Doktorsvörn í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands

Þann 15. júní 2012 ver Þorgerður H. Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína From Gender Only to Equality for All: A Critical Examination of the Expansion of Equality Work in Iceland. Dr. Ómar H. Kristmundsson, prófessor og varadeildarforseti Stjórnmálafræðideildar stýrir athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, kl. 15:00 og er öllum opin. Vörnin fer fram á ensku.Andmælendur eru: Dr. Malin Rönnblom, dósent í kynja- og stjórnmálafræði við háskólann í Umeå og dr. Auður Styrkársdóttir, forstöðukona Kvennasögusafns Íslands. Leiðbeinandi er dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði, auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Rannveig Traustadóttir, prófessor í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands og dr. Nina Lykke, prófessor í kynjafræði við háskólinn í Linköping í Svíþjóð.

Rannsóknin er framlag til ört vaxandi fræðasviðs um löggjöf og stefnumótun á sviði jafnréttismála, þar sem beitt er femínískum kenningum um samtvinnun (e. intersectionality). Jafnréttisumræða á Íslandi stendur á krossgötum. Markmið rannsóknarinnar er að skoða og meta þróun jafnréttisstarfs og -orðræðna frá áherslu á jafnrétti kynjanna og yfir í jafnrétti ýmissa minnihlutahópa og margþætta mismunun. Stuðst er við opinber gögn og viðtöl við þátttakendur í íslenskri jafnréttisorðræðu; annarsvegar „jafnréttisverkafólk“ sem sinnir jafnréttisstarfi og hinsvegar fulltrúa kvennahreyfinga, innflytjenda, samkynhneigðra, fatlaðra og aldraðra. Rannsóknin leiddi í ljós mikla togstreitu í umræðunni um útvíkkun jafnréttisstarfs. Niðurstaðan er sú að útvíkkun sé bæði æskileg og óhjákvæmileg því kynjajafnrétti verði ekki að fullu náð nema einnig sé tekið á misrétti sem byggist á stétt, kynþætti, þjóðerni, kynhneigð, aldri og fötlun. Áskorunin felst í því að finna lagalegan og stofnanalegan farveg til þess að sinna „jafnrétti allra“, án þess að missa sjónar á kynjajafnrétti.

Þorgerður H. Þorvaldsdóttir fæddist í Hafnarfirði árið 1968. Hún Lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1995, og MA prófi í kynjafræði frá The New School of Social Research, NY, 1998. Hún hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður við ReykjavíkurAkademíunna frá 1999. Sambýlismaður hennar er Ágúst Ásgeirsson, hann á einn son.