Efling kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku - Fyrirlestur

Mánudaginn 26. maí kl. 12 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands verður haldinn fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Landsnefndar UNIFEM á Íslandi, um eflingu kvenna í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.

Í fyrirlestrinum mun Nadereh Chamlou, ráðgjafi um málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Alþjóðabankanum fjalla um helstu goðsagnirnar sem notaðar eru til skýringar á lakri stöðu kvenna í heimshlutanum. Hún mun skoða hvort þær eigi við rök að styðjast og hvaða raunverulegu lausnir séu í boði til að bæta stöðuna. Þá mun hún sérstaklega fjalla um efnahagslegar umbætur og frumkvöðlastarfsemi kvenna sem vörður í átt til jafnréttis.

Nadereh Chamlou er fædd og uppalin í Íran en sótti sér menntun í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur starfað fyrir Alþjóðabankann í 27 ár og á þeim tíma hefur hún sinnt stjórnunarstöðum í ýmsum deildum bankans. Hún hefur meðal annars fengist við stjórn efnahagsmála, þróun fjármálamarkaða og rekstrar í einkageiranum, auðlindamálefni (olía og gas), fjarskipti, skipulagsmál, umhverfismál, bókhald og endurskoðun, stjórnarhætti fyrirtækja og þekkingarsamfélagið.

Nú starfar Chamlou sem aðalráðgjafi um málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku þar sem hún leiðir stefnu Alþjóðabankans í málefnum kynja á þessum heimssvæðum ásamt því að veita bankanum ráðgjöf við innri stefnumótun. Chamlou er aðalhöfundur þriggja skýrslna sem bankinn hefur gefið út og nefnast „Kyn og þróun: Konur í opinbera geiranum,“ „Frumkvöðlaumhverfi kvenna í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku“ og „Stjórnarhættir fyrirtækja:  Rammareglur um innleiðingu“.

Halla Gunnarsdóttir blaðamaður stýrir fundinum.

Fyrirlesturinn fer fram á ensku og er opinn öllum. Aðgangur ókeypis.