Doktorsvörn um karlmennsku og kyngervi í friðargæslunni

Fimmtudaginn 27. október fer fram doktorsvörn við Félags-og mannvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Helga Þórey Björnsdóttir doktorsritgerð sína 'Give me som men who are stout-hearted men, Who will fight for the right they adore' Negotiating Gender and Identity in Icelandic Peacekeeping. Rannsóknin lýtur að menningarlegum og félagslegum hugmyndum um karlmennsku og kyngervi eins og þær birtist í íslensku og alþjóðlegu samhengi. Lögð er áhersla á að varpa ljósi á slíkar hugmyndir í tengslum við sköpun kynjaðrar sjálfsmyndar hjá hópi íslenskra karlmann sem unnið hafa sem gæsluliðar hjá Íslensku friðargæslunni (ICRU) og sem geta í krafti kyngervis og félagslegrar stöðu, talist hluti af ríkjandi kynjanormi samfélagsins.

Í ritgerðinni er því haldið fram að slík staða hafi mótandi áhrif á hvernig einstaklingar skapa og birta kynjaða sjálfsmynd sína og að með athöfnum sínum og orðræðum stuðli þeir að því að styrkja og endurgera ríkjandi kyngerðir samfélagsins. Áhersla er einnig lögð á að skoða pólitískt og kynjað samhengi Íslensku friðargæslunnar eins og það birtist í opinberum orðræðum. Bent er á að stofnun friðargæslunnar og val og staðsetning verkefna hennar fyrstu árin hafi í raun verið órækt vitni um vaxandi áhrif karllægrar hugmyndafræði innan samfélagsins sem meðal annars átti sér hliðstæðu í útrásinni svokölluðu.

Rannsóknin leiðir í ljós að þótt íslenskir friðargæsluliðar hafi á ýmsan hátt andæft þeim 'framandlegu' siðum og reglum sem gilda innan þess hugmyndafræðilega rýmis sem friðargæsla er hluti af, þá hafi þeir í raun samsamað sig karllægri hugmyndafræði rýmisins.

Helga Þórey Björnsdóttir er fædd árið 1956. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1998, hóf nám í mannfræði við Háskóla Íslands það sama ár og lauk MA prófi 2004. Helga hefur sinnt rannsóknarstörfum og stundakennslu við Háskóla Íslands samhliða námi. Eiginmaður Helgu er Hilmar Hilmarsson skólastjóri og eiga þau tvo syni og tvö barnabörn.

Andmælendur eru Guðrún Haraldsdóttir doktor í mannfræði og dr. Marsha Henry lektor við The Gender Institute, London School of Economics and Political Science.

Leiðbeinandi er dr. Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Doktorsnefndina skipuðu dr. Ingólfur V. Gíslasyni, dósent við
Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, dr. Rachel Woodward, prófessor við The School of Geography, Politics and Sociology, Newcastle University, Bretlandi og dr. Valur Ingimundarson, prófessor við Sagnfræði- og hugvísindadeild Háskóla Íslands.

Dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, forseti Félags- og mannvísindadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal, Aðalbyggingu, og hefst klukkan 14:00.