofnun HÍ og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

Frekari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér