Dagskrá 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi á Akureyri

16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi er alþjóðlegt átak sem rekja má allt aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins var valin til að tengja saman á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Átakið hefst 25. nóvember á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum og því lýkur 10. desember á hinum alþjóðlega mannréttindadegi. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.Undanfarin ár hafa ýmis félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir á Akureyri í samstarfi við Jafnréttisstofu og Akureyrarbæ séð  um undirbúning og framkvæmd 16 daga átaksins á Akureyri. Átakið beinist að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem manréttindabrot. Áhersla er lögð á að vera vakandi fyrir þeirri vá sem fylgir heimilisofbeldi sem er mjög falið vandamál í okkar samfélagi. Borgarar eru hvattir til að virða sjálfsögð réttindi allra til öryggis og vellíðunar á þeim griðastað sem heimilið á að vera og viðurkenna að heimilisofbeldi er aldrei einkamál. 

Í ár var ákveðið að setja Aflið samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi í forgrunn átaksins hér á Akureyri. Aflið var stofnað árið 2002 og hefur síðan þá verið bakhjarl einstaklinga, á Norðurlandi og víðar, sem orðið hafa fyrir kynferðis- og eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra. Aflið er með símavakt allan sólarhringinn og býður upp á einstaklingsviðtöl og sjálfshjálparhópa fyrir þolendur. Einnig eru í boði fyrirlestrar um starfsemi Aflsins og um afleiðingar kynferðis- og heimilisofbeldis. Öll þjónusta Aflins við þolendum og aðstandendum að kostnaðarlausu. 

Dagskrá 16 daga átaksins má finna hér

Samstarfs- og styrktaraðilar: Jafnréttisstofa, Akureyrarbær, Aflið, Háskólinn á Akureyri, VMA, Amnesty International, Sambíóin, Zontaklúbbur Akureyrar, Zontaklúbburinn Þórunn hyrna, Amtbókasafnið á Akureyri, Alþjóðastofa, Eymundsson, Soroptimistaklúbbur Akureyrar, Akureyrarkirkja, Mjólkursamsalan og Kaffi Ilmur.